

Fyrrum úrvalsdeildarmaðurinn Jonjo Shelvey segir að óvænt skref sitt yfir í fótbolta í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafi ekki verið vegna peninga.
Shelvey, 33 ára, sem hefur áður leikið með liðum á borð við Liverpool, Newcastle og tyrknesku félögunum Rizespor og Eyupspor, gekk nýlega til liðs við lið í þriðju deild í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hann segir ákvörðunina hafa verið tekin af bæði faglegum og persónulegum ástæðum.
„Fólk heldur að ég hafi farið hingað fyrir peningana,“ sagði hann í viðtali við BBC.

„En það er enginn peningur í þessari deild. Meðallaun leikmanna eru um 2.000 pund á mánuði, bróðir minn vinnur á hóteli í London og fær meira borgað.“
Shelvey segir að hann sé einfaldlega kominn á þann stað í lífinu að hann vilji njóta fótboltans og eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni. „Ég er ánægður og sáttur. Ég vil bara vakna á morgnana og hafa gaman af því sem ég geri.“
Hann bætti við að hann vilji ekki að börnin hans alist upp í Englandi lengur. „Þú getur ekki gengið með úr eða verið með símann úti á götu í London lengur,“ sagði hann.
Ákvörðun Shelvey kemur á sama tíma og fleiri íþróttastjörnur flytja til Dubai. Þar á meðal eru Rio Ferdinand og Ronnie O’Sullivan, sem sækjast í meira öryggi og minni skatta.