

Tekist var á um stuðning við einkarekna fjölmiðla á Alþingi í dag. Sjálfstæðismenn gagnrýndu veru RÚV á auglýsingamarkaði en Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, benti á að flokkurinn hefði ekki gert neitt og það hefði þurft að losna við hann úr ríkisstjórn til þess að hreyfing kæmist á þau mál.
„Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn viti ekki hvort hann er að koma eða fara í þessari umræðu,“ sagði Jóhann Páll í ræðustól í dag. „Annars vegar er talað gegn ríkisstyrkjum til fjölmiðla og hins vegar er talað eins og það sé heilög skylda ákveðinna fjölmiðla að fá svo og svo háa styrki.“
En samkvæmt nýju frumvarpi lækkar hámarksprósenta fjölmiðlastyrkja úr 25 í 22 prósent. Nær það til tveggja fjölmiðla, Morgunblaðsins og Sýnar.
Einnig að beina styrkjum í auknum mæli til landsbyggðar. En Jóhann Páll sagði stjórnarandstöðuflokkana ekki treysta sér til að styðja það jafn vel þó að þeir töluðu fyrir því.
„Svo tekur steininn úr þegar talað er um einokun á fjölmiðlamarkaði og Ríkisútvarpið. Hvað gerði þessi ágæti flokkur öll þau ár sem hann var í ríkisstjórn?“ spurði Jóhann Páll og beindi orðum sínum til Sjálfstæðisflokksins.
„Sannleikurinn er sá að það er fyrst núna sem er alvöru vinna í gangi í menningarráðuneytinu við nákvæmlega þetta, að endurskoða stöðu RÚV á fjölmiðlamarkaði. Það þurfti að losna við Sjálfstæðisflokkinn úr ríkisstjórn til að koma þeirri vinnu af stað,“ sagði hann.