fbpx
Mánudagur 17.nóvember 2025
Pressan

Trump enn með ásakanir í garð Biden – Var sjálfur forseti þegar þetta á að hafa gerst

Pressan
Sunnudaginn 12. október 2025 14:30

Trump og Biden. Mynd/samsett Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur verið iðinn að hreyta ónotum og alls kyns ásökunum í forvera sinn Joe Biden. Nýjasta ásökunin er að Biden hafi sent fjölda alríkislögreglumanna inn í hóp þeirra sem gerðu árás á þinghúsið í Washington 6. janúar 2021 en Trump getur þess þó í engu að hann var þá sjálfur forseti en ekki Biden sem hafði þar af leiðandi ekkert boðvald yfir Alríkislögreglunni. Segja andstæðingar Trump þetta enn eitt merki um að honum sé farið að förlast.

Trump var forseti Bandaríkjanna frá 20. janúar 2017 og fram til 20. janúar 2021. Hann tapaði forsetaskosningunum í nóvember 2020 fyrir Biden en neitaði að viðurkenna ósigur sinn og stuðningsmenn hans gerðu árás á þinghúsið 6. janúar 2021 til að koma í veg fyrir að kjör Biden yrði formlega staðfest. Árásinni var loks hrundið og Biden tók við embætti hálfum mánuði síðar en Trump var síðan kjörinn forseti á ný 2024 og tók við í janúar á þessu ári. Hann hefur náðað fjölda þeirra sem dæmdir voru fyrir þátt sinn í árásinni á þinghúsið og hefur undanfarið haldið því fram að Alríkislögreglan, FBI, hafi sent fjölda fulltrúa sinna inn í hópinn við þinghúsið. Hver tilgangurinn á að hafa verið með því er óljós og ekki hefur mikið farið fyrir sönnunum á þessum fullyrðingum.

Biden

Í færslu sem Trump skrifaði á samfélagsmiðil sinn Truth Social, í nótt að bandarískum tíma, segir hann að FBI Biden hafi sent 274 útsendara sína inn í hópinn við þinghúsið 6. janúar 2021. Sé þetta satt, sem það sé, eigi fjöldi góðs fólks inni afsökunarbeiðni:

„Hvílík svik. Gerið eitthvað.“

Biden var þó eins og áður segir ekki tekinn við forsetaembættinu þá og hvernig hann á að hafa farið að því að skipa FBI fyrir tekur Trump ekki fram. Hvort Trump sé með þessu að fullyrða að stjórnendur Alríkislögreglunnar hafi tekið þetta upp hjá sjálfum sér eða í samráði við Biden og hans fólk er óljóst. Í færslunni vísar hann ekki í nein gögn eða sannanir máli sínu til stuðnings.

Á þessum tíma var Christopher Wray forstjóri FBI. Hann var skipaður í embættið árið 2017 af Trump en þegar komið var fram á árið 2020 vildi forsetinn reka hann en hætti við. Wray hélt áfram í starfi eftir að Biden tók við en venjulega eru forstjórar FBI skipaðir til 10 ára í senn en forsetinn hefur vald til að reka viðkomandi. Trump tilkynnti síðan þegar hann náði kjöri á síðasta ári að hann myndi reka Wray þegar hann tæki við og ákvað forstjórinn þá að segja af sér á sama tíma og Biden lét af embætti.

Elli?

Anstæðingar Trump segja færsluna benda til að hann hafi gleymt hver var forseti 6. janúar 2021 og ellin sé greinilega að setja sífellt meira mark sitt á hann en forsetinn verður áttræður á næsta ári. Gavin Newsom ríkisstjóri Kaliforníu hefur reglulega hæðst að Trump með því að birta færslur á samfélagsmiðlum í svipuðum anda og forsetinn gerir, með meðal annars hástöfum og orðum sem gefa til kynna mikinn æsing. Newsom notar iðulega þessa leið til að gagnrýna Trump og halda fram andstæðum sjónarmiðum við forsetann. Í færslu á X-síðu fjölmiðladeildar skrifstofu ríkisstjórans er skrifað um áðurnefnda færslu forsetans:

„Trump man ekki hver var forseti 6. janúar 2021 ( hann var það). Hann hrópar undarlega „gerið eitthvað“ (líklega á skýin). Andleg vandkvæði hans eru mjög slæm.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Unglingsstúlka sagðist ofsótt af konudraugi — Síðan fannst hauskúpa konu í Hello Kitty dúkku

Unglingsstúlka sagðist ofsótt af konudraugi — Síðan fannst hauskúpa konu í Hello Kitty dúkku
Pressan
Fyrir 4 dögum

Verður leiddur fyrir aftökusveit á föstudag: Sagður vera stórskemmdur eftir áfengis- og eiturlyfjanotkun móður hans

Verður leiddur fyrir aftökusveit á föstudag: Sagður vera stórskemmdur eftir áfengis- og eiturlyfjanotkun móður hans
Pressan
Fyrir 5 dögum

Varar við ferðalögum til vinsæls áfangastaðar eftir óhugnanleg dauðsföll

Varar við ferðalögum til vinsæls áfangastaðar eftir óhugnanleg dauðsföll
Pressan
Fyrir 5 dögum

Ákærður fyrir tvö morð – Segir dulkóðuð skilaboð kakkalakka hafa sagt sér að drepa

Ákærður fyrir tvö morð – Segir dulkóðuð skilaboð kakkalakka hafa sagt sér að drepa
Pressan
Fyrir 6 dögum

„Svörtu ekkjurnar“ í Rússlandi

„Svörtu ekkjurnar“ í Rússlandi
Pressan
Fyrir 6 dögum

Hrottaleg saga ungs pars skekur Texas- „Við leggjum af stað í dögun“

Hrottaleg saga ungs pars skekur Texas- „Við leggjum af stað í dögun“