„Eitthvað truflaði hundinn þegar við nálguðumst brúna. Fyrst stífnaði hann upp en síðan var eins og undarleg orka helltist yfir hann og síðan hljóp hann og hoppaði út yfir brúarhandriðið.“
Svona lýsti einn hundaeigandi því sem gerðist þegar hann gekk nærri brúnni með hundinn sinn og saga hans er ekkert einsdæmi. Mörg hundruð hundar hafa að sögn stokkið fram af brúnni. Margir þeirra drápust á hvössum klettunum 15 metra fyrir neðan hana.
Þetta hljómar kannski eiginlega eins og eitthvert illt afl ná tökum á dýrunum og stýri þeim beint í dauðann. Minnir næstum því á atriði úr The Twilight Zone. En íbúarnir í Dumbarton vita að þetta er engin þjóðsaga eða atriði úr sjónvarpsþætti heldur bláköld staðreynd og þeir kalla brúna „Sjálfsmorðsbrú hundanna“.
Eins og gefur að skilja hefur brúin verið umtöluð í gegnum tíðina. Vísindamenn telja að um 300 hundar hafi stokkið fram af henni en fjölmiðlar telja að þeir séu allt að 600. Minnst 50 þeirra drápust.
Eins og svo oft eru margar kenningar á lofti um hvað valdi þessu. Sumir telja að rökrétt skýring sé á þessu, að þetta tengist landslaginu og lykt af spendýrum í gilinu undir brúnni. Þetta valdi því að hundarnir missi stjórn á sér. Aðrir leita skýringa í yfirskilvitlegum hlutum. Ekki er það til að draga úr dulúðleikanum að brúin er í rólegum og þéttum skógi.
Brúin var innblástur að heilum þætti í X-Files seríunni og heil bók hefur verið skrifuð um hana. En þrátt fyrir alla þá athygli sem hún hefur fengið hefur þessi ráðgáta ekki enn verið leyst.
Paul Owens, kennir trúarbragðafræði og heimspeki í Glasgow en ólst upp í bæ nærri brúnni. Hann gaf nýlega út bókina „The Baron of Rainbow Bridge: Overtoun’s Death Leaping Dog Mystery Unravelled“. Hann er sannfærður um að skýringanna sé að leita í yfirskilvitlegum heimi. Hann segist einfaldlega vera sannfærður um að draugur standi á bak við þetta allt.