Maðurinn var með myndavél á hjálminum sínum og hafði tekið upp margar klukkustundir af akstri sínum á bifhjólinu. Þegar lögreglan skoðaði upptökurnar misstu lögreglumennirnir andlitið.
„Ég held að ég hafi aldrei séð neitt þessu líkt. Við höfum ekki haft mál líkt þessu hér í umdæminu áður og við vonum að með rannsókn okkar og kærum, höfum við komið í veg fyrir að saklausir vegfarendur verði framvegis fyrir brjálæðisakstri af þessu tagi,“ er haft eftir Amrik Singh Chadha, yfirlögregluþjóni, í fréttatilkynningu frá lögreglunni.
Á upptökunum sést þegar ökumaðurinn, sem er 29 ára, ekur aðeins á afturhjólinu og fer mjög hratt yfir. Hann hefur nú verið kærður fyrir 25 brot af þessu tagi á grundvelli upptakanna. Hann hefur einnig verið kærður fyrir brot á hegningarlögunum fyrir að hafa stofnað lífi og öryggi annarra í hættu.
En þar með eru kærurnar ekki upptaldar, því hann hefur einnig verið kærður fyrir 38 tilfelli brjálæðisaksturs með því að aka of hratt.
Upptökurnar komu lögreglunni einnig á slóð tveggja annarra ökumanna sem tóku þátt í brjálæðisakstri með manninum.
Hald hefur verið lagt á bifhjól þremenninganna og þeir sviptir ökuréttindum.
Saksóknarar munu væntanlega krefjast þungra refsinga yfir þeim og að bifhjól þeirra verði gerð upptæk til ríkissjóðs.