Varaforsetaefni repúblikana, JD Vance, lenti í neyðalegu atviki í gær þegar tilraun hans til að ná höggi á frambjóðanda demókrata misheppnaðist stórkostlega.
Vance gekk ákveðinn að flugvél varaforsetans Kamala Harris, sem er að bjóða sig fram til forseta gegn Donald Trump. Vance var með blaðamenn með sér og ætlaði óboðinn að mæta í flugvélina, Air Force 2, til að rökræða við Harris. Þetta fór þó út um þúfur þegar Vance áttaði sig á því að flugvélin var tóm þegar hann sá bílalest Harris yfirgefa svæðið. Hann reyndi að bjarga andliti, sneri sér að blaðamönnum og sagði: „Ég vildi bara skoða framtíðarflugvélina mína“.
Hann náði því ekki að víkja sér að varaforsetanum en hann sagði við blaðamenn að hann hafi ætlað sér að heila upp á hana og spyrja hana hvers vegna hún neiti að svara spurningum fjölmiðla. Ekki er ljóst hvaða spurningum Harris hafi ekki svarað en hún hefur ítrekað kallað eftir því að Donald Trump mæti henni í kappræðum þann 10. september. Trump hafði samþykkt kappræðurnar þegar enn var útlit fyrir að hann væri að bjóða sig fram gegn Joe Biden Bandaríkjaforseta. Eftir að Biden steig til hliðar og Kamala tók við hefur Trump kallað eftir breyttu fyrirkomulagi kappræðnanna og heimtað að þær fari frekar fram á sjónvarpsstöðinni Fox.
Tæpri klukkustund eftir þetta neyðarlega útspil Vance birti framboð Harris myndband á TikTok til að hæðast að honum. Myndbandið birtist með hljóði sem kemur ekki frá Harris heldur er vinsælt undirspil á TikTok: „Nú vil ég bara setjast niður, slaka á og njóta kvöldsins, en þá allt í einu heyri ég þessa pirrandi og óþolandi rödd,“ segir í hljóðbrotinu og á myndbandinu mátti sjá Harris og varaforsetaefni hennar, Tim Walz, fyrir framan Air Force 2. Næst birtist mynd af flugvél framboðs Trump og Vance taka á loft.
(Sound up) pic.twitter.com/16z5CGwoOf
— Kamala HQ (@KamalaHQ) August 7, 2024
Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fara fram í nóvember og liggur nú ljóst fyrir að baráttan verður háð að miklu leyti á samfélagsmiðlum. Demókratar hafa sérstaklega fært baráttuna á samfélagsmiðlanna eftir að ummæli Tim Walz um að Trump og Vance væru „skrítnir“ settu þar allt á hliðina. T.d. hafa nú fjölmargar stúlkur og konur birt myndband á TikTok þar sem þær halda á köttunum sínum til að gagnrýna Vance fyrir ummæli hans um að konur sem kjósa að eiga ketti fremur en börn séu hættulegar samfélaginu.
@alina_bock Expecting #TikTok to do your thibk and start a #TikTokdance trend #childlesscatlady ♬ original sound – Alina Bock