Dallas Morning News fjallar um þetta en skólastjórnendur báru því við að litir hefðu mikil áhrif á skap nemenda.
Í tölvupóstinum, sem skólastjórinn Nick DeSantis lagði nafn sitt við, kom fram að markmiðið væri að „útrýma“ útliti sem hefði einkennt nemendur á síðasta ári og var þar svartur alklæðnaður nefndur. Slíkur klæðaburður tengdist þunglyndi, geðrænum vandamálum og glæpum.
Foreldrar, bæði núverandi og fyrrverandi nemenda, voru hreint ekki sáttir við þessar nýju reglur og sögðu að forræðishyggjan hefði gengið of langt. Ein móðir benti á að þó að fólk klæðist litríkari fötum sé manneskjan enn sú sama, hvort sem hún glímir við andleg veikindi eða ekki.
Skólinn hefur nú ákveðið að draga í land og sagði í yfirlýsingu að mistök hafi orðið þegar pósturinn var sendur út. Aðeins hefði verið um tilmæli um klæðaburð að ræða en ekki reglur. Málið verði unnið betur og kynnt fyrir bæði foreldrum og nemendum að þeirri vinnu lokinni.