Að eiga sér fá áhugamál, glíma við offitu og vera í mikilli kyrrsetu eru þau þrjú atriði sem talin eru spá best fyrir um þá sem þróa með sér heilabilun. Er þá átt við þá sjúkdóma sem hafa áhrif á heilastarfsemina þar sem Alzheimer-sjúkdómurinn er algengasta formið.
Rannsóknin var gerð í Bandaríkjunum af RAND-samtökunum og leiðir hún í ljós að til að minnka líkurnar á heilabilun, til dæmis þegar hætt er að vinna, sé gott að hafa áhugamál til að stunda, hreyfa sig reglulega – til dæmis með göngutúrum – og passa upp á mataræðið.
Peter Hudomiet, hagfræðingur sem leiddi rannsóknina, segir að þessi þrjú atriði vegi þyngra en önnur atriði eins og til dæmis reykingar.
Í umfjöllun Mail Online, sem fjallar um rannsóknina, er bent á að leikarinn heimsfrægi Chris Hemsworth hafi komist að því að hann beri gen sem auki líkurnar á að hann þrói með sér heilabilun. Til að minnka líkurnar á að hann þrói með sér heilabilun stundi hann mjög reglulega hreyfingu, hugleiðslu og passi vel upp á svefn og næringu.
Er bent á það í rannsókninni að það sé gagnlegt að fólk geri sér grein fyrir því hvað það getur gert sjálft til að takmarka líkurnar á sjúkdómum sem tengjast heilabilun.