The Guardian segir að bréf frá kennurum og stúdentum við skólann hafi verið lesið upp fyrir páfann. Í því var hann spurður hver afstaða kaþólsku kirkjunnar til stöðu kvenna í samfélaginu og kirkjunni er.
„Í gegnum tíðina hafa konur verið gerðar ósýnilegar. Hver er staða kvenna í kirkjunni,“ sagði meðal annars í bréfinu.
Páfinn hóf svar sitt með að benda á að kirkjan sé kvenkyns því ítalska orðið fyrir kirkju er kvenkyns. Því næst benti hann á að kona sé dóttir, systir og móðir.
En svar páfans var greinilega ekki það sem spyrjendurnir vildu heyra því skömmu eftir að páfinn yfirgaf háskólann sendi háskólinn fréttatilkynningu frá sér þar sem afstaða var tekin gegn ummælum hans. Er afstaða páfans til hlutverks kvenna í samfélaginu sögð vera „ákvarðandi og niðurlægjandi“.
Segist háskólinn harma þá íhaldssömu skoðanir sem páfinn setti fram um stöðu kvenna.
Páfinn hefur áður sagt, og lagt áherslu á, að konur muni aldrei fá að starfa sem prestar eða djáknar í kaþólsku kirkjunni. Hann sagði þetta meðal annars í fréttaskýringaþættinum „60 Minutes“ fyrr á árinu.