Drengurinn, sem heitir Aderrien Murry, hringdi og bað um aðstoð lögreglu á heimili sitt í Indianola í Mississippi vegna heimilisófriðar.
CNN hefur eftir móður hans, Nakala Murry, að barnsfaðir hennar hafi komið heim til hennar og hafi verið æstur og hafi hún því beðið Aderrien að hringja í lögregluna til öryggis.
Hún sagði að lögreglumaður hafi mætt á svæðið og komið upp að útidyrunum með skammbyssu í hönd. Hann hafi beðið þá sem voru inni að koma út. Þegar Aderrien hafi komið fyrir horn út úr stofunni hafi hann verið skotinn. „Ég skil þetta ekki. Sami lögreglumaður sagði honum að koma út úr húsinu og hann gerði það og var skotinn. Hann spurði í sífellu: „Af hverju skaut hann mig? Hvað gerði ég rangt?“,“ sagði hún.
Hún sagði að Aderrien hafi verið fluttur á sjúkrahús með samanfallið lunga, brákuð rifbein og skaddaða lifur. Hann var settur í öndunarvél og barkaþræddur. Hann fékk að fara heim nokkrum dögum síðar.
Lögreglan í Indiana staðfesti í samtali við CNN að lögreglumaðurinn sem skaut Aderrien heiti Greg Capers en veitti ekki frekari upplýsingar um málið.
Lögmaður Murray fjölskyldunnar sagði að Capers hafi verið sendur í leyfi á meðan rannsókn málsins stendur yfir.