fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Pressan

Harmræn fjölskyldusaga eins versta forseta Bandaríkjanna

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 29. maí 2023 21:00

Franklin Pierce

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Franklin Pierce (1804-1869) var fjórtándi forseti Bandaríkjanna og sat í embætti á árunum 1853-1857. Hann var demókrati og var ekkert sérstaklega hrifinn af þeirri hreyfingu sem var farið að vaxa ásmegin í Bandaríkjunum á þeim árum sem hann var forseti. Þessi hreyfing barðist fyrir afnámi þrælahalds en Pierce taldi slíka baráttu alvarlega ógn við einingu þjóðarinnar.

Það kom síðan í ljós fjórum árum eftir að Pierce lét af embætti að deilur um þrælahald ristu svo djúpt í bandarísku þjóðlífi að afleiðingarnar urðu borgarastyrjöld.

Sagnfræðingar meta almennt störf Franklin Pierce sem svo að hann sé einn versti Bandaríkjaforseti sögunnar. Honum mistókst t.d. algjörlega að draga úr sundrungunni sem var að skapast vegna deilnanna um þrælahald, enda hafði hann almennt ekkert á móti þrælahaldi og taldi það eitt skipta máli að halda Bandaríkjunum saman.

Einnig gerði ríkisstjórn hans misheppnaða tilraun til að taka yfir Kúbu. Honum hefur hins vegar verið hrósað fyrir að hafa tekist að koma á auknum viðskiptum við önnur ríki og einhverjir fræðimenn telja það ósanngjarnt að álasa honum fyrir að hafa ekkert gert til að stemma stigu við þrælahaldi. Þeir segja að hann hefði ekki getað gert meira en hann gerði, borgarastyrjöldin hefði þá einfaldlega brotist út fyrr.

Það sem gerir hins vegar forsetatíð Franklin Pierce harmræna eru þau miklu áföll sen hann þurfti að þola í einkalífinu.

Andstæður náðu saman

Franklin Pierce var opinn og ófeiminn. Hann þótti heillandi og átti auðvelt með að leggja nöfn og andlit á minnið. Þetta eru allt eiginleikar sem gagnast stjórnmálamanni. Eiginkona hans var hins vegar talsvert ólík honum.

Hún hét Jane Means Appleton, áður en hún giftist Pierce, og var tveimur árum yngri en hann. Þau gengu í hjónaband 1834. Hún var feimin, afar trúrækin og fyrirleit stjórnmál og allt sem viðkom þeim. Henni líkaði vistin í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington D.C.,  frekar illa. Þessi gerólíka sýn hjónanna skapaði oft spennu í hjónabandinu.

Raunar sagði Franklin Pierce eiginkonu sinni ekki strax frá því þegar hann ákvað að sækjast eftir tilnefningu sem frambjóðandi Demókrata í forsetakosningunum 1852. Hún var aldrei sérstaklega ánægð með að vera forsetafrú.

Jane var vilhöll undir sjónarmið góðtemplarareglunnar en eiginmaður hennar var alla tíð mikið gefinn fyrir sopann og myndi líklega í dag vera skilgreindur sem alkóhólisti.

Það má því segja að hjónin hafi vart getað verið ólíkari.

Jane átti við vanheilsu að stríða megnið af ævinni. Hún kvefaðist auðveldlega og glímdi við berkla stóran hluta fullorðinsáranna. Andleg veikindi lögðust einnig á hana en þar höfðu eflaust þau miklu áföll sem hjónin urðu fyrir mikið að segja.

Jane Pierce

Þeir dóu allir

Franklin og Jane Pierce eignuðust þrjá syni. Sá fyrsti, Franklin yngri, fæddist 1836 en lifði aðeins í þrjá daga. Næst kom Frank Robert sem fæddist 1839. Þegar hann var fjögurra ára sýktist hann af taugaveiki og lést.

Þriðji sonurinn, Benjamin, kom í heiminn 1841. Faðir hans var kjörinn forseti í nóvember 1852. Í byrjun janúar 1853, áður en Franklin sór embættiseið, sat hin þriggja manna fjölskylda um borð í lest á leið frá Boston til Washington.

Nærri bænum Andover í Massachusetts brotnaði hins vegar öxull í lestinni. Vagninn sem fjölskyldan sat í fór út af lestarteinunum og niður brekku þar sem hann brotnaði í tvennt. Franklin og Jane sluppu við meiriháttar meiðsl. Benjamin var hins vegar ekki svo gæfusamur. Hann kramdist til bana og höfuð hans var svo illa farið að það losnaði nánast frá líkamanum. Foreldrar Benjamin sáu bæði lík hans eftir slysið og var það þeim, þó sérstaklega móður hans, mikið áfall.

Benjamin var ellefu ára gamall þegar hann lést.

Benjamin Pierce

Síðar sagði Jane að slysið væri refsing Guðs vegna þess hégómleika manns hennar að sækjast eftir forsetaembættinu.

Í forsetatíð Franklin hélt Jane sig mikið til hlés. Áfallið við missa son í þriðja sinn setti þó sitt mark á Franklin einnig. Hann jók drykkjuna og þótti oft á tíðum ekki eins fylginn sér og hann hafði verið á sínum stjórnmálaferli.

Franklin stefndi á endurkjör í forsetakosningunum 1856 en Demókrataflokkurinn sneri við honum baki og hann hlaut ekki útnefningu á ný sem frambjóðandi flokksins. Hann gat því ekki annað en látið af embætti 1857.

Jane lést af völdum berkla 1863. Skorpulifur dró Franklin til dauða sex árum síðar. Þau eignuðust ekki önnur börn en synina þrjá sem þau misstu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Pressan
Í gær

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum
Pressan
Í gær

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þess vegna áttu ekki að sofna yfir sjónvarpinu

Þess vegna áttu ekki að sofna yfir sjónvarpinu
Pressan
Fyrir 2 dögum

Einn ríkasti maður Þýskalands sagður hafa sviðsett dauða sinn fyrir sex árum

Einn ríkasti maður Þýskalands sagður hafa sviðsett dauða sinn fyrir sex árum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Kannabis er orðið að milljarðaiðnaði í Bandaríkjunum – Hvaða áhrif hefur efnið á heilsu fólks?

Kannabis er orðið að milljarðaiðnaði í Bandaríkjunum – Hvaða áhrif hefur efnið á heilsu fólks?
Pressan
Fyrir 4 dögum

Mikill eldur í einni elstu byggingu Kaupmannahafnar

Mikill eldur í einni elstu byggingu Kaupmannahafnar