The Guardian segir að Kim hafi lagt af stað heim frá Primorye-héraðinu í austurhluta Rússlands eftir kveðjuathöfn á lestarstöðinni en einræðisherrann fór í brynvarinni járnbrautarlest sinni í þessa langferð.
Ferðin var fyrsta ferð hans út fyrir landsteinana í rúmlega fjögur ár. Hann hitti Pútín og heimsótti hergagnaverksmiðjur og verksmiðjur sem framleiða hátæknibúnað. Hann heimsótti einnig háskóla og horfði á sýningu í sædýrasafni.
Heimsóknin sýndi að Rússar og Norður-Kóreumenn eiga svipaðra hagsmuna að gæta en bæði ríkin eiga í útistöðum við Vesturlönd. Bandarískir og suðurkóreskir embættismenn hafa sagt að Kim gæti hafa fallist á að láta Pútín skotfæri í té gegn því að fá aðgang að háþróaðri tækni sem getur nýst í kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu.