Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna að þetta fólk hefur orðið fyrir samskonar skerðingu á hugrænni getu og fólk verður fyrir á aldrinum 50 til 70 ára. COVID-19-veikindin hafa sem sagt haft sömu áhrif á hugræna getu og venjulega gerist á 20 ára tímabili öldrunar. Sky News skýrir frá þessu.
Það voru vísindamenn við University of Cambridge og Imperial College London sem rannsökuðu þetta. niðurstöður þeirra benda til að hægt sé að finna ummerki um COVID-19-sýkingu rúmlega sex mánuðum eftir veikindi og að bati á hugrænni getu fólks sé í besta falli hægur og að fólk, sem fékk mild sjúkdómseinkenni, geti líka orðið fyrir áhrifum af þessu.
Fram kemur að vaxandi vísbendingar séu um að COVID-19 valdi varanlegri skerðingu á hugrænni getu fólks og andlegum vandamálum. Fólk sem nái sér af veikindum glími við margvísleg sjúkdómseinkenni mörgum mánuðum eftir að það sýktist. Meðal þessara einkenna eru „þreyta“, „heilaþoka“ erfiðleikar við að muna orð, svefntruflanir, kvíði og jafnvel áfallastreituröskun.