fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
Pressan

Alex Jones og Infowars – Setur fram staðlausar samsæriskenningar – Hugsjónamaður eða kaupsýslumaður?

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 21. mars 2020 22:00

Heitt í hamsi Alex á marga dygga stuðningsmenn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á síðustu tveimur áratugum hefur Alex Jones, sem er oft kenndur við Infowars, tekist að vera í sviðsljósinu með því að setja fram hverja staðlausu samsæriskenninguna á fætur annarri, með því að hella úr skálum reiði sinnar yfir allt og alla og með því að hræða fólk með dómsdagsspám. Samfélagsmiðlar hafa lokað á hann þar sem boðskapur hans byggist eingöngu á lygum og samsæriskenningum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir aðdáun sinni á Jones.

Á undanförnum árum hefur Jones kannski einna helst verið í sviðsljósinu vegna útilokunar hans frá samfélagsmiðlum og réttarhalda yfir honum fyrir að breiða út lygar um fjöldamorðin í Sandy Hook-grunnskólanum þar sem 20 fyrstubekkingar voru myrtir auk sex fullorðinna. Jones hefur haldið því fram að þetta eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og að um sviðsetningu hafi verið að ræða, leikarar hafi verið í hlutverkum syrgjandi foreldra. Ástæðan að hans sögn var að yfirvöld ætluðu að nota málið til að þrengja að reglum um skotvopnaeign Bandaríkjamanna. Hann var nýlega dæmdur til að greiða háar bætur til foreldra eins af börnunum sem voru myrt, fyrir þessar samsæriskenningar sínar og lygar. Óhætt er að segja að stjórnmálaskoðanir hans séu langt til hægri á hinu pólitíska litrófi og séu öfgahægrihyggja.

Jones hefur notað miðil sinn, Infowars, til að breiða út þennan boðskap og annað sem hann telur sig þurfa að koma á framfæri við umheiminn. Hann flokkar sjálfur Infowars sem fjölmiðil en ekki eru allir sáttir við þá flokkun og telja að frekar megi líkja Infowars við netverslun sem notar ummæli Jones til að selja varning sinn. Innkoma Infowars byggist að mestu á sölu á margs konar heilsubótarefnum, að minnsta kosti eru þau sögð vera það, og pökkum sem eiga að hjálpa fólki að lifa af ef samfélagið hrynur til grunna. Jones er iðinn við að ræða um þennan varning.

Svífst einskis Alex hefur meðal annars verið sakaður um að selja gervilyf gegn COVID-19 veirunni.

Reiðir miðaldra hvítir karlar

Í úttekt New York Times á ferli Jones kemur fram að hann hafi bæði sýnt mikil klókindi sem kaupsýslumaður og sem hugmyndafræðingur. Hann hafi lagað sig að breyttum tímum á pólitíska sviðinu og í fjölmiðlun og hagnist vel á því. Þetta hafi honum tekist þrátt fyrir að hafa reglulega farið yfir mörk þess sem telst viðeigandi hegðun gagnvart almenningi.

Á rúmlega tveimur áratugum hefur Jones, sem er nú 46 ára, tekist að byggja upp töluvert stóran og tryggan hóp stuðningsmanna. Þessi hópur samanstendur að mestu af reiðum, miðaldra, hvítum karlmönnum. Þessi hópur á það sameiginlegt að vilja hlýða á boðskap eins og Jones breiðir út, það er að ríkisstjórnin og opinberar stofnanir séu á eftir þeim og vilji til dæmis svipta þá réttindum á borð við að geta átt skotvopn. Boðskapurinn miðar einnig að því að byggja upp hugmyndir um að heimsendir, eða því sem næst, sé skammt undan og því verði þeir að vera enn frekar á varðbergi og enn betur vopnaðir til að lifa af.

„Ég er ekki kaupsýslumaður. Ég er byltingarsinni,“ sagði hann eitt sinn í viðtali. Ef það er rétt þá hefur honum tekist vel upp við að gera byltinguna að gróðamaskínu. Ekki er annað að sjá en að hann hafi áttað sig á að þeir sem hlusta á hann og fylgja honum að málum eru markhópurinn fyrir þær vörur sem hann selur í gegnum vefsíðu Infowars og samnefndan útvarpsþátt, varningur sem á að ýta undir þann ótta sem hann kyndir undir með orðum sínum. Infowars og tengd fyrirtæki eru einkafyrirtæki og þurfa því ekki að gera rekstrarniðurstöður sínar opinberar. En miðað við það sem Jones sagði fyrir dómi 2014 þá voru tekjur fyrirtækjanna rúmlega 20 milljónir dala. Gögn sem The New York Times komst yfir sýndu að þetta ár kom megnið af tekjunum af sölu á ýmsum varningi, til dæmis Super Male Vitality, sem á að sögn að auka magn testósteróns í líkamanum, og Brain Force Plus, sem á að efla vitræna starfsemi heilans. Dómskjöl, í tengslum við skilnaðarmál Jones, frá 2014 sýna að hagnaður fyrirtækja hans það ár var rúmlega 5 milljónir dala. Fólk sem hefur starfað með honum eða rannsakað umsvif hans segir að flest bendi til að tekjur hans hafi haldið áfram að aukast eftir þetta.

Vaxandi vandræði

En á undanförnum árum hefur Jones lent í ýmsum vandræðum. Að minnsta kosti fimm mál hafa verið höfðuð gegn honum, þar á meðal þrjú frá fjölskyldum barna sem voru myrt í Sandy Hook. Fyrrverandi starfsmenn hans hafa stefnt honum fyrir meinta mismunum á vinnustaðnum. Hann stóð í erfiðum dómsmálum vegna fyrrnefnds skilnaðar og forsjár yfir þremur börnum þeirra hjóna. Einnig tókust þau á um viðskiptaveldið.

Fyrir tveimur árum fóru stóru samfélagsmiðlarnir einnig að þrengja að honum. Facebook, YouTube, Twitter, Apple, Spotify og meira að segja Pinterest settu honum miklar takmarkanir þannig að hann átti erfitt með að ná til áheyrenda sinna. Síðar lokuðu miðlarnir algjörlega á hann. Þetta hefur eðlilega dregið úr möguleikum hans á að ná til þeirra sem vilja hlusta á hann og þar með á hann erfiðara með að auglýsa þær vörur sem honum hefur annars orðið vel ágengt með að selja áheyrendum sínum í gegnum árin. Hann verður því að mestu að láta sér nægja að koma boðskap sínum á framfæri í gegnum vefsíðu Infowars og í útvarpsþætti sínum sem er útvarpað á rúmlega 100 útvarpsstöðvum um öll Bandaríkin.

En Jones tókst auðvitað að gera sér mat og pening úr þessu og auglýsti ýmsar vörur á tilboði undir því yfirskini að það þyrfti að bjarga Infowars og internetinu frá yfirgangi samfélagsmiðlanna.

Skothelt gler

Infowars er með höfuðstöðvar sínar í byggingu í iðnaðarhverfi í Austin í Texas. Þar situr Jones bak við skothelt gler og breiðir út boðskap sinn. Húsið er ómerkt og margar eftirlitsmyndavélar eru á því. Hann bauð blaðamanni New York Times í heimsókn fyrir um tveimur árum gegn tveimur skilyrðum. Ekki mátti segja hvar höfuðstöðvarnar væru og að allt samtalið yrði tekið upp.

Jones vildi ekki upplýsa hversu marga starfsmenn hann er með en fyrir dómi 2017 sagðist hann vera með 75 starfsmenn og 10 verktaka. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að í viðtalinu sagði Jones að skotvopn væru geymd í höfuðstöðvunum, en þau væru aðeins til varnar ef þörf krefði.

Í viðtalinu sagði Jones að þau vandræði sem hann glímdi við væru sönnun þess að alþjóðlegt net vinstrisinnaðra samtaka vilji þagga niður í honum. Hann sagðist vita að tæknifyrirtæki, kínverskir kommúnistar, demókratar og hinir hefðbundnu fjölmiðlar ætluðu að nota hann í baráttunni gegn Trump, að rangtúlka það sem hann hefur sagt og klína því á Trump.

Sumir láta blekkjast Einhverjir trúðu því að Pizzagate væri raunverulegt og þyrfti að rannsaka betur.

„Rannsóknir“

Jones hvetur hlustendur sína oft til að „rannsaka“ lygarnar og kenningarnar sem hann setur fram. Ekki er útilokað að þetta hafi orðið til þess að einhverjir hlustendur hans hafi framið afbrot.
Árið 2000 náðu Jones og myndatökumaður hans að lauma sér inn á Bohemian Grove, þar sem alþjóðlegir kaupsýslumenn og stjórnmálamenn hittast í sumarfríi sínu, nærri Monte Rio í Kaliforníu. Þar tóku þeir upp myndbrot sem Jones fullyrti ranglega að sýndi „undarlega helgisiði“. Tveimur árum síðar fór þungvopnaður stuðningsmaður Jones inn á þetta sama svæði og kveikti í. Hann sagðist trúa orðum Jones um að þarna væru börn misnotuð kynferðislega og fólki væri fórnað.

Í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar 2016 hélt Jones ekki aftur af sér við að breiða út lygarnar um hið svokallaða „Pizzagate“ en því fólst að Hillary Clinton, sem atti kappi við Donald Trump um forsetastólinn, og demókratar starfræktu barnaníðingshring á pítsastað í Washington D.C. Edgar Maddison Welch, einn hlustenda Infowars, mætti síðan á pítsastaðinn síðla árs 2016 vopnaður árásarriffli. Hann hugðist rannsaka málið og bjarga börnum sem hann taldi að væri haldið föngnum á staðnum. Hann hleypti af skotum inni á staðnum en viðstaddir náðu að flýja. Hann var dæmdur í fjögurra ára fangelsi.

Jones hefur árum saman breitt út fyrrnefndar lygar um að engin skotárás og fjöldamorð hafi átt sér stað í Sandy Hook-grunnskólanum. Árið 2015 fékk Leonard Pozner, sem missti son sinn Noah í voðaverkinu í Sandy Hook, YouTube til að fjarlægja eitt af lygamyndböndum Jones um þetta. Í kjölfarið birti Jones upplýsingar um Pozner, hvar hann ætti heima og annað. Þetta kemur fram í dómskjölum. Lucy Richards, tryggur hlustandi Infowars, var síðar dæmd í fangelsi fyrir að hafa haft  í hótunum við Pozner eftir þetta. Hún hótaði að verða honum að bana. Pozner-fjölskyldan hefur síðan nánast verið í felum og stefndi Jones síðar fyrir þetta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Vinnuveitandi þjónustustúlkunnar lést – Það sem gerðist næst fór fram úr hennar villtustu draumum

Vinnuveitandi þjónustustúlkunnar lést – Það sem gerðist næst fór fram úr hennar villtustu draumum
Pressan
Í gær

Google Maps leysti dularfullt mannshvarfsmál

Google Maps leysti dularfullt mannshvarfsmál
Pressan
Fyrir 3 dögum

Sakamál: Hvað varð um Allyzibeth? – Var að fara að birta óþægilegar afhjúpanir

Sakamál: Hvað varð um Allyzibeth? – Var að fara að birta óþægilegar afhjúpanir
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hjúkrunarfræðingur og raðmorðingi – Nú er búið að kveða upp dóm

Hjúkrunarfræðingur og raðmorðingi – Nú er búið að kveða upp dóm