fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Pressan

Nokkrar af undarlegustu samsæriskenningum síðari tíma

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 9. nóvember 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur löngum vakið undrun margra af hverju lítill hluti fólks kýs að trúa einhverju sem ítarleg og margvísleg gögn sýna að ekki er rétt. Það virðist einfaldlega sem þetta fólki hafi engan áhuga á staðreyndum eða sönnunum, enda stendur það fast við sitt. Þetta á við um marga þá sem aðhyllast samsæriskenningar af einhverju tagi, þeir virðast hafa bitið í sig að ekkert annað geti verið rétt og skipta þá staðreyndir og jafnvel vísindaleg gögn engu máli. En samsæriskenningar af ýmsu tagi lifa góðu lífi og ekkert virðist bíta á trú margra á þeim. Hér ætlum við að nefna til sögunnar nokkrar af undarlegustu samsæriskenningum síðari tíma en samantektin er auðvitað engan veginn tæmandi því af nógu er að taka.

Paul McCartney er dáinn

Þessi kenning snýst um að Paul McCartney hafi í raun látist 1966 en andláti hans hafi verið haldið leyndu því þá voru Bítlarnir á hátindi frægðarinnar og máttu ekki við því að missa McCartney. Þeir eru því sagðir hafa ráðið tvífara hans til að taka stöðu hans og svo heppilega vildi til að tvífarinn gat einnig sungið svo hann passaði fullkomlega í hlutverkið. Þessu til sönnunar er bent á að hljómplötur frá síðari tíma Bítlanna vísi til þessa. Þar hefur til dæmis verið nefnt að The Sgt. Pepper‘s Lonely Hearts Club Band-hljómplatan fjalli um dauða McCartney, að minnsta kosti að hluta. Í laginu A Day in the Life segir til dæmis á einum stað: „He blew his mind out in a car“. Einnig megi heyra sagt: „Paul is dead, miss him, miss him“ sem er þó aðeins hægt að heyra ef lagið er leikið afturábak. Lennon umlar einnig „I buried Paul“ í lok „Strawberry Fields Forever“, en hann neitaði því síðar að einhver dulin meining væri í þessu og sagði að það sem hann hafi sungið væri: „cranberry sauce“. Einnig hefur myndin á umslagi Abbey Road-plötunnar verið nefnd þessari kenningu til stuðnings. Það er sú fræga mynd þar sem John Lennon, hvítklæddur, er í fararbroddi fyrir „líkfylgd“ sem er að fara yfir götu. Ringo Starr kemur næstur og er hann svartklæddur eins og sá sem syrgir en George Harrison, sem er síðastur, er í gallabuxum er hann sagður tákna þann sem tók gröf McCartney. Á undan honum er McCartney sem gengur ekki í takt við hina og er berfættur sem er að mati sönnun sumra fyrir að þarna sé um staðgengil hans að ræða þar sem hinn raunverulegi McCartney hafi verið látinn og skóleysið sanni það því látnir þurfi enga skó þegar þeir komi á áfangastað sinn.

Paul McCartney – Sprelllifandi eins og sést.

Elvis er enn á lífi

Konungur rokksins, Elvis Presley, lést 16. ágúst 1977, eða hvað? Ef samsæriskenningar eru réttar þá dó hann ekki þá. Hann er sagður hafa sviðsett eiginn dauða og hann starfi nú sem verkamaður í Graceland. Til að styðja þessa kenningu hefur meðal annars verið birt óskýrt myndband á YouTube af einstaklingi sem nefnir sig „The Shadow“. Í myndbandinu sést skeggjaður maður sem „The Shadow“ segir að sé Elvis 81 árs að aldri. Ekki eru allir sáttir við kenningar um að Elvis sé á lífi og vilja að hann fái „að hvíla í friði“ en samt sem áður er ósennilegt að trú á samsæriskenningar um að hann sé enn á lífi lognist út af á næstunni. En Elvis er orðinn 84 ára ef svo ólíklega vill til að hann sé enn á lífi.

Margir halda því fram að Elvis lifi.

CIA og AIDS

Allt frá því að fyrst var staðfest að veira, sem var nefnd HIV og orsakaði AIDS, væri til í Bandaríkjunum 1981 hafa verið uppi samsæriskenningar um uppruna hennar og ástæður fyrir því að hún varð til. Ein þeirra ótrúlegustu, sem nýtur mikillar hylli, gengur út á að bandaríska leyniþjónustan CIA hafi búið hana til samkvæmt fyrirmælum Richards Nixon Bandaríkjaforseta. Tilgangurinn með veirunni hafi verið að eyða samkynhneigðum og svörtu fólki af yfirborði jarðarinnar. Þekkt fólk hefur látið hafa eftir sér að það telji þessa kenningu rétta. Þar má til dæmis nefna Thabo Mbeki, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, sem hampaði kenningunni eitt sinn og sagði hana „draga í efa vísindalegar staðhæfingar um að veiran væri upprunnin í Afríku“. Hann sakaði Bandaríkjastjórn um að hafa búið hana til í tilraunastofum hersins. Vistfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Wangari Maathahai studdi einnig þessa kenningu. Gögn liggja fyrir um að þessi tenging CIA við veiruna hafi verið runnin undan rifjum sovésku leyniþjónustunnar KGB og hafi verið hluti af áætlun um að draga úr trúverðugleika Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Aðgerð KGB gekk undir heitinu „Aðgerð sýking“. Allan níunda áratuginn birtu Sovétmenn bréf frá „nafnlausum bandarískum heimildarmönnum“ sem staðhæfðu að veiran væri afleiðing tilraunar á vegum CIA sem hefði farið úrskeiðis. Þessi kenning náði góðri fótfestu og lifir góðu lífi enn þann dag í dag þrátt fyrir að flestir vísindamenn og læknar séu sammála um að veiran hafi borist í menn úr öpum í Kongó á fjórða áratug síðustu aldar.

Lyfjafyrirtækin leyna því að lækning sé til við krabbameini

Langlíf samsæriskenning gengur út á að læknar og vísindamenn með stór lyfjafyrirtæki í fararbroddi hafi fyrir löngu fundið lækningu við krabbameini en hafi haldi henni leyndri fyrir almenningi. Rökin á bak við þessa kenningu eru að svo miklir peningar séu í spilinu í tengslum við krabbameinsmeðferðir um allan heim að fyrirtækin vilji ekki fórna þeim. Ef lækningin væri kynnt til sögunnar myndi það draga mjög úr tekjum þeirra og þess utan myndu margir læknar og vísindamenn standa uppi verkefnalausir. Það er auðvitað ljóst að stóru lyfjafyrirtækin eiga ekki upp á pallborðið hjá mörgum en engin gögn hafa komið fram sem styðja þessa samsæriskenningu og ólíklegt verður að teljast að hægt væri að halda tímamótauppgötvun sem þessari leyndri því þúsundir ef ekki milljónir manna yrðu að taka þátt í að leyna henni. Þá má einnig hugleiða að það er eiginlega meira vit í því að selja lækninguna við krabbameini en leyna henni því það myndi eflaust gefa meira í aðra hönd en það sem fæst með núverandi meðferð við krabbameini. Í umfjöllun Forbes um málið er einnig bent á þá athyglisverðu staðreynd að vísindamenn séu manneskjur og að manneskjur geti ekki þagað yfir leyndarmálum og því væri ekki hægt að leyna uppgötvun á borð við þessa, ekki einu sinni í einn mánuð.

Geimverur í Stonehenge

Steinarnir í Stonehenge og uppröðun þeirra hefur löngum heillað fólk og valdið heilabrotum. Þeir hafa að vonum verið gjöful uppspretta samsæriskenninga. Ein áleitnasta spurningin í tengslum við þá er hvernig þeir, sumir allt að 50 tonn, voru fluttir til Stonehenge og raðað upp á þann hátt sem þeir standa enn þann dag í dag. Hjólið var ekki fundið upp fyrr en um fimm öldum eftir að talið er að Stonehenge hafi verið komið upp og því eru engin augljós svör við hvernig þessir stóru og þungu steinar voru fluttir. Margt af því sem vísindamenn vita um Stonehenge er byggt á upplýstum ágiskunum og rannsóknum sem eru sífellt í þróun. Niðurstöður einnar þeirrar nýjustu eru að steinarnir hafi alltaf, að meira eða minna leyti, verið þar sem þeir eru í dag. En ef vísindamenn lesa bækur á borð við „Chariots of the Gods?“ eftir Erich von Däniken þá komast þeir í kynni við kenningar um að margar fornar minjar á borð við Stonehenge, höfuðin á Páskeyju og pýramídana í Egyptalandi hafi verið byggðar með tækni og kunnáttu sem geimverur, sem líktust guðum, létu mannkyninu í té. En af hverju geimverurnar létu mannkyninu í té upplýsingar um hvernig átti að reisa steinana í Stonehenge en ekki upplýsingar um hjólið og gagnsemi þess er hins vegar stóra spurningin sem enn hefur ekki verið svarað af samsæriskenningasmiðum.

Geimverurnar hefðu getað sagt okkur mikið meira en bara hvernig ætti að raða upp grjóti.

Eðluelítan

„Eðlukenningin“ gengur út á að eðlur, sem eru í mannslíki, lifi meðal okkar og hafi það að markmiði að hneppa okkur í ánauð og gera okkur að þrælum. Því hefur verið haldið fram að bandaríski skemmtikrafturinn Bob Hope, breska konungsfjölskyldan og George W. Bush og Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, tilheyri eðlufólkinu. Það er sagt vera af ættflokki Anunnaki sem hafi komið til jarðarinnar í leit að verðmætum.

Karl Bretaprins er vampíra

Til eru samsæriskenningar sem ganga út á að Karl Bretaprins sé vampíra. Ekki kemur fram hvernig það fer saman við að tilheyra eðlufólkinu sem hann hlýtur að gera ef samsæriskenningin, sem var nefnd til sögunnar hér á undan, á við rök að styðjast. En hvað um það. Kenningin um vampírutengsl Karls á að vissu leyti sögulegar rætur og byggir á smávegis staðreyndum. Talið er að Karl sé afkomandi Vlads staksetjara sem var fyrirmynd Drakúla í sögu Brams Stoker. Prinsinn getur rakið ættir sínar til Vlads staksetjara í gegnum langalangömmu sína.

Hvar eru vampírutennurnar?

Í næstu viku höldum við áfram umfjöllun okkar um undarlegar samsæriskenningar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
Pressan
Í gær

Lögð í einelti í menntaskóla – Nú vilja gerendurnir ólmir vinna hjá henni

Lögð í einelti í menntaskóla – Nú vilja gerendurnir ólmir vinna hjá henni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Einn ríkasti maður Þýskalands sagður hafa sviðsett dauða sinn fyrir sex árum

Einn ríkasti maður Þýskalands sagður hafa sviðsett dauða sinn fyrir sex árum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Laus úr fangelsi og brátt laus úr hjónabandi – Þetta var dropinn sem fyllti mælinn

Laus úr fangelsi og brátt laus úr hjónabandi – Þetta var dropinn sem fyllti mælinn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Vaxandi áhyggjur af nýjum heimsfaraldri

Vaxandi áhyggjur af nýjum heimsfaraldri
Pressan
Fyrir 3 dögum

Við fórum heim til hans eftir stefnumótið – Síðan festist typpið hans í teinunum mínum

Við fórum heim til hans eftir stefnumótið – Síðan festist typpið hans í teinunum mínum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Mikill eldur í einni elstu byggingu Kaupmannahafnar

Mikill eldur í einni elstu byggingu Kaupmannahafnar
Pressan
Fyrir 4 dögum

Átta ára fangelsi fyrir að stela bíl – 89 ára blind kona í framsætinu – Myndband

Átta ára fangelsi fyrir að stela bíl – 89 ára blind kona í framsætinu – Myndband