Skattayfirvöld í Danmörku hafa auglýst eftir eigendum tæplega 800 reikninga í dönskum bönkum. Reikningseigendurnir, sem eru í nafngreindir í listum frá tólf dönskum bönkum, eiga tilkall til samtals 13,6 milljóna danskra króna sem gerir 275 milljónir íslenskra króna. Einn reikningur er sagður innihalda um 800 þúsund danskar krónur, um 16 milljónir og sjö þeirra yfir 100 þúsund danskar krónur, 2 milljónir króna. Fjallað er um málið á vef danska miðilsins Berlingske Tidende.
Allir eiga reikningseigendurnir það sameiginlegt að þurfa að bæta við ítarlegri upplýsingum um sjálfan sig, að öllum líkindum í tengslum við lög og reglur sem eiga að koma í veg fyrir peningaþvætti.
Lítill tími er til stefnu en eftir mánudaginn 29. apríl næstkomandi verður reikningunum lokað og munu innistæðurnar renna í danska ríkisskassann.
Á þessari síðu má finna lista frá bönkunum tólf þar sem í mörgum tilvikum eru gefin upp nöfn þeirra reikningseigenda sem hafa á hættu að missa peningainneignir sínar til danskra yfirvalda. Við stutta leit má sjá allnokkur íslensk nöfn á listanum enda fjölmargir landsmenn sem hafa búið í lengri eða skemmri tíma í Danaveldi.
Ef möguleiki er að þú eigir danskan bankareikning er um að gera að athuga málið hið fyrsta.