fbpx
Sunnudagur 16.júní 2024
Fréttir

Farsímanotkun undir stýri getur haft áhrif á bótarétt ökumanna

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 24. maí 2024 09:28

Mynd: Unsplash.com

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Farsímanotkun undir stýri getur haft áhrif á bótarétt ökumanna í bílslysamálum. Tekið er hart á slíku að sögn Hrefnu Sigurjónsdóttur, verkefnastjóra forvarna hjá Sjóvá.

„Ef stjórnandi ökutækis veldur slysi og í ljós kemur að hann hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi eins og að nota farsíma, snjalltæki eða önnur raftæki sem truflað geta akstur án handfrjáls búnaðar þá getur það haft áhrif á bótarétt. Dómstólar og úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum hafa slegið því föstu að ólögleg notkun farsíma undir stýri telst stórfellt gáleysi sem getur haft í för með sér skerðingu bótaréttar eða jafnvel að þær verði felldar alveg niður. Sama gildir um kaskó,“ segir Hrefna og bætir við: „Því meira sem gáleysið er þeim mun meiri verða áhrifin á bótarétt viðkomandi sem getur einnig átt von á að fá sig endurkröfu vegna bóta sem greiddar hafa verið til annarra aðila sem lentu í slysinu. Ýmis dæmi eru um svona mál þar sem farsímanotkun hefur haft áhrif á gáleysismat.“

Hrefna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa birti á dögunum skýrslu um slys sem varð á Suðurlandi á síðasta ári þar sem ungur ökumaður lét lífið. Talið er líklegt að skert athygli ökumanns vegna farsímanotkunar hafi vegið þungt í tildrögum slyssins en rannsókn leiddi í ljós að hann hafði notað farsímann rétt áður en slysið varð. Afleiðingar þess að hafa ekki fulla athygli við aksturinn geta verið alvarlegar og falið í sér mikinn miska, harmleik og sorg fyrir marga. Þá er ótalinn sá samfélagslegi kostnaður sem fylgir slysum og telur tugi milljarða.

Árlega látast eða slasast alvarlega um 200 manns í umferðinni. „Þetta eru þá slys sem hafa í för með sér alvarleg meiðsli og tjón og fólk getur verið alla ævi að kljást við afleiðingarnar. Það getur haft hræðilegar afleiðingar fyrir fólk að lenda í slysi og ekki síður fyrir þá sem valda slysum. Sú lífsreynsla getur valdið mikilli sálarkvöl. Því er gríðarlega mikilvægt að ökumenn axli ábyrgð, hafi fulla athygli við aksturinn og fari varlega í umferðinni.“

Ef stjórnandi ökutækis notar farsíma eða snjalltæki án handfrjáls búnaðar við akstur er lögreglunni heimilt að sekta ökumann um 40.000 krónur og 1 refsipunkt í ökuferilsskrá. Hrefna nefnir að þessi sekt mætti mögulega vera hærri í takt við alvarleika, verðlagsþróun og aðrar sektir: „Um þessar mundir er til dæmis verið að sekta fólk fyrir að aka um á nagladekkjum eftir miðjan maí og þar er sektin 20.000 krónur á hvert dekk sem gera þá iðulega 80.000 króna sekt. Færa má rök fyrir því að meiri hætta sé fólgin í því að aka undir áhrifum farsímans.“ 

Herferð gegn farsímanotkun við akstur

Á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar (WHO, World Health Organization) kemur fram að skert athygli við akstur vegna farsímanotkunar sé einn stærsti áhættuþáttur umferðarslysa á heimsvísu.

Samgöngustofa í samvinnu við tryggingarfélagið Sjóvá hefur því ákveðið að hrinda af stað herferð gegn farsímanotkun undir stýri sem ber yfirskriftina: EKKI TAKA SKJÁHÆTTUNA sem kynnt var í síðustu viku. Hrefna bendir á að rannsóknir hafi sýnt að truflun af völdum farsíma skerði frammistöðu bílstjóra á ýmsa vegu. Viðbragðstíminn verður lengri einkum við hemlun en einnig viðbrögð við umferðarmerkjum og ljósum.

„Ökumenn í síma halda síður viðeigandi fjarlægð á milli bíla og halda sig síður á réttri akrein. Að tala í farsíma dregur úr viðbragðshraða um 18%. Sérstaklega er skaðlegt að skrifa og lesa skilaboð undir stýri en að skrifa skilaboð dregur úr viðbragðshraða um 35%. Aukin notkun á skilaboðum meðal ökumanna er því mikið áhyggjuefni og einnig veldur það áhyggjum að fólk virðist taka eina hegðun út fyrir sviga. Stór hluti telur ekki hættulegt að stjórna tónlist og þess háttar í síma en sú hegðun er varasöm og skerðir athygli verulega.“ 

Rannsóknir Samgöngustofu sýna að tæplega 60 prósent ökumanna segja að farsímanotkun annarra ökumanna í umferðinni trufli þá eða auki álag á þá við akstur. Ef skoðað er hvaða hópar truflast mest við notkun annarra á farsíma í umferðinni sést að þessi hegðun hefur mest áhrif á fólk á aldrinum 18-34 ára. Þrátt fyrir að fólki finnist almennt að símanotkun við akstur sé hættuleg þá segjast um það bil 40% ökumanna oft, stundum eða sjaldan tala í símann undir stýri. Hér er því sannarlega rými til úrbóta.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum
Leiðrétting um Carbfix
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar