fbpx
Mánudagur 17.júní 2024
Fréttir

Frosti endurheimti verðmæti sem stolið var frá honum í innbroti – „Hver dagur er hrikaleg barátta hjá þessu fólki“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 25. maí 2024 12:00

Frosti Jón Runólfsson. Mynd: Valgarður Gíslason.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hluti verðmæta sem stolin voru í innbroti í Hátún á fimmtudag frá kvikmyndagerðarmanninum Frosti Jóni Runólfssyni fannst í gistiskýlinu við Lindargötu á föstudag. Frosti var á vettvangi og sá er lögreglumenn leiddu þjófinn út úr gistiskýlinu í járnum.

DV greindi frá forsögu málsins á fimmtudagskvöld. Innbrotið átti sér stað síðdegis á fimmtudag og meðal þess sem var tekið voru flakkarar með ómetanlegu og óbætanlegu myndefni af fjögurra ára dóttur Frosta:  „Mikilvægust eru þessi vídeó af dóttur minni. Ég er búinn að vera að dokúmentera hana eins og hvert annað verkefni síðan hún fæddist og er kominn með upp í tugi klukkutíma af henni, búinn að raða inn í rétta tímaröð og inn í kippiforrit, þannig að einn daginn geti hún séð sögu sína.“

Sem betur fer var þetta efni endurheimt í aðgerðum lögreglu á föstudag. Frosti hafði þá eftir krókaleiðum komist að því hvar þýfið, eða hluti þess, var niðurkomið. „Flakkararnir voru mikilvægastir og þeir skiluðu sér. Þessi raunasaga fékk því góðan endi,“ segir Frosti og lýsir atburðarásinni: „Lögreglan var í málinu og ég var með alla anga úti. Heyrði í alls konar fólki sem ég hef kynnst í gegnum árin.“ Sá sem aðstoðaði hann mest var vinur sem lifir reglusömu lífi í dag en var áður í neyslu og þekkir vel heim utangarðsfólks. „Hann var að hringja út um allt og sankandi að sér upplýsingum. Við fórum saman í nokkra bíltúra og fórum á nokkra af þeim stöðum sem komu til greina. Svo hringdi hann í mig og sagðist vera búinn að finna þetta. Við keyrðum saman og enduðum í gistiskýlinu við Lindagötu.“

Þar var sökudólgurinn og hluti af þýfinu, meðal annars flakkararnir með hjartfólgna efninu. En fyrir tilviljum kom lögreglan á vettvang á sama tíma og leiddi manninn út í járnum. Stuttu síðar gerði Frosti grein fyrir sinni stöðu í málinu niðri á lögreglustöð og endurheimti flakkarana. Eitthvað af því sem stolið var frá Frosta í innbrotinu er ófundið en hann segir að það skipti ekki máli, myndefnið á flökkurunum var ómetanlegt og núna er það komið aftur í hendur hans. Hann er því alsæll með málalokin. Hins vegar er hann hugsi yfir hlutskipti fólks eins og mannsins sem braust inn hjá honum. Hann telur að það væri hægt að draga mikið úr svona afbrotum með skaðaminnkandi úrræðum.

Vorkenndi manninum

Frosti vill koma því á framfæri að hann telur að þetta atvik sé birtingarmynd þess ófremdarástands sem ríki í málefnum utangarðsfólks á Íslandi. „Það þarf að styðja meira við skaðaminnkandi úrræði og hlúa betur að þessum hópi fólks sem er bara að leita að næsta skammti. Það væri hægt að leysa vandann ef Ísland legði einhvern smá pening og metnað í verkefnið því þetta er ekki það stór hópur. Það á að vera hægt að hjálpa þeim með því af afglæpavæða neysluskammta og styðja við skaðaminnkandi úrræði svo þetta fólk geti fengið sitt læknadóp og haldið áfram með líf sitt, í stað þess að brjóta af sér. Það hefur sýnt sig og sannað hvað mikil jákvæð breyting er fólgin í því.“

Frosti segist ekki vera reiður við manninn sem braust inn hjá honum heldur vorkenna honum. „Hver dagur er hrikaleg barátta hjá þessu fólki. Það meikar sens að leggja örlítið meira af skattpeningunum okkar í að hjálpa þeim. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka lögreglunni fyrir frábær störf í málinu en um leið vil ég benda á að tíma lögreglunnar væru svo miklu betur varið í annað ef við gætum aðstoðað betur fólk í þessari stöðu svo það þyrfti ekki að brjóta af sér. Lögreglan er að díla við manneklu og sjúklegt álag. Það væri jákvætt á alla kanta fyrir samfélagið að gera betur í þessum málum.“

Frosti vill að lokum senda þakkir til allra sem hjálpuðu til við að endurheimta þýfið, meðal annars með því að deila upplýsngum á samfélagsmiðlum. En hugur hans er hjá fólki með fíknisjúkdóma sem þarf á hverjum degi að berjast í örvæntingu fyrir næsta skammti. Hann telur löngu tímabært að leysa bráðavanda þessa fólks.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum
Leiðrétting um Carbfix
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar