fbpx
Mánudagur 17.júní 2024
Fréttir

Afar sérstætt forsjármál fyrir Héraðsdóm Reykjaness – Faðirinn hefur ekki sést í tíu ár og hætta á að syninum verði vísað úr landi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 25. maí 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona sem er íslenskur ríkisborgari, fæddist í Víetnam og bjó þar fram til ársins 2017, berst fyrir því að fá fulla forsjá yfir syni sínum á Íslandi. Faðir barnsins er talinn búa einhvers staðar í Japan en hefur ekki haft samband við son sinn í tíu ár. Tilraunir til að fá hann til fundar um forsjá barnsins hafa verið árangurslausar. Föðurnum hefur núna verið stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjaness og þar krefst stefnandi, móðir drengsins, þess að hún fái fulla forsjá með barninu.

Stefna málsins var birt í Lögbirtingablaðinu á föstudag, lögum samkvæmt, þar sem ekki hefur tekist að birta föðurnum hana. Í stefnunni er farið yfir málavexti og sú staða dregin upp að drengurinn, sem er fæddur árið 2011, lifir hér í landinu án kennitölu og hætta er á að honum verði vísað úr landi ef móðirin fær ekki fullt forræði yfir honum. Sagan er eftirfarandi, eins og hún er rakin í stefnunni:

„Stefnandi máls þessa er íslenskur ríkisborgari. Hún fæddist í Víetnam og bjó þar þar til í byrjun árs 2017 er hún flutti til Íslands í kjölfar þess að hún gekk í hjúskap með Íslendingi. Áður hafði hún, í janúar árið 2011, eignast dreng en stefndi er faðir hans. Stefndi, sem á þessum tíma var búsettur í Víetnam, hefur aldrei haft nein afskipti af drengnum, aðeins í fáein skipti hitt hann og hefur raunar ekki hitt hann síðan árið 2013 eða 2014 og ekkert hefur til hans spurst síðan. Eftir að stefnandi flutti hingað til lands var drengurinn alfarið búsettur hjá ömmu sinni og afa í Víetnam.

Eftir að stefnandi flutti til Íslands gerði hún tilraun til að fá dvalarleyfi fyrir drenginn, en þeirri beiðni var hafnað. Rökin fyrir þeirri höfnun eru þau, að ekki sé hægt að sýna fram á gögn varðandi að stefnandi hafi forsjá yfir drengnum. Vandamálið er, að slík gögn eru ófáanleg í Víetnam. Hefur stefnandi fengið ýmsar yfirlýsingar frá yfirvöldum, en þær eru ekki teknar gildar þar sem ekki er um formlegar forsjáryfirlýsingar að ræða heldur frekar yfirlýsingar sem ritaðar eru af stefnanda og staðfestar af yfirvöldum í Víetnam. Hefur stefnandi t.a.m. ráðfært sig við lögmann í Víetnam til að finna út úr því hvernig er hægt að fá lögformlega staðfestingu á því að stefnandi fari ein með forsjá drengsins, en það hefur reynst ómögulegt. Ástæða þess er gefin upp sem sú, að nafn föður komi fram á fæðingarvottorði og að úr þessu verði ekki leyst nema með aðkomu föðurins. Sem ekki finnst.

Þrátt fyrir mikla leit að stefnda yfir margra ára tímabil hefur reynst óvinnandi vegur að hafa upp á honum. Bæði hefur verið gerð tilraun til þess í Víetnam, sem og gegnum tengilið í Japan, en faðirinn er japanskur ríkisborgari. Þá var leitað ásjár japanska sendiráðsins á Íslandi, en þeir munu ekki aðhafast neitt í málinu. Þá hefur verið haft samband við ræðismann Íslands í Saigon (Ho Chi Minh City) í Víetnam, sendiráð Íslands í Beijing í Kína og sendiráð Víetnams í Danmörku, allt án nokkurs árangurs. Það hefur reynst stefnanda óvinnandi vegur að hafa upp á stefnda um langt árabil og er löngu orðið útséð með að stefnandi kemur aldrei til með að hafa upp á honum. Þá var leitað til sáttamiðlara, sem einnig reyndi ítrekað og árangurslaust að hafa upp á stefnda.

Á endanum fór það svo, að stefnandi fékk vegabréfsáritun fyrir drenginn til að koma hingað til lands sem ferðamaður. Var það eina leiðin til að drengurinn fengi að koma hingað til lands. Kom stefnandi ásamt drengnum til Íslands þann 21. júlí 2022. Hefur drengurinn verið hér síðan, en vitanlega er vegabréfsáritunin fyrir langt löngu útrunnin. Hefur drengurinn eigi að síður fengið að ganga í skóla hér undanfarna tvo vetur, í {XXXXXXXXXXXXX}, þar sem hann gengur undir nafninu {XXXXXX}. Nafn sem hann kaus sér sjálfur og hyggst taka formlega upp. Og yfirvofandi hljóta síðan að vera aðgerðir Útlendingastofnunar, vegna ólöglegrar dvalar hans hér á landi.

Drengurinn er því hér á landi án kennitölu og nokkurra réttinda. Þá getur stefnandi vitanlega ekki farið með hann í ferðalög út fyrir landsteinana, enda fengi hann ekki inngöngu hingað aftur ef hann fer út fyrir landamærin. Til þess að svo verði, þarf hann að fá hér dvalarleyfi. Og grunnforsenda fyrir því að hann fái hér dvalarleyfi, er að stefnandi geti sýnt fram á að hún fari ein með forsjá hans. Er mál þetta höfðað af því tilefni.“

Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 26. júní.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum
Leiðrétting um Carbfix
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar