fbpx
Þriðjudagur 18.júní 2024
Fréttir

Sló nokkur leitarorð inn í Google – Stuttu síðar hafði hún tapað aleigunni

Ritstjórn DV
Föstudaginn 24. maí 2024 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Jo O‘Brien hafði gengið frá skilnaði við eiginmann sinn taldi hún að nú væri rétti tíminn til að sýna ákveðna útsjónarsemi í peningamálum. O‘Brien fékk sem nemur rúmum 45 milljónum króna í sinn hlut þegar eignir þeirra hjóna höfðu verið gerðar upp.

Jo, sem er Ástrali, ákvað að fara á Google og leita eftir því hvernig væri best að ávaxta peninginn. Þetta var í maí 2022 og sló hún inn leitarorðin „The best fixed-term investment rates“.

Ýmislegt kom í ljós og leist henni vel á eina af fyrstu niðurstöðunum sem virtist vera frá ráðgjafafyrirtæki sem einmitt ráðleggur efnamiklu fólki um bestu ávöxtunarleiðirnar. Setti hún sig í samband við fyrirtækið þar sem henni var svarað fljótt og vel og henni boðnar ráðleggingar um hvað best væri að gera.

Næsta dag fékk hún símtal frá þremur mönnum sem allir sögðust starfa fyrir mismunandi fjármálafyrirtæki í Ástralíu, sagðist einn til dæmis vinna fyrir hið rótgróna fyrirtæki AMP.

Það var fátt sem benti til þess að um svik væri að ræða. Þeir sem hringdu notuðu nöfn alvöru starfsfólks, símtölin virtust koma frá umræddum stofnunum í Sydney og hún var beðin um að fylla út form á netinu sem virtust vera í gegnum vefsíðu AMP. Þeir virtust þar að auki afar þolinmóðir og beittu engri pressu til að fá peningana frá henni.

Byggðu þeir upp traust hægt og rólega og áður en yfir lauk hafði Jo millifært 45 milljónir, nær allar eigur sínar, inn á bankareikning svikaranna.

Það var svo í júní 2022 að hún skráði sig inn á heimabanka síns viðskiptabanka, Commonwealth Bank, en þar biðu hennar skilaboð um að hafa samband við bankann. Hún segist aldrei gleyma símtalinu sem hún átti við starfsmann bankans. Sagði starfsmaðurinn hafa grunsemdir um að hún hefði verið svikin.

„Ég var að keyra þegar ég talaði við hann og þurfti að stöðva bílinn. Ég skalf og titraði og gat ekki talað. Þetta var eiginlega aleigan mín,“ segir hún.

Hún segist vera óhress með vinnubrögð bankans og segir að viðvörunarbjöllur hefðu átt að hringja þegar millifærslurnar fóru fram – ekki eftir þær. Jo var ekki sú eina sem lenti í þessu tiltekna svindli en alls töpuðu níu ástralskir ríkisborgarar samtals 155 milljónum króna í svindlinu. Enn sem komið er hefur enginn verið handtekinn vegna málsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt