fbpx
Mánudagur 17.júní 2024
Fréttir

Vill að faðir verði sviptur umgengni við son sinn – Lögregla hefur tvisvar þurft að fjarlægja hann af leikskólalóðinni

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 23. maí 2024 19:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rúmlega fertugum karlmanni hefur verið stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjaness og þess krafist að hann verði sviptur forsjá yfir sex ára syni sínum og enn fremur að hann verði sviptur umgengnisrétti við barnið. Það er móðir barnsins sem höfðar málið. Manninum hefur verið birt fyrirkall og stefna í Lögbirtingablaðinu þar sem ekki hefur tekist að hafa upp á honum. Er hann þó talinn vera í landinu en er óstaðfestur í hús og ekki er vitað um vinnustað hans.

Fólkið var í sambúð sem lauk árið 2021 en drengurinn fæddist árið 2018. Í stefnu segir að eftir sambúðarslitin hafi alvarleg geðræn vandamál gert vart við sig hjá föðurnum og hafi hann komið fram með ofbeldi gegn móður og barni. Í stefnunni segir um málavexti:

„Hinn 8. nóvember 2021 var lögregla fyrst kölluð að heimili stefnanda vegna ofbeldis af hálfu stefnda gagnvart stefnanda. Til 25. nóvember s.á. var lögregla margsinnis kölluð að heimilinu vegna heimilisofbeldis, eignaspjalla og líkamsárása. Þá var lögregla í tvígang kölluð að leikskóla barnsins þar sem stefndi var í annarlegu ástandi og þurfti lögregla 12. nóvember að fjarlægja stefnda af leikskólanum með valdi. Fór svo að 17. nóvember 2021 lagði stefnandi beiðni til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um nálgunarbann gagnvart stefnda sem var samþykkt 26. nóvember 2021.“

Konan hefur lengi sóst eftir fullri forsjá yfir barninu en án árangurs. Sáttaumleitanir hafa ekki borið árangur. Í stefnunni segir að faðirinn hafi brugðist forsjáskyldum og skorti hæfi til að sinna barninu. Er einnig staðhæft að núverandi fyrirkomulag forsjár grafi undan stöðugleika og öryggi í lífi barnsins:

Stefndi hefur ítrekað brotið gegn forsjár- og uppeldisskyldum sínum skv. 2. og 3. mgr. 28. gr. bl., auk þess sem stefndi hefur ekki verið til staðar fyrir barnið frá nóvember 2021. Þá hefur stefndi ekki sinnt boðum Sýslumanns eða svarað skilaboðum er varða barnið. Er ljóst að stefndi hefur brugðist forsjárskyldum sínum og skortir hæfi til að sinna barninu í samræmi við 2. og 3. mgr. 28. gr. bl. Stefndi hefur ítrekað brotið gegn barninu og stefnanda og er forsjá og umgengni stefnda við barnið því augljóslega andstæð högum þess. Telur stefnandi að verði stefndi ekki sviptur umgengnisrétti við barnið gæti það stofnað því í hættu, þvert á megininntak 1. og 2. mgr. 1. gr., sbr. 2. mgr. 34. gr. bl.

Stefnandi telur að núverandi fyrirkomulag forsjár og áframhaldandi umgengni grafi undan stöðugleika og öryggi í lífi barnsins. Stefndi hefur ekki burði til að veita því þá vernd og umönnun sem það á rétt á skv. 1. mgr. 1. gr. bl. Stefndi hefur jafnframt sýnt með háttsemi sinni að barninu sé hætt komið í návist hans. Réttindum barnsins yrði best gætt með því að dæma stefnanda fulla forsjá og með dómi svipta stefnda umgengnisrétti, sbr. lokamálslið 1. mgr. 47. gr. bl., sbr. 5. mgr. 34. gr. sömu laga, sbr. og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sbr. lög nr. 19/2013. Réttur barnsins til lífs án ofbeldis gengur framar rétti stefnda til umgengni við barnið.

Konan segist óttast áframhaldandi ofbeldi mannsins í garð síns og barnsins. Telur hún öryggi barnsins stefnt í voða ef ekki verði gengið að kröfum hennar.

Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 26. júní næstkomandi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum
Leiðrétting um Carbfix
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar