fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

TÍMAVÉLIN: Bjórlíkið breytti drykkjumenningu Íslands – „Sumir höfðu áhyggjur“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 11. júní 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1983 stigu veitingamenn á staðnum Gauk á Stöng fram á sjónarsviðið og hófu að bjóða upp á nýjung í áfengismenningu Íslendinga, svokallað bjórlíki sem var blanda af pilsner og sterku víni.

Aðrir fylgdu í kjölfarið og upp hófst sannkallað æði. Stjórnvöld gripu í taumana en snerist sú aðgerð í höndunum á þeim með þeim afleiðingum að sala á bjór var leyfð árið 1989. Guðvarður Gíslason, veitingamaður á Gamla Bíó, sem rak Gaukinn á sínum tíma, ræddi við DV um þennan stórmerkilega drykk.

Breiddist hratt út

Guðvarður og fjórir félagar hans opnuðu Gauk á Stöng þann 19. nóvember árið 1983 á Tryggvagötu 22 í Reykjavík. Var talað um að bjórkrá væri að opna þó að sala bjórs hefði verið óheimil síðan áfengisbannið var sett á árið 1915. Þegar áfengisbanninu var aflétt árið 1935 var bjórinn undanskilinn.

Það var hins vegar ekki eiginlegur bjór sem var seldur á Gauknum heldur svo kallað bjórlíki, blanda af pilsner og sterku áfengu víni. Hinir framtakssömu ungu stofnendur Gauksins höfðu kynnst samkomuvenjum erlendis, sér í lagi í Þýskalandi, og vildu færa þá menningu hingað til lands. Ekki þurfti að borga sig inn á staðinn og ekkert dansgólf til staðar. Þetta var eiginlegur pöbb sem bauð samt einnig upp á mat og var opinn lengur en aðrir staðir. Þetta greip landann strax og fljótlega fóru aðrir staðir að taka upp á þessu. Guðvarður segir:

„Eftir að við byrjuðum með bjórlíkið fór þetta að sjást á öðrum stöðum eins og Hellinum, Fógetanum og fleiri veitingastöðum víða um land sem vildu vera með í trendinu.“

„Á tímabili vorum við með vel yfir hundrað manns í hádeginu í mat“

Fólk varð ágætlega drukkið

Hvað var í bjórlíkinu?

„Hver og einn staður var með sína eigin uppskrift að því. Uppistaðan var yfirleitt vodka, kláravodka eða einhver týpa af því. Svo voru menn að skella út í þetta alls kyns bitterum og fleiru til að fá meira eða öðruvísi bragð.“

Hvað var þetta sterkt?

„Það get ég ekki alveg sagt til um en alla vega urðu menn ágætlega drukknir af því. Við á Gauknum vorum með einn líter af 40 prósent sterkum vodka á móti 18 lítrum af 2,25 prósent sterkum pilsner. Ég get alveg viðurkennt að við vorum ekkert endilega að reikna út hversu sterkt þetta var. Stundum drakk fólk of mikið af þessu og misstu það út úr sér, rétt eins og gengur og gerist í dag.“

Guðvarður segir að sjálfsagt hafi drykkir svipaðir bjórlíki verið blandaðir í heimahúsum áður en ekki í því formi þeir gerðu. Fólk hafi blandað sterka drykki út í pilsnerinn sinn rétt eins og gosið. En á Gauknum og öðrum stöðum var bjórlíkið sett á kolsýrukút og afgreitt rétt eins og bjór.

Var þetta svipað og bjór á bragðið?

„Já, ég get nú ekki neitað því. Á þessum tíma var nánast ekkert til nema lagerbjór með minna áfengismagni. Þessir craft-bjórar og IPA-bjórar voru ekki til en reyndar voru Belgar að framleiða einhvern munkabjór í flöskum.“

Hvaða hópar voru það aðallega sem drukku bjórlíki?

„Fólk af öllum stærðum og gerðum, allur skalinn. Sérstaklega fólk sem hafði ferðast erlendis og jafnvel búið þar og þekkti þessa menningu. Ég man eftir félagsskap nokkurra eldri karla sem voru alveg vitlausir í að komast í þetta á miðvikudögum eftir fundahöld. Það var stemning í kringum þetta og fólki fannst gaman. Þetta hafði líka þau áhrif að lifandi tónlist jókst á veitingastöðum. Við á Gauknum vorum að selja mat og það kom fjöldi fólks í hádeginu til að borða og fá sér bjórlíki með. Á tímabili vorum við með vel yfir hundrað manns í hádeginu í mat.“

Tíminn 19. nóvember 1983

Keyrt undir bjórlíkisáhrifum

En tilkoma bjórlíkisins var ekki aðeins glaumur og gaman fyrir alla. Ríkisvaldið sá að þarna hafði myndast æði og vildi stoppa þetta í fæðingu. Fór svo að reglugerð var sett af Jóni Helgasyni dómsmálaráðherra um að drykkir yrðu að vera blandaðir fyrir framan gestina og því bjórlíki veitingastaðanna bannað í september árið 1985.

„Sumir höfðu áhyggjur af bjórlíkisæðinu og það var verið að taka suma undir áhrifum undir stýri og þvíumlíkt. Jón var mikill templari og einhverjir náðu að sannfæra hann um að koma banninu á. Jóni fannst hann líka vera svikinn því við á Gauknum sóttum um veitingaleyfi eins og hver annar en meirihlutinn af sölunni hjá okkur var þessi drykkur.“

Umræða um að fólk væri að keyra undir áhrifum bjórlíkis var mjög hávær og skrifað um það í blöðin. Einn varkár ökumaður skrifaði í Morgunblaðið 8. nóvember árið 1984:

„Þessir „sönnu“ Íslendingar hvolfa í sig bjórlíkinu, dásama kráarmenningu, fá sér tvær þrjár kollur í viðbót og keyra svo heim! „Hvað eru nokkrar bjórkrúsir? Maður finnur varla á sér af þessu,“ er viðkvæði þessa fólks, sem bragðar áfengi í fyrsta sinn á ævinni um 13 ára aldur og drekkur síðan þá tegund, helst óblandað brennivín.“

En góðtemplararnir urðu undir í baráttunni og eftir að bjórlíkið var bannað reiddist almenningur. Guðvarður segir:

„Bannið á bjórlíkinu varð nú aðeins til þess að æsa upp almenning og stuttu síðar fór fólk að heimta að sala á bjór yrði leyfð og árið 1987 var málið komið inn á borð Alþingis. Bjórlíkið og bannið á því hjálpaði til við að bjórinn yrði leyfður.“

Í maí árið 1988 gekk í gegn lagasetning sem heimilaði bruggun og sölu bjórs yfir 2,25 prósentum áfengismagns. 1. mars ári síðar var bjórinn leyfður á Íslandi en bjórlíkið sneri aldrei aftur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar