fbpx
Laugardagur 23.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Hverju eigum við að leita að?

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 8. desember 2018 19:00

SETI Leitin að lífi á öðrum hnöttum hefur staðið yfir lengi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og er vitum við ekki til þess að líf sé að finna annars staðar í alheiminum en hér á jörðinni. Margir telja að eina lífið í alheiminum sé hér á jörðinni en öðrum finnst það vægast sagt ótrúlegt enda er alheimurinn risastór, svo stór að við vitum ekki hversu stór hann er. Áratugum saman hefur verið hlustað eftir merkjasendingum frá vitsmunaverum utan jarðarinnar og með hverju árinu eykst þessi leit. En hverju á að leita að? Hvaða ummerki gæti líf utan jarðarinnar skilið eftir sig þannig að við gætum séð það?

Það eru fleiri en ein aðferð til að leita að lífi, sérstaklega vitsmunalífi, sem gæti verið að finna í alheiminum. Ef líf er þar að finna getum við vænst þess að það sé í ýmsum formum, allt frá einfrumungum til samfélaga sem eru milljónum eða milljörðum ára eldri en samfélag okkar mannanna. Það gefur eiginlega auga leið að við getum ekki notað sömu aðferðir við leit að einfrumungum og við leit að háþróuðum tæknivæddum samfélögum vitsmunavera. Af þessum sökum verðum við að vita að hverju við erum að leita og hvaða aðferðir við viljum nota. Þá vaknar sú spurning hvort við eigum að veðja á að leita að lifandi verum eða eigum við frekar að leita að samfélögum sem geta gert vart við sig með útvarpsmerkjum, geimförum eða á annan hátt?

Flestir telja eflaust að það sé meira spennandi að finna vitsmunalíf utan jarðarinnar en örverur sem synda í sjó á plánetu í órafjarlægð. Það er einmitt þetta sem starf SETI, Search for Extra-Terrestrial Intelligence, snýst um en stofnunin leitar að vitsmunalífi utan jarðarinnar. Fram að þessu hefur leitin byggst á að hlusta eftir útvarpsmerkjum utan úr geimnum og stundum hefur verið leitað að lasermerkjum. Á vísindaráðstefnu í byrjun árs velti Jill Tarter, einn helsti rannsakandi SETI á undanförnum áratugum, því fyrir sér hvort þessar aðferðir dugi til, einar og sér. Skoðun hennar er að SETI snúist í raun ekki um leit að vitsmunalífi því við getum ekki skilgreint hvað vitsmunalíf er.

 

Tækni og greind er ekki það sama

Eins og Jill Tarter sagði þá eru það ummerki um tækni sem við leitum að og þar með notum við tækni sem einhvers konar ímynd greindar en vandinn er að það er ekki hægt að segja að tækni og greind séu það sama. Það má til dæmis ímynda sér mjög greind dýr sem lifa í vatni og geta því ekki notað eld sem er einmitt ein af grunnstoðum tækni mannkynsins.

Leit SETI að lífi utan jarðarinnar er kannski það sem flestir kannast við í þessum málaflokki en það eru miklu fleiri sem vinna saman að þessu en aðferðirnar eru ekki alltaf þær sömu. Stærsti hluti þessarar leitar og rannsókna snýst um að finna merki um líf á annarri plánetu og væri því tekið fagnandi þótt aðeins fyndist merki um örverur.

Það eru aðallega líffræðingar og tæknisinnaðir vísindamenn sem vinna að rannsóknum sem þessum. Líffræðingarnir leita að lífsmerkjum en þeir tæknisinnuðu að merkjum um tækni.

Lífsmerki eru öll lífræn ummerki sem líf sendir frá sér, það gæti til dæmis verið gastegund í andrúmslofti eða lífræn efni á yfirborði plánetu sem, að því er við best vitum, verða aðallega til fyrir tilstuðlan lifandi vera. Hér á jörðinni má nefna súrefni til sögunnar sem dæmi um þetta.

Merki um tæki eru ummerki um að tækni sé til staðar. Þetta getur verið ýmislegt fleira en útvarpsmerki. Þar má nefna geimför eða svokallað Dyson-hvolf þar sem heilu sólkerfi hefur verið breytt af vitsmunaverum til að tryggja tilvist þeirra enn betur.

 

Getur verið erfitt að greina á milli

Það getur verið erfitt að greina á milli þess sem er náttúrulegt og tæknilegt. Eitt besta dæmið um það er að 1877 fluttu fjölmiðlar fregnir af því að skurðir væru á Mars og að þeir væru gerðir af vitsmunaverum sem hefðu verið að veita vatni frá pólum Mars niður til þurru svæðanna við miðbaug. Nú vitum við að skurðirnir voru sjónvilla sem varð til þegar reynt var að sjá smáatriði á lítilli rauðri plánetu í gegnum stóran sjónauka. Það er kannski hægt að brosa að þessu í dag en dæmi úr nútímanum er ekki ólíkt þessu.

Fyrir sjö árum uppgötvuðu vísindamenn að stjarna í um 1.300 ljósára fjarlægð hegðaði sér undarlega. Birtustigið frá henni veiktist um 15 prósent 2011 og 22 prósent tveimur árum síðar. Þetta var of mikið til að hægt væri að skýra þetta með því að pláneta hefði farið fyrir hana og skyggt á hana. Því voru margir sannfærðir um að hér væri um Dyson-hvolf að ræða þar sem vitsmunaverur hefðu beinlínis virkjað stjörnuna og byggt stóran hlut sem væri á braut um hana. Þetta gat verið mikill fjöldi sólarsella sem var á braut um stjörnuna og hefði þá eðlilega skyggt á hana. En mælingar frá því á síðasta ári sýna að hér var um rykský að ræða sem skyggði á stjörnuna. Þannig er auðvelt að fara villur vegar enn þann dag í dag.

Það er heldur ekki auðvelt að túlka lífsmerki. Það virðist kannski liggja beinast við að leita að nýrri jörð með bláum höfum, hvítum skýjum og súrefnisríku andrúmslofti. En við megum ekki gleyma að jörðin hefur ekki alltaf litið svona út. Hún hefur breyst í gegnum tíðina og ef við hefðum séð hana fyrir nokkrum milljörðum ára hefðum við eflaust afskrifað hana sem plánetu þar sem líf gæti þrifist. Þá samanstóð andrúmsloftið að mestu af köfnunarefni, metan, koltvísýringi og vatni en nær engu súrefni. Þrátt fyrir það var líf hér á jörðinni, örverur sem þoldu ekki súrefni og sumar þeirra framleiddu metan. Svona var jörðin fyrir um það bil tveimur til fjórum milljörðum ára. Þá má ekki gleyma að jörðin hefur að minnsta kosti einu sinni verið alþakin ís og engum hefði eflaust dottið í hug að líf gæti þrifist á slíkum stað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Herra Hnetusmjör fær sinn eigin sjónvarpsþátt: „Þetta verður ekkert 18 plús“

Herra Hnetusmjör fær sinn eigin sjónvarpsþátt: „Þetta verður ekkert 18 plús“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stærsta Tarantino myndin til þessa – Sjáðu fyrstu kitluna

Stærsta Tarantino myndin til þessa – Sjáðu fyrstu kitluna