fbpx
Föstudagur 29.maí 2020
Fókus

Fréttamaður RÚV bjargaði lífi Henný á síðustu stundu – Mögnuð íslensk ástarsaga

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 17. september 2018 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1938 munaði minnstu að Íslendingar vísuðu saumakonu sem hér bjó, Henný Goldstein, beint í gin nasista. Að öllum líkindum hefði það þýtt endalok hennar, sonar hennar og móður, enda voru þau gyðingar. Björgun Hennýjar var sú að íslenskur velvildarmaður, Hendrik Ottósson, var tilbúinn til að kvænast henni og varð hún þar með íslenskur ríkisborgari. Með þeim þróaðist ást sem varði út ævina en Henný missti hins vegar bæði bróður sinn og barnsföður í helförinni.

Ráku hótel í Kólumbíu

Henný Ottósson, var hún kölluð eða Henný Ottósson Goldstein. Fæðingarnafn hennar var hins vegar Jóhanna Lippmann. Hún fæddist þann 28. mars árið 1905 í Berlín, dóttir Leos og Minnu Lippmann, austurprússneskra gyðinga. Þegar Henný var níu ára hófst hildarleikurinn fyrri milli stórveldanna í Evrópu. Leo barðist þar fyrir keisarann á austurvígstöðvunum. Hann var handsamaður af Rússum en sleppt í stríðslok og lést mjög heilsuveill árið 1919. Tvo bræður átti Henný sammæðra, Harry og Siegbert Rosenthal.

Henný var laghent saumakona og lærði kjólasaum. Um tíma starfaði hún sem forstöðukona tískuhúss í Berlín. Henný giftist Róberti Goldstein árið 1926 en hann var tólf árum eldri en hún. Þau eignuðust drenginn Pétur Lothar ári síðar og fluttu þá til borgarinnar Medellin í Kólumbíu. Þar störfuðu þau á glæsihóteli sem bróðir Róberts átti. En hjónabandið varð skammlíft og árið 1930 skildu þau loks. Fluttu þau þá bæði aftur til Þýskalands og hafði Henný drenginn hjá sér.

Henný, Pétur og Róbert.

Kom allslaus til Íslands

Á þessum tíma voru miklar hræringar í Þýskalandi. Landið var eitt það frjálslyndasta í Evrópu á þriðja áratugnum og gyðingar þrifust ágætlega. En sá hópur stækkaði ört sem kenndi þeim um stríðsófarirnar í fyrri heimsstyrjöldinni og efnahagsþrengingarnar í kjölfarið. Nasistar voru á hraðri uppleið og þeir nýttu sér stjórnmálaóreiðu Weimar-tímabilsins. Þessi þróun fór ekki fram hjá gyðingum í Þýskalandi og eftir að nasistar komust til valda árið 1933 fóru bæði Henný og Róbert að ókyrrast.

Róbert flutti yfir landamærin til Frakklands en Henný sá auglýsingu í þýsku dagblaði þar sem auglýst var eftir kjólameistara á Íslandi. Ákvað hún að slá til, sigldi árið 1934 ein til Reykjavíkur og hóf störf hjá saumastofunni Gullfossi í eigu Helgu Sigurðsson.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, rannsakaði sögu Hennýjar og skrifaði um hana grein í tímaritið Þjóðmál árið 2012. Í samtali við DV segir hann:

„Ég tel að hún hafi áttað sig á því að henni yrði ekki líft þarna og það var mjög skynsamlegt af henni að koma til Íslands. Hún var mjög fær kjólameistari, varð vinsæl í sínum störfum og kom með tískuna með sér frá Berlín.“

Henný kom allslaus til Íslands og vissi lítið um landið. Það var mikið menningarsjokk að flytja frá heimsborg á borð við Berlín til smábæjar á hjara veraldar eins og Reykjavík var. Ráðning hennar hjá Gullfossi var til eins árs og þegar það var liðið bauðst henni þriggja ára framlenging sem hún þáði. Sendi hún þá eftir móður sinni og syni, sem var þá átta ára gamall.

Giftingin lífsbjörg

Á þessum tíma kynntist Henný Hendrik Ottóssyni, tungumálakennara og síðar fréttamanni hjá Ríkisútvarpinu. Hendrik var mjög vinstrisinnaður og gallharður andstæðingur nasista. Auk þess hafði hann mikinn áhuga á trúarbrögðum og sérstaklega gyðingdómi. Hendrik var því í forsvari fyrir þá sem vildu að gyðingar fengju hæli á Íslandi en staða þeirra fór versnandi dag frá degi í Þýskalandi.

Árið 1938 var samningur Hennýjar að renna út og vildi hún þá losna undan honum sem fyrst og stofna eigin saumastofu. En eigandinn undi því ekki og sendi inn tilkynningu til stjórnvalda um að dvalarleyfið væri að renna út og bæri því að vísa henni úr landi.

Hendrik bauðst þá til þess að kvænast Henný og sú varð raunin það sama ár. Eftir giftinguna var Henný orðinn íslenskur ríkisborgari og því ekki hægt að vísa henni úr landi. Eigandi stofunnar kærði Henný hins vegar fyrir samningsbrot og var hún dæmd til að greiða skaðabætur.

Var hún mjög nálægt því að vera send úr landi?

„Ég held að hún hafi verið mjög nálægt því að vera send úr landi og Hendrik hafi bjargað henni á síðustu stundu. Ég efast ekki um að ef henni hefði verið vísað úr landi þá hefði hún þurft að fara aftur til Þýskalands. Á þessum tíma skiptist heimurinn í tvennt, annars vegar voru lönd sem vildu losna við gyðinga og hins vegar lönd sem ekki vildu taka við þeim. Gyðingar áttu hvergi höfði sínu að halla,“ segir Hannes.

Var það illska af hálfu kærandans og stjórnvalda að vilja senda hana úr landi í ljósi þess sem gyðingar máttu þola í Þýskalandi á þessum tíma?

„Ég er ekki viss um að fólk hafi gert sér grein fyrir þessu eða þá lokað augunum fyrir því. Mestu gyðingaofsóknirnar hófust ekki fyrr en eftir Kristalsnóttina, haustið 1938, og það verður að líta á þetta út frá sjónarhorni fólks sem var statt þarna á þessum tíma. Sjálf helförin hófst ekki fyrr en í stríðinu og það var ekki fyrr en eftir stríðið sem umfang ofsóknanna voru ljósar. Við sjáum þetta öðrum augum í dag. Á þessum tíma voru margir sem héldu að fólk sem flytti til Íslands tæki störf frá Íslendingum. Í dag sér fólk að þeir sem koma með nýja þekkingu eru aufúsugestir í hverju þjóðfélagi.“

Í ljósi þess sem á eftir kom, helförin þar sem milljónir gyðinga enduðu í gasklefunum, hefði hæglega værið hægt að ímynda sér að Henný, sonur hennar og móðir, hefðu ekki lifað stríðið af. Mætti því segja að Hendrik hafi bjargað lífi þeirra með giftingunni. En þó að hjónabandið hafi byrjað sem málamyndagjörningur þá þróuðust með þeim miklir kærleikar sem entust út lífið. Sjálfur tók Hendrik gyðingasið og var sá fyrsti sem fermdist upp á gyðinglega vísu (bar mitzvah) hér á landi.

Annar bróðir til Akureyrar en hinn til Auschwitz

Þetta ár, 1938, kom Harry, bróðir Hennýjar til Íslands og settist hér að og segir Hannes að Hendrik hafi gengið mjög hart fram við Hermann Jónasson forsætisráðherra til að koma því í kring. Ástandið í Þýskalandi var þá orðið voveiflegt fyrir gyðinga en Harry hafði áður verið yfirmaður hjá skóframleiðandanum Salamanders. Harry varð að skilja eignir sínar eftir í Þýskalandi, íbúð, bifreið og sumarhús, en með sér tók hann gullúr og myndavél til að selja. Fyrir andvirðið keypti hann grænmetisgarð og seldi hann afurðirnar úr honum. Árið 1939 flutti unnusta hans, Hildegard Heller, einnig til landsins og giftust þau skömmu síðar. Þau settust að á Akureyri undir íslenskum nöfnum, Höskuldur og Hildigerður.

Saga Siegberts, hins bróður Hennýjar, er öllu sorglegri en hann varð einn af þeim milljónum gyðinga sem myrtir voru í helförinni. Siegbert og unnusta hans, Erna, eignuðust sitt fyrsta og eina barn árið 1939, dreng sem fékk nafnið Denny. Þá var stríðið að bresta á og ofsóknirnar gegn gyðingum jukust enn frekar. Henný og Hendrik buðust til að taka við Denny en foreldrar hans vildu ekki senda hann úr landi. Fjölskyldurnar tvær héldu sambandi með bréfaskriftum og var Rauði krossinn milliliður.

Í miðju stríðinu bað Hendrik sænska sendiráðið í Reykjavík að hafa milligöngu um að útvega landvistarleyfi fyrir Siegbert og fjölskyldu hans. Sænsk yfirvöld beittu sér í málinu og sendu fyrirspurn um fjölskylduna vorið 1943. Þá fékkst hins vegar það svar að hún hefði skömmu áður verið send á ókunnan stað. Síðar kom það í ljós að sá staður var Auschwitz, hinar alræmdu útrýmingarbúðir.

Henný komst að þessu en örlög fjölskyldunnar voru henni þó ókunn. Innst inni hefur hún þó sennilega vitað að bróðir sinn, mágkona og bróðursonur væru öll látin. Hvarf Siegberts fékk mikið á Minnu, móður þeirra, en Henný fékk sig samt ekki til þess að segja henni frá því að þau hefðu verið send í Auschwitz. Minna lést á Íslandi árið 1947.

Erna og Denny Rosenthal, nóvember 1939.

Fangi númer 107933

Örlög Ernu og Dennys litla, sem var aðeins tæplega fjögurra ára gamall, urðu ljós eftir stríðið. Þann 13. mars hafði fjölskyldan verið send með flutningalest númer 36 til Auschwitz ásamt tæplega þúsund öðrum föngum. Við komuna þangað voru vinnufærir karlmenn sigtaðir út og sendir í verksmiðjuvinnu. Flestar konur og börn voru leidd samstundis inn í gasklefana og tekin af lífi.

Siegbert var flúraður með fanganúmeri sínu, 107933, og sendur í verksmiðju sem nefndist Monowitz-Buna. Þar þrælaði hann fyrir efna- og lyfjaframleiðandann I.G. Farben í rúma fjóra mánuði. Þann 30. júlí var hann fluttur burt.

Siegbert og fjölskylda hans voru ekki þau einu sem Henný hafði áhyggjur af í hildarleiknum. Róbert, fyrrverandi eiginmaður hennar, var búsettur í París þegar Þjóðverjar hernámu landið árið 1940. Auk þess að vera gyðingur var hann mjög vinstrisinnaður og ákvað að taka upp vopn gegn Þjóðverjum. Þess vegna gekk hann í frönsku andspyrnuhreyfinguna þetta sama ár og barðist með henni fram í mitt stríð.

Þann 16. og 17. júní árið 1942 voru rúmlega þrettán þúsund gyðingar handteknir af frönsku lögreglunni í París, þar af fjögur þúsund börn. Lögreglan gerði þetta í nánu samstarfi við þýska hernámsliðið sem vildi uppræta gyðingdóminn í Frakklandi. Róbert var einn af þeim sem handteknir voru og var fólkið geymt við hræðilegar aðstæður á hjólreiðaleikvangi. Næsta árið var fólkið flutt í litlum hópum í útrýmingarbúðir, flestir til Auschwitz. Það urðu örlög Róberts sem dó þar árið 1942.

Henný í skautbúningi, um 1939.

Ástin kviknaði í málamyndahjónabandi

Í skugga þessara voveiflegu atburða blómstraði ástin á milli Hennýjar og Hendriks. Ekki öðluðust þau þá lukku að eignast saman barn en Hendrik gekk hinum unga Pétri í föðurstað. Henný kom á fót sinni eigin saumastofu á Kirkjuhvoli við Dómkirkjuna og rak hana allt til ársins 1952. Í stríðinu starfaði Hendrik sem túlkur fyrir bæði breska og bandaríska herinn. Árið 1946 hóf hann störf sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu en hann hafði áður starfað sem blaðamaður hjá Alþýðublaðinu árin 1919 til 1920. Á Ríkisútvarpinu starfaði hann í tuttugu ár, eða þar til hann lést tæplega sjötugur að aldri árið 1966. Eftir að Henný hætti með saumastofuna saumaði hún á heimili þeirra við Langholtsveginn í nokkur ár. Eftir það kom hún yfir á Ríkisútvarpið til Hendriks og starfaði þar í innheimtudeildinni. Henný lést árið 1986.

Pétur gekk eins og önnur börn í skóla og ólst upp eins og íslenskur strákur. Engu að síður var hann alla tíð meðvitaður um uppruna sinn. Pétur gekk í Loftskeytaskólann og starfaði lengi á togurum og fraktskipum. Síðustu árin starfaði hann á birgðastöð Landsímans en hann lést árið 1993. Pétur var giftur Hlín Guðjónsdóttir og áttu þau saman fimm dætur. Sú elsta, Magnea Henný, rannsakaði fjölskyldusöguna og fjallaði um hana, bæði í viðtali við Morgunblaðið og eigin greinum. Hún komst loksins að hinu sanna um örlög Siegberts Rosenthal.

Siegbert og Denny.

Tilraunadýr læknis SS

Árið 1998 hafði ættingi í Lundúnum samband við Magneu og tjáði henni að franskur doktorsnemi í læknisfræði væri að reyna að hafa samband við hana í tengslum við 86 fórnarlömb helfararinnar sem myrt voru á stað sem nefnist Natzweiler-Struthof, í nálægð við Strassborg í Austur-Frakklandi. Líkin af föngunum, sem höfðu verið notaðir í læknisfræðitilraunum, voru óþekkt í áratugi en árið 1998 var loksins hægt að greina flúrað númer Siegberts á einu þeirra. Í kjölfarið heimsótti Magnea búðirnar og komst síðar yfir skjöl um málið.

Siegbert var einn af þeim föngum í Auschwitz sem urðu tilraunadýr læknisins August Hirt, sem starfaði undir stjórn Heinrichs Himmler, leiðtoga SS-sveitanna. Verkefnið fékk nafnið Arfleifðin (Ahnenerbe) og takmark þess var að sýna fram á líffræðilega yfirburði hvíta kynstofnsins. Hirt framkvæmdi ýmsar tilraunir á föngunum, svo sem tilraunir með sinnepsgas og ófrjósemisefni. Var ófrjósemisefnunum sprautað beint í eistu fanganna með óbærilegum sársauka. Sumar tilraunirnar voru eingöngu gerðar á börnum.

Eftir þessar tilraunir var föngunum smalað inn í lítinn gasklefa, þeir teknir af lífi og þau líffæri sem sérstaklega voru til skoðunar fjarlægð og rannsökuð. Ástæða þess að líkin sem fundust voru svo vel varðveitt var að Hirt og félagar hans hjá Arfleifðinni höfðu það hlutverk að búa til sýningu á beinagrindum og líkamsleifum óæðri kynstofna og voru líkin því sett í vínanda til að hægja á rotnun.

Gyðingafjölskyldum og börnum meinaður aðgangur

Örlög Hennýjar, Péturs, Minnu, Höskuldar og Hildigerður hefðu hæglega getað orðið þau sömu Siegberts og fjölskyldu hans. Þá væru ekki til þeir ættbogar sem eftir þau liggja nú hér á landi. Hvort það var ótti við að útlendingar tækju störf frá Íslendingum eða hrein kynþáttahyggja sem lá að baki afstöðu stjórnvalda skal ósagt látið, en ljóst er þó að töluvert auðveldara reyndist fyrir Þjóðverja af germönskum uppruna að fá dvalarleyfi hér á Íslandi heldur en þýska gyðinga. Heilu fjölskyldunum var vísað úr landi og út í óvissuna og gyðingabörnum var meinaður aðgangur að landinu.

Í dag á Henný ótal afkomendur á Íslandi og í Svíþjóð sem setja land sitt á svip og þjóð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

35 ára bústaður Eydísar fékk allsherjar yfirhalningu

35 ára bústaður Eydísar fékk allsherjar yfirhalningu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristín Avon blæs á sögusagnirnar um faðerni dóttur sinnar: „Rétt skal vera rétt“

Kristín Avon blæs á sögusagnirnar um faðerni dóttur sinnar: „Rétt skal vera rétt“
Fyrir 5 dögum

Ritstjóri selur útsýnisíbúðina

Ritstjóri selur útsýnisíbúðina
Fókus
Fyrir 5 dögum

Gleði og gaman í Hörpu þegar Storytel veitti verðlaun

Gleði og gaman í Hörpu þegar Storytel veitti verðlaun
Fókus
Fyrir 6 dögum

Fjölnir Þorgeirs og Margrét eiga von á barni

Fjölnir Þorgeirs og Margrét eiga von á barni
Fókus
Fyrir 1 viku

Sumarfrísplön þekktra Íslendinga: „Skaftárfell líklega fallegasti staður á jarðríki“

Sumarfrísplön þekktra Íslendinga: „Skaftárfell líklega fallegasti staður á jarðríki“
Fókus
Fyrir 1 viku

Sniðug lausn Sigríðar – Ekkert þvottahús, ekkert vandamál

Sniðug lausn Sigríðar – Ekkert þvottahús, ekkert vandamál
Fókus
Fyrir 1 viku

Telma hljóp 200 kílómetra í apríl – Svona fór hún að því

Telma hljóp 200 kílómetra í apríl – Svona fór hún að því