fbpx
Laugardagur 24.september 2022

Ástríðubakarinn Lilja Katrín gefur út bók um bakstur – Grét með Guðna Th. í bakstursmaraþoni fyrir Kraft

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 5. ágúst 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlakonan og ástríðubakarinn Lilja Katrín Gunnarsdóttir sendir nú frá sér sína fyrstu bók, Minn sykursæti lífsstíll. Lilja hefur haft áhuga á bakstri frá því að hún var barn og fékk að dunda sér í eldhúsinu með móður sinni, hún er með kökubloggsíðuna blaka.is, hélt bökunarmaraþon til styrktar Krafti og elskar að skapa, hvort sem það er í bakstri eða öðru.

„Í dag er ég fyrst og fremst eiginkona, móðir, hundaeigandi og ástríðubakari. Ég er kona sem elskar að skapa, hvort sem það er í gegnum bakstur, leiklist eða föndur. Ég elska ævintýri og hið óvænta. Ég elska að finna hvað ég er sterk þegar á reynir. Ég elska að gráta yfir góðum, og líka slæmum, bíómyndum. Ég elska að hlaupa, ég elska frelsi, ég elska að kyssa og knúsa börnin mín og ég elska að tala, spila og hlæja með manninum mínum. Svo elska ég líka sykur og hveiti, sem er jafnframt minn helsti veikleiki. En maður þarf að taka veikleika sína í sátt og lifa með þeim. Ég tók þá hugsun einu skrefi lengra og ákvað að búa til bók úr mínum veikleikum,“ segir Lilja Katrín aðspurð hver hún sé og um áhugamál hennar og ástríðu.

En af hverju þessi áhugi á bakstri yfirleitt?

„Ég grínast oft með að áhuginn hafi kviknað út frá því að ég var akfeitt barn sem nennti ekki út að leika sér og vildi frekar finna sér eitthvað til dundurs inni við. Þá var baksturinn kjörinn þar sem ég þurfti ekki að fara út og gat borðað eitthvað dásamlegt í leiðinni. Fullkomið plan! En að öllu gríni slepptu þá var móðir mín mjög dugleg og nýtin, og er enn, og kenndi mér ýmisleg ráð í eldhúsinu. Þaðan kemur áhuginn. Hún leyfði mér ungri að baka sjálfri og ég held að það sé mjög hollt fyrir börn að fikra sig áfram í eldhúsinu undir leiðsögn fullorðinna. Eldri dóttir mín var ekki nema sex ára þegar hún fékk í fyrsta sinn að spreyta sig í bakstri, með dyggri hjálp frá mér, og það er gaman að sjá hve mikið krakkar geta gert sjálf – það er miklu meira en maður heldur. Svo er ímyndunarafl þeirra líka svo stórkostlegt að maður getur ekki annað en hrifist með í sköpuninni.

En já, ég byrjaði að baka fyrir alvöru á framhaldsskólaaldri, tók mér svo nokkurra ára pásu og byrjaði aftur af krafti þegar ég eignaðist eldri dóttur mína fyrir átta og hálfu ári. Þá dreymdi mig um að opna kökublogg, en fékk í staðinn í gegn á Séð og Heyrt, þar sem ég var blaðamaður og síðar ritstjóri, að hafa eina uppskriftaropnu í hverju blaði. Algjörlega galin hugmynd en ég fékk hana samt í gegn. Svo var það fyrir nokkrum árum að ég kynntist eiginmanninum mínum, en það vill svo skemmtilega til að hann er besti vefhönnuður landsins. Þegar ég sagði honum frá kökudraumnum mínum þá tók hann boltann og bjó til fallegustu kökubloggsíðu sem ég hef séð.

Ég hef hins vegar aldrei lært neitt í bakstri og aldrei unnið við hann. Það er stór draumur hjá mér samt sem áður – að flytja út í lönd og læra bakstur og skreytingar í einhverjum trylltum skóla. Einhvern daginn rætist hann. Þangað til læt ég alls kyns bakstursbækur, endalaus myndbönd á YouTube og mér fróðara fólk nægja. Það hefur dugað mér hingað til en ég finn að mig langar að læra miklu, miklu meira. Það frábæra við bakstursheiminn, og raunar matarheiminn allan, er að hann er í sífelldri þróun og ný „trend“ og æði poppa upp eins og kökupinnar.“

Áttu einhverjar skemmtilegar sögur af neyðarlegum, eftirminnilegum, skemmtilegum atvikum í bakstrinum?

„Eftirminnilegast er klárlega þegar ég bakaði í sólarhring til styrktar Krafti og Guðni Th. forseti kom í heimsókn. Ég er enn að sparka í mig fyrir að hafa farið að hágráta þegar ég sá hann, ekki út af því að ég skammast mín fyrir að vera tilfinninganæm, heldur af því að ég kom ekki upp orði fyrir ekkasogum.

Skemmtilegast var að fá mína fyrstu bók í hendurnar, eftir ansi langa fæðingu. Samt líka mjög skrýtið. Og stressandi. „Hvað ef öllum finnst hún ömurleg?“ Ég er yfirleitt voðalega lítið að spá í hvað öðrum finnst um mig, en þegar ég horfði á bókina fylltist ég óöryggi. Hvað er það?!

Það neyðarlegasta er líklegast þegar ég bakaði voða fína ljósku (blondie) fyrir afmæli móður minnar eitt sinn. Einhver svaka kaka með hvítu súkkulaði, appelsínuberki og engiferi. Ég var voða góð með mig og kökuna þar til ég ákvað að smakka smá af henni, því Gordon Ramsay segir að maður eigi alltaf að smakka. Bragðið var vægast sagt ógeðslegt, og þegar ég fór í rannsóknarvinnu komst ég að því að ég hafði tekið hvítlauksduft í misgripum fyrir engiferið. Og núna hljóma ég eins og mesti lúði í heimi, en ég get fullvissað lesendur um að þetta er alls ekki það neyðarlegasta sem hefur komið fyrir mig á ævinni – bara í bakstrinum.“

En hvaða bakstur hefur tekið lengsta tímann og hver skyldi vera sá persónulegasti?

„Maðurinn minn borðar ekki kökur þannig að ég er alltaf að reyna að finna eitthvað sem honum finnst gott. Ætli það taki ekki ævina. En tímafrekasta, og jafnframt persónulegasta, kakan sem ég hef bakað var fyrir systurdóttur mína, hana Glódísi Björt, sem fermdist síðustu páska. Hún býr í Noregi og ég sakna hennar og fjölskyldu hennar ofboðslega mikið. Þannig að þegar ég var beðin, yfir hafið, að baka fermingartertuna var ég svo snortin og glöð að hún treysti mér fyrir því. Við frænkurnar höfum brallað ýmislegt saman og þótti mér ofboðslega vænt um þessa bón. Þetta var þriggja daga verk. Á fyrsta degi bjó ég til alls kyns skraut ofan á kökurnar, sem voru þrjár – ein fyrir hvert æviskeið (ungbarn, krakki, fullorðin). Á degi tvö bakaði ég botnana, en hver kaka var mismunandi. Á þriðja degi gerði ég síðan krem og setti kökurnar saman.

Annað persónulegt verkefni var kaka sem ég bakaði fyrir stuttu fyrir vinkonu mína sem er mér mjög kær, þótt ég hafi aðeins þekkt hana í stuttan tíma. Hún var búin að standa í mjög erfiðri deilu, sem ég fer ekki nánar út í, en þegar sigurinn var unninn bakaði ég fyrir hana „kitsj og takkí“ ofurhetjuköku. Við vinkonur hennar komum henni síðan á óvart með kökuna og það var æðisleg stund. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að hægt sé að leggja allar sínar tilfinningar í baksturinn, þannig að viðtakandinn finni fyrir ástinni og umhyggjunni. Þess vegna baka ég ofboðslega oft fyrir fólk þegar mig langar að gleðja það – og það hefur ekki klikkað hingað til.“

En hvernig kom sú hugmynd upp að gefa út baksturbók?

„Ég get í raun þakkað öllum sem komu í bökunarmaraþonið fyrir þessa bók því eftir það fékk ég mikið sjálfstraust í að ég gæti gert það sem ég einsetti mér að gera. Þannig að stuttu eftir maraþonið hóf ég söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund fyrir bókinni. Á síðasta degi söfnunarinnar tókst þetta allt saman og ég hélt að ég yrði bara hálft ár með bókina. Svo var nú reyndar ekki, og þurftu styrkjendur mínir að bíða í eitt og hálft ár eftir bókinni, en ég vona að hún sé þess virði. Þetta er mín fyrsta bók, en vonandi ekki sú síðasta. Þó að óöryggið blossi upp og ég sjái fullt af hlutum sem ég gæti gert betur þá finnst mér mjög gott að stíga út fyrir þægindarammann og búa eitthvað til upp á eigin spýtur. Svo er bakstursbók líka fullkomin afsökun fyrir mig til að baka daginn út og inn. Og gúffa svo temmilega mikið í mig. Ég hata það ekkert.

Svo vona ég, ef einhvern tímann kemur önnur bók, að ég fái tækifæri til að vinna með ljósmyndaranum Sunnu Gautadóttur aftur, en hún á myndirnar í Minn sykursæti lífsstíll. Það má segja að kynni okkar hafi verið eins og blint stefnumót því hún sendi mér skilaboð á Facebook stuttu eftir að söfnuninni lauk og vildi fá að vinna þetta verkefni með mér. Ég tók því að sjálfsögðu fagnandi. Ég vissi hins vegar ekki hve rosalega góður ljósmyndari hún er fyrr en við byrjuðum að vinna saman. Þvílík fagmanneskja, en samt svo ljúf og góð. Hún veit nákvæmlega hvað hún vill og mér finnst myndirnar hennar lyfta bókinni upp á hærra plan. Þvílíkt augnakonfekt!“

Þegar bókin er loksins komin í heiminn er rétt að spyrja hvað taki næst við. Er hugmynd að næstu bók komin í vinnslu eða eitthvað annað?

„Ég hreinlega veit það ekki. Kannski bara eitthvað allt annað. En bloggið mitt, blaka.is, lifir allavega, þótt stundum komi ekkert þar inn í marga daga. Það er ekki á leiðinni neitt og er komið til að vera – enda lifir allt að eilífu á internetinu. Ég er með ýmsar hugmyndir að bókum í kollinum, en ég þarf að vera vel stemmd og eiga nógan tíma áður en ég hendi mér út í þetta aftur. Við eiginmaður minn gefum þetta út sjálf og það eitt og sér er hörkuvinna. En mikið djöfull er þetta gaman, þótt ég blóti nú aðeins. Það er fátt dásamlegra en að eiga sér draum og láta hann rætast – hvað sem það kostar. Ég mæli með því!“

Taktu þátt í gjafaleik hér þar sem heppnir vinningshafar fá eintak af bókinni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
Fyrir 4 klukkutímum

Sælkeradagur í dag sem enginn sælkeri ætti að láta framhjá sér fara

Sælkeradagur í dag sem enginn sælkeri ætti að láta framhjá sér fara
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Sindri Snær var aðeins 12 ára gamall þegar sérsveitin yfirbugaði hann í fyrsta skipti – „Ég trúði því ekki þegar ég sá lögreglumennina“

Sindri Snær var aðeins 12 ára gamall þegar sérsveitin yfirbugaði hann í fyrsta skipti – „Ég trúði því ekki þegar ég sá lögreglumennina“
Pressan
Fyrir 18 klukkutímum

Mun heimurinn enda á morgun?: Hvernig ummæli stjórnmálamanns urðu að samsæriskenningu

Mun heimurinn enda á morgun?: Hvernig ummæli stjórnmálamanns urðu að samsæriskenningu
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Arnar staðfestir munnlegt samkomulag við annað félag

Arnar staðfestir munnlegt samkomulag við annað félag