fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Valgeir Skagfjörð kynntist föður sínum tveimur vikum fyrir andlátið

Auður Ösp
Föstudaginn 21. september 2018 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valgeir Skagfjörð ólst upp föðurlaus og átti sér þá ósk heitasta að eignast pabba. Móðir hans átti við áfengis- og geðræn vandamál að stríða og gengu Valgeir og yngri systkini hans sjálfala. Hann hitti föður sinn fyrst 17 ára gamall en varð fyrir svo miklum vonbrigðum að hann sleit öll tengsl við hann og vildi ekkert meira af honum vita. Um 22 árum síðar lágu leiðir feðganna saman á ný og það fyrir einskæra tilviljun.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Örlagaríkt símtal

Um 22 árum eftir að Valgeir flaug fyrst til London lágu leiðir feðganna saman á ný. Sagan á bak við þá endurfundi sýnir að það er lítið um tilviljanir í þessu lífi.

„Það var sem sagt þannig að kunningjakona mín, Álfheiður Ingadóttir, og systir hennar voru staddar í London og settust inn á veitingastað. Þar var maður að spila á píanó. Allt í einu byrjaði hann að spila íslenskt lag, Litla flugan, sem þær þekktu auðvitað samstundis. Hann kom svo til þeirra í pásunni því hann heyrði þær tala íslensku. Þegar þær spurðu hann út í hvernig hann þekkti lagið þá sagði hann þeim að hann hefði einu sinni verið á Íslandi, og að hann ætti meira að segja son þar. Þegar hann sagði þeim nafn mitt sögðust þær þekkja mig. Hann bað þær þá um að skila kveðju til mín.

Þær höfðu að vísu ekki samband við mig heldur sögðu einhverjum öðrum frá þessu, sem sagði einhverjum öðrum og eftir einhvern tíma barst þessi saga til vinkonu minnar sem síðan hringdi í mig og lét mig vita.

Ég hafði samband við Jakob Frímann Magnússon, sem var þá var menningarfulltrúi í sendiráði Íslands í London, fékk nafnið á þessum veitingastað og bað Jakob um að fara og athuga hvort pabbi væri þar.“

Þegar Jakob Frímann fór á veitingastaðinn var faðir Valgeirs hvergi að finna. Í ljós kom að hann lá á sjúkrahúsi.

„Þannig að Jakob hringdi í mig aftur og sagðist ætla að fara á spítalann og sjá hvort pabbi væri þar og hvort það væru líkindi með okkur feðgum. Ég fékk síðan þriðja símtalið frá honum sem var eitthvað í þessa átt: „Já sæll, þetta er Jakob Frímann hérna, ég fann nú ekki hann pabba þinn  en hann er víst með ristilkrabbamein.“

Þarna fór ég að pæla í þessu. Þarna var ég búinn að fá þessar upplýsingar. Ég hugsaði með mér að ég yrði að fara til hans, ég yrði að hitta hann. Ég sagði við mína fyrrverandi að ég ætlaði að fljúga út til hans um páskana, þá ætti ég frí. En þá sagði hún: „Nei, Valgeir, farðu bara núna. Þú verður að fara núna“.“

Valgeiri tókst að redda sér ódýrum farmiða til London og hélt á fund föður síns.

 „Ég kom þarna inn í andyri sjúkrahússins og vissi ekkert á hvaða deild pabbi væri. Þá heyrði ég allt í einu mann fyrir framan mig spyrja starfsmann: „Where’s mister Martin?“ Hann var þá líka að leita að pabba. Og ég tengdi strax. Ég gekk í humátt á eftir honum alla leið inn á sjúkrastofuna þar sem pabbi lá. Allt í einu blasti hann þar við mér og við horfðumst í augu. Honum var augljóslega mjög brugðið og spurði hvað ég væri að gera hér. „Ég er kominn til að hitta þig,“ sagði ég. Og þarna brotnuðum við báðir niður, féllumst í faðma og grétum. Maðurinn sem ég hafði elt inn á stofuna var fljótur að láta sig hverfa og skildi okkur eina eftir, en ég komst seinna að því að hann var umboðsmaður pabba.

Við áttum þarna þrjá daga saman og töluðum um heima og geima á meðan ég keyrði hann um allt í hjólastólnum. Systir mín kom í heimsókn og það urðu miklir fagnaðarfundir. Þarna náðum við loksins þessari tengingu sem var ekki til staðar 22 árum áður. Pabbi var agalega stoltur og kepptist við að kynna mig fyrir öllum sem komu í heimsókn. „This is my son,“ sagði hann montinn.

Pabbi var orðinn mjög veikur og það sást á honum. Við töluðum samt um að hann myndi seinna koma til Íslands og heimsækja barnabörnin sín þar. En þegar ég kvaddi hann, gekk út af sjúkrastofunni og horfði á hann fjarlægjast þá vissi ég að ég myndi aldrei sjá hann framar. Nokkrum dögum síðar, daginn eftir pálmasunnudag, fékk hringingu frá systur minni sem tilkynnti mér að pabbi væri dáinn.

Ef ég hefði beðið til páska með að fara út þá hefði ég aldrei náð að hitta pabba á lífi. Það eru engar tilviljanir í þessi lífi. Það er stýring í gangi.“

Valgeir flaug aftur til London og fylgdi föður sínum til grafar.

„Daginn fyrir jarðarförina fékk ég að fara á útfararstofuna og sjá hann. Ég kom inn í herbergið þar sem pabbi lá í kistunni, sminkaður í jakkafötum með slaufu. Ég sat þarna einn inni í herberginu, bara ég og líkið. Það var lítil loftrist efst í einu horninu og í öðru horni var kveikt á kerti. Svo allt í einu komu geislar í gegnum loftristina og féllu á hann. Ég fann fullkominn frið inni í mér, algjöra kyrrð og sátt.“

Valgeir segir að jarðarförin hafi verið fjölmenn og erfidrykkjan eftirminnileg.

„Þetta var mjög óformlegt, eiginlega var þetta meira eins og partí. Þarna úti líta þau á þetta þannig að öll sorgin og gráturinn eigi heima í kirkjunni en þegar heim er komið þá eru sagðar sögur, hlegið og fallegar minningar af hinum látna rifjaðar upp.“

Faðir hans hafði skilið við konu sína 15 árum áður en Valgeir átti þó tvær hálfsystur. „Og þarna eignaðist ég nýja fjölskyldu. Við erum búin að heimsækja hvert annað og rækta tengslin og það er mjög kært á milli okkar. Önnur systir mín er einnig að vinna við leiklist og söng. Mér fannst ég hafa fundið þarna hinn helminginn af mér. Ég hélt áfram að kynnast pabba eftir á, í gegnum fólkið hans. Ég hef oft fengið að heyra að ég sé með alls konar hreyfingar og takta sem minna á hann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bikinímynd Kim Kardashian að athlægi – Sérð þú af hverju?

Bikinímynd Kim Kardashian að athlægi – Sérð þú af hverju?
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“