Miðvikudagur 26.febrúar 2020
Fókus

„ÁSTRÍÐAN KEYRIR MIG ÁFRAM“

Björn Lúkas (22) stefnir á atvinnumennsku í MMA:

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 12. maí 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Lúkas Haraldsson sigraði sinn fyrsta MMA-bardaga nýlega í Færeyjum. Hann er rétt tvítugur, en hefur margra ára keppnisreynslu að baki úr júdó, taekwondo og jiu-jitsu, hefur keppt með undanþágu á móti mun eldri og reynslumeiri andstæðingum og sigrað og titlarnir eru það margir að hann hefur ekki tölu á þeim. MMA á hug hans allan og hann stefnir á að vera orðinn atvinnumaður innan fimm ára.

„Ég tók einn bardaga á einu kvöldi og vann andstæðinginn í fyrstu lotu, tók hann niður með júdó-bragði,“ segir Björn. „Fyrir sjálfan mig þá var ég meira að taka þátt til að prófa sportið áður en atvinnuferillinn byrjar. Áhugamannabardagar fara ekki inn á „recordið“ manns, hvorki tap né sigur. Næstu helgi keppi ég á Mjölni open sem er glímumót, svo er stefnan að keppa fljótlega í næsta MMA-bardaga, hann er samt ekki kominn á dagskrá. Okkur Mjölnismönnum gengur illa að fá andstæðinga, við erum komnir með svo gott orðspor. Maðurinn sem ég endaði á móti í bardaganum núna í Færeyjum var til dæmis sá fjórði í röðinni.“

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir
Björn Lúkas sáttur með sigurinn.

SIGRI FAGNAÐ: Björn Lúkas sáttur með sigurinn.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir

„Þetta er ekki mót, heldur bardagi. Þetta er þannig að maður skráir sig á móti einstaklingi og keppir við hann. Og reynir að hafa andstæðing sem er nokkuð jafn manni að reynslu. Það er samt ekki heilagt, til dæmis eins og Diego, sem keppti með 2 bardaga að baki á móti öðrum sem var með 90 bardaga að baki.“

Færeyingar héldu með Íslendingunum, hvöttu þá áfram og tóku víkingaklappið. „Þegar Tobbi og Diego tóku síðustu bardagana þá stóðu allir upp og fögnuðu og þeir áttu erfitt með að komast í búningsklefana þar sem allir vildu myndir með þeim. Það var vel staðið að þessum bardaga hjá Færeyingum og flott „show“ og það má sjá alla bardagana á Youtube.“

Júdóið stoppaði stríðnina

Björn Lúkas byrjaði sex ára að æfa júdó, var búinn að prófa flestar íþróttir sem í boði voru í heimabænum Grindavík, en fann það að júdóið átti best við hann. „Ég man að það var smá stríðnisvandamál þegar ég var yngri, þegar ég prófaði júdó þá hætti hún. Auk þess var júdóið það skemmtilegasta í Grindavík,“ segir Björn. „Ég fann mig í júdóinu, svo hef ég ekki hætt síðan.“

Þrettán ára byrjaði hann að æfa tai-kwando, síðan brasilískt jiu-jitzu og fyrir tveimur árum, tvítugur, byrjaði hann í hnefaleikum og keppti í einum bardaga. „Ég man þegar við vorum að fara í keppnisferð í tai-kwando norður, þá var einhver að horfa á UFC bardaga í rútunni og þar sá ég bardaga sem var blandaður af júdó og tai-kwando þannig að ég hugsaði að þetta væri eitthvað sem ég gæti gert.“

Björn Lúkas hefur unnið fjölda titla á mótum og ekkert látið það stoppa sig þó að æfingaaðstaðan hafi ekki verið góð. „Þegar ég byrjaði í júdó í Grindavík vorum við í anddyrinu á íþróttahúsinu, það er vel steypt undir með þessum ágætu dýnum. Við vorum með drasl púsldýnur þannig að við gátum ekki kastað neinum almennilega þar. Þú ert bara búinn eftir nokkur köst. Þegar voru körfuboltaleikir þá þurfti að aflýsa æfingu eða fara í enn lélegri aðstöðu undir sundlauginni. Í dag er búið að bæta verulega aðstöðu til íþróttaiðkunar í Grindavík, en júdóið er samt enn frekar út undan þó aðstaðan sé betri. Fara æfingar fram í samkomusalnum í nýja íþróttahúsinu, meiri friður, en það kemur fyrir þegar eru samkomur að það þurfi að aflýsa æfingunni eða rifja upp æfingaaðstöðuna í gamla anddyrinu.“

Svona var æfingaaðstaðan í Grindavík, þunnar dýnur í anddyri íþróttahússins.
ÆFINGAR Í ANDDYRI: Svona var æfingaaðstaðan í Grindavík, þunnar dýnur í anddyri íþróttahússins.

Björn Lúkas segir að þessi lélega aðstaða hafi þó orðið til þess að grunnurinn varð annar og í dag mun betri fyrir MMA. „Þegar þetta er skoðað svona á endanum kom þetta mun betur út,“ segir hann. „Maður gat ekki mikið verið að kasta, þannig að þá sneri ég mér bara að hinni hliðinni í júdó sem er gólfglíman, svæfingatök og læsingar. Svo fer ég í brasilíska ji-jitusið sem er meira þannig, þannig að ég er strax orðinn mjög góður í gólfinu miðað við júdómenn. Strax í brasilíska var ég langt kominn þar.“

„Styrkleikar mínir eru gólfið, eins og ég vann bardagann núna. Ég var búinn að hita vel upp fyrir hann með spörkum, sem sást svo ekkert í bardaganum, þar sem hann var svo stuttur. Ég kannski reyni að sýna það í næsta bardaga, ef að hann verður lengri,“ segir Björn Lúkas og brosir.

Björn Lúkas hefur einnig miðlað áfram til yngri iðkenda og þegar hann bjó í Grindavík var hann byrjaður að kenna tai-kwando og leysa af í júdóþjálfun og kenndi einnig nokkur námskeið í tai-kwondo með Helga Rafni Guðmundssyni. „Mér fannst skemmtilegt að kenna krökkunum í Grindavík, Helgi, þjálfarinn minn og Kristmundur, sem er annar frábær taikwando-maður sem stefnir á Ólympíuleikana, vorum saman með þrjár æfingar. Þegar við fórum á fyrsta mót þá sá maður bætinguna hjá krökkunum.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mér finnst betra að treysta á mig einan

„Mér gengur betur í einstaklingssportum þar sem ég ber ábyrgð á mér sjálfur og ég get ekki kennt neinum öðrum um en sjálfum mér ef ég tapa,“ segir Björn. „Sama er með ef að ég get gert betur. Annað en í liðsíþróttum þar sem þú ert kannski upp á þitt besta, en öðrum í liðinu gengur verr.“
Aðspurður um titlana sem Björn Lúkas hefur unnið þá er hann ekki með þá á hraðbergi enda hefur hann unnið til verðlauna á öllum mótum sem hann hefur tekið. „Ég er með 4-5 unglingameistaratitla í júdó og tvo Norðurlandaunglingameistara, einn unglinga í tai-kwando og einn í fullorðinshóp. Fyrir brasilíska jiu-jitsu er ég með 4–5 unglingameistara og einn fullorðinsmeistara, en hann vann ég 17 ára gamall á undanþágu.“

Björn Lúkas og hornamenn hans Árni Ísaksson og Jón Viðar Arnþórsson formaður Mjölnis.

HORNAMENNIRNIR: Björn Lúkas og hornamenn hans Árni Ísaksson og Jón Viðar Arnþórsson formaður Mjölnis.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir

Flutti í bæinn eingöngu vegna MMA

Eins og áður kom fram þá er Björn Lúkas fæddur og uppalinn í Grindavík og það var Mjölnir sem dró hann í bæinn. „Ég flutti til Reykjavíkur bara eitt, tvö og þrjú vegna Mjölnis, ef Mjölnir væri í Grindavík væri ég þar, ef Mjölnir væri á Akureyri væri ég þar.“

„Ég var búinn að ákveða að klára þrennt áður en ég flytti til Reykjavíkur: fá svart belti í júdó, sem ég fékk 18 ára, svart belti í taikwando, sem ég fékk 19 og klára stúdentinn,“ segir Björn. Hann kláraði hann í desember 2015 og í janúar var hann kominn til Reykjavíkur.

Það eru 1600 iðkendur í Mjölni og hann er stærsti MMA-klúbbur í Evrópu og með þeim stærstu í heimi. „Í fyrra fór ég til Kanada og fór á æfingu í MMA-klúbbi þar. Þar var George Saint Pier, sem er ein mín helsta fyrirmynd, innan og utan vallar, hann hætti á toppnum með sigur. Mjölnir er með fleiri iðkendur en sá klúbbur og mun betri aðstöðu. Við erum með þrjá Evrópumeistara og tvo atvinnumenn.

MMA er lífsstíll

Björn Lúkas æfir alls 9–11 sinnum í viku og hver æfing er 1–2 klukkustundir að lengd. „Þetta er lífsstíll, ég geri nánast ekkert annað,“ segir Björn Lúkas, sem vinnur með hlutastarf hjá Póstdreifingu og hefur fullan skilning hjá vinnuveitanda sínum fyrir æfingum og þeim tíma sem þær taka. „Ég vinn hlutastarf hjá Póstdreifingu, vinn á morgnana og ræð hversu mikið ég vinn. Ef æfing fellur niður eða eins og núna, þegar ég ætla aðeins að leyfa líkamanum að jafna sig, þá get ég unnið meira. Svo eins og fyrir bardagann þá vann ég minna vikuna fyrir svo ég gat hvílt mig meira. Ég byrjaði fyrst í næturvinnu hjá þeim þegar ég flutti til Reykjavíkur, ég var nývaknaður og dauðþreyttur á æfingu og fór beint að vinna eftir hana. Þannig að ég sagði við þá að ef vinnan passaði ekki við það sem ég er að gera í Mjölni þá gæti ég alveg eins flutt aftur til Grindavíkur, þá voru þeir svo frábærir að koma til móts við mig og bjóða mér hlutastarf.
MMA er fín sjálfsvörn, fín líkamsrækt, mér finnst ég geta tjáð mig með sportinu, það er svo frumstætt, líkaminn þinn er verkfærið, þú ert ekki með neitt annað, eins og til dæmis í fótbolta þá ertu með boltann og að hitta í markið.

Mamma eina sem þekkti ekki Gunnar Nelson

Björn Lúkas á tvo yngri bræður, Hákon Klaus, 18 ára og Fritz, 11 ára. Sá eldri, Hákon, er líka byrjaður að æfa. „Við búum saman og í kickboxinu er hann besti æfingafélaginn minn, orðinn stærri en ég og farinn að kalla mig litla bróður til að bögga mig,“ segir Björn og hlær.

„Fjölskyldan styður mig öll, pabbi og systkini hans, afi og amma. Afi var til dæmis mjög duglegur að skutla mér á æfingar í Keflavík áður en ég fékk bílpróf. Mamma var þýsk og allt þýska ættfólkið er að fylgjast með mér og senda mér skilaboð og hvetja mig áfram,“ segir Björn Lúkas, en móðir hans, Sandra Munch, lést í febrúar 2015. „Mamma hvatti mig líka alltaf áfram og mætti á mót hjá mér. Og það er til dæmis fyndið að rifja upp að á fyrsta mótinu sem ég keppti á í brasilísku ji-jitsu var hún sú eina sem þekkti ekki Gunnar Nelson. Ég var 14–15 ára og fékk undanþágu til að keppa, var að keppa við fullorðna menn. Ég vann fyrstu glímuna og næstu glímu keppti ég við Gunnar Nelson, sem var eini Íslendingurinn þarna með svart belti og það þekktu hann allir nema mamma. Ég tapa á innan við mínútu og mamma byrjar að góla svona í hita leiksins af hverju ég gerði ekki hitt eða þetta. Og ég man að fólk í kringum okkur horfði á og hefur líklega hugsað „slakaðu á, þetta er heimsklassameistari sem hann er að tapa gegn.“

Björn Lúkas tekur á stóra sínum.

BARDAGAÖSKUR: Björn Lúkas tekur á stóra sínum.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir

Besti vinurinn átti inngangslagið

„Þegar ég flutti fyrst til Reykjavíkur þá flutti ég inn til besta vinar míns, Guðjóns Sveinssonar, sem er æskuvinur minn úr Grindavík. Svo fer ég að leigja með Hákoni bróður mínum og Guðmundi, vini okkar. Ef ég fengi að ráða þá fengi ég Guðjón yfir til okkar,“ segir Björn.

„Guðjón er á fullu í tónlist, í 2–3 hljómsveitum, með stúdíó í Grindavík, þar sem hann er líka að aðstoða aðra tónlistarmenn og búinn að keppa á Músíktilraunum. Ég bað hann að semja lag sem inngöngulag fyrir mig í Færeyjum. Þegar ég steig inn í búrið þá stoppaði ég bara og fékk gæsahúð yfir laginu, að besti vinur hefði samið lag og sungið, þetta var mjög skemmtilegt.“

Björn og Guðjón hafa verið bestu vinir frá því þeir voru smápollar.
BESTU VINIR: Björn og Guðjón hafa verið bestu vinir frá því þeir voru smápollar.
Íþróttir má æfa hvar sem er.
BRUGÐIÐ Á LEIK: Íþróttir má æfa hvar sem er.

Hvað er framundan?

„Ég sé fyrir mér að innan fimm ára verði ég orðinn atvinnumaður og kominn ágætis leið á ferlinum. Ég horfi á Gunnar Nelson sem fyrirmynd en vil samt ryðja mína eigin braut. Hvort sem ég verð í hans deild eða öðrum samtökum,“ segir Björn, sem segir hægt að stökkva beint í atvinnumennskuna eins og Gunnar gerði.

Hann hefur líka hugsað um að mennta sig meira, en allavega ekki í bili, MMA á hug hans allan. „Ég var búinn að lesa um Wilderness nám og það heillaði mig, það var kynning á því þegar ég var í Fjölbraut, en það heillaði mig ekki nóg til að byrja strax. Ég stefni ekki lengra í hinu, MMA fær alla mína athygli, en ég fylgist samt með taikwando, júdó og boxsenunni og er með puttana í jóla- og páskaæfingum og gæti alveg verið að ég tæki þátt í mótum hér heima.“

Það eru ekki miklir peningar í íþróttinni og þurfa einstaklingar oftast að kosta sitt sjálfir. „Ég hef ekki verið duglegur að sækja mér styrktaraðila og vildi frekar taka allavega einn bardaga og geta þá sýnt hvers ég væri megnugur. Mjölnir tekur hins vegar vel á móti manni og styrkir okkur vel, Færeyjaferðin var mér að kostnaðarlausu. Frábær klúbbur, bæði aðstaða og æfingafélagar, auk þess sem þeir hugsa vel um mann.“

Það er mjög misjafnt hvað menn keppa lengi í MMA, besti aldurinn er 30–35, svona „prime“-árin, sá elsti, Dan Henderson, keppti um titil 46 ára. Þannig að ljóst er að Björn Lúkas á nóg af árum eftir í íþróttinni. „Það er ástríðan sem keyrir mig áfram,“ segir Björn, „og eins og stundaskráin er núna þá hef ég nóg að gera og myndi ekki vilja hafa það öðruvísi. Ef ég gæti væri ég til í að hætta að vinna og skjóta einni aukaæfingu inn í hádeginu,“ segir Björn Lúkas, sem ætlar alla leið á eigin forsendum.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir
Alls kepptu fjórir Íslendingar í Færeyjum og unnu þeir allir sína bardaga. Þorbjörn, sem var einnig að keppa í fyrsta sinn, Bjartur, sem vann með dómaraákvörðun og Diego, sem kom inn með tveggja daga fyrirvara. Þeir eru allir áhugamenn nema Diego. Viðureignirnar voru 12, bæði MMA, kickbox og box. „Það er ekki leyfilegt að keppa í MMA á Íslandi, sem auk Noregs er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki leyfir keppni,“ segir Björn Lúkas. „Annars staðar í Evrópu og heiminum er keppni leyfð.“

UNNU ALLIR: Alls kepptu fjórir Íslendingar í Færeyjum og unnu þeir allir sína bardaga. Þorbjörn, sem var einnig að keppa í fyrsta sinn, Bjartur, sem vann með dómaraákvörðun og Diego, sem kom inn með tveggja daga fyrirvara. Þeir eru allir áhugamenn nema Diego. Viðureignirnar voru 12, bæði MMA, kickbox og box. „Það er ekki leyfilegt að keppa í MMA á Íslandi, sem auk Noregs er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki leyfir keppni,“ segir Björn Lúkas. „Annars staðar í Evrópu og heiminum er keppni leyfð.“

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir
Björn Lúkas býr yfir mun betri tækni á gólfinu en flestir andstæðinga hans.

BESTUR Á GÓLFINU: Björn Lúkas býr yfir mun betri tækni á gólfinu en flestir andstæðinga hans.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir

Inngöngulag Björns Lúkasar í Færeyjum sem vinur hans Guðjón samdi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Hrun enska fótboltans?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona eyðir ríkasti maður heims auðæfunum

Svona eyðir ríkasti maður heims auðæfunum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Lítt þekkt ættartengsl – Ákærð og bæjarfulltrúi

Lítt þekkt ættartengsl – Ákærð og bæjarfulltrúi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þegar Íslendingar notuðust við einkamálaauglýsingar – „Einmana heimasæta vill kynnast ungum manni“

Þegar Íslendingar notuðust við einkamálaauglýsingar – „Einmana heimasæta vill kynnast ungum manni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ísold stenst allt nema freistingar – „Sá sem eldar þarf ekki að vaska upp“

Ísold stenst allt nema freistingar – „Sá sem eldar þarf ekki að vaska upp“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Frægur leikari tjáir sig um líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum sínum: „Foreldrahlutverkið er gífurlega erfitt“

Frægur leikari tjáir sig um líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum sínum: „Foreldrahlutverkið er gífurlega erfitt“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Leiðin til bata: Hún neytti fíkniefna daglega 12 ára og 14 ára svaf hún í stigagöngum fjölbýlishúsa

Leiðin til bata: Hún neytti fíkniefna daglega 12 ára og 14 ára svaf hún í stigagöngum fjölbýlishúsa