fbpx
Miðvikudagur 11.september 2024
Fókus

Sjáðu Ísland fyrir hartnær öld í lifandi lit – Myndband

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 4. ágúst 2024 18:00

Skjáskot Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Youtube-síðunni Vivid History er að finna myndband en sagt er í titli þess að það sé tekið á Íslandi á fjórða áratug síðustu aldar. Þó er misræmi til staðar þar sem í upphafi þess stendur að það sé frá fimmta áratugnum.

Þegar myndbandið er spilað sést glögglega að það er vissulega tekið á Íslandi. Miðað við þá fólksbíla og strætisvagna sem sjást virðist það nærri lagi að það sé tekið á fjórða áratugnum en þó virðist bygging Þjóðleikhússins langt komin að minnsta kosti að utanverðu en byggingu þess lauk ekki fyrr en á síðari hluta fimmta áratugarins. Árið 1932 voru útveggir þess þó tilbúnir og húsið orðið fokhelt þegar framkvæmdir stöðvuðust vegna fjárskorts. Því er það vel mögulegt að myndbandið sé vissulega frá þessum áratug.

Fyrri hluti myndbandins er eins og vænta má af ofangreindum hugleiðingum tekinn í Reykjavík og þar má sjá fullorðna við störf meðal annars við höfnina og við Þvottalaugarnar í Laugardal og einnig má sjá börn við leik. Raunar var upp úr 1930 notkun Þvottalauganna farin að minnka með upphafi hitaveitu í Reykjavík en þær voru þó enn notaðar eitthvað á fjórða áratugnum en að þær sjáist í notkun rennir frekari stoðum undir að myndbandið sé tekið í seinasta lagi á fjórða áratugnum en gerir það ekki ómögulegt þó að það hafi verið tekið á þeim fimmta hafi laugarnar verið enn í notkun þá.

Það rennir einnig stoðum undir að þessi hluti myndbandins sé tekinn á fjórða áratugnum að sjá má skipið Dronning Alexandrine við bryggju en samkvæmt vefsíðu skipafélagsins Smyril Line sigldi skipið á milli Kaupmannahafnar, Færeyja og Íslands á árunum 1927-1939 og aftur frá 1945-1965. Það passar síður við aðra þætti sem nefndir hafa verið hér að myndbandið hafi verið tekið í upphafi seinna tímabils skipsins. Á myndbandinu má heldur ekki sjá neina hermenn í borginni og hafi myndbandið verið tekið á fimmta áratugnum hefur það verið í fyrsta lagi eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar 1945.

Síldarævintýrið

Reykjavík ræður ríkjum í myndbandinu þar til þrjár og hálf mínúta er liðin en þá er skipt yfir til Siglufjarðar þar sem má sjá Síldarævintýrið sprellifandi. Sjá má karlmenn koma með aflann að landi og konur taka til við að verka hann. Örðugra er  að ársetja nákvæmlega þann hluta myndbandsins sem tekinn er á Siglufirði fyrir þau sem ekki eru vel kunnug sögu bæjarins og Síldarævintýrsins en þeir lesendur sem það eru ættu vonandi að geta skemmt sér við að staðfesta hvort að þessi hluti myndbandsins sé sannarlega frá fjórða áratugnum.

Síðasta mínúta myndbandins er tekin í réttum en erfitt er að átta sig á nákvæmri staðsetningu.

Heimildagildi og uppruni

Skýrt er tekið fram í upphafi myndbandsins og í skýringartexta að litum hafi verið bætt inn í það ásamt hljóði, með aðstoð tölvutækninnar og að það hafi verið gert skýrara. Þegar horft er á myndbandið þá er litasamsetningin óneitanlega eilítið gervileg ekki síst í upphafi þegar sjá má Reykjavík úr lofti og vart er hægt að vera fullkomlega viss um að litir fortíðarinnar hafi í öllum tilfellum verið þeir sömu og sjást í myndbandinu. Ljóst er þó til dæmis að liturinn á kindunum og Þjóðleikhúsinu er nokkurn veginn sá sami og hann er í raun og veru á leikhúsinu og íslensku sauðfé.

Þótt hljóðin í myndbandinu passi almennt við það sem sést er þó ljóst að það sem heyra má kemur ekki frá Íslendingum þessa tíma og dýrum þeirra heldur er það síðari tíma viðbót í krafti tölvutækninnar.

Þegar gerðar eru breytingar af þessu tagi má halda því fram að þær rýri heimildagildi myndbandsins því breytingarnar eru viðbætur úr nútímanum og varpa ekki beint fram mynd af fortíðinni eins og hún var í raun og veru en myndbandið er þó án efa skýrara og þægilegra áhorfs en það hefur upphaflega verið.

Hvergi kemur fram á umræddri Youtube-síðu hver stendur fyrir birtingu myndbandsins og annarra myndbanda sem á síðunni má finna. Það kemur heldur ekkert fram um hver eða hverjir tóku myndbandið, hvaðan það er fengið eða hvort um er að ræða myndband þar sem tvö eða fleiri myndbönd eru klippt saman. Það kemur heldur ekkert fram um hvort allt myndefnið hafi verið tekið á sama árinu.

Þrátt fyrir þessa ágalla má hins vegar njóta myndbandsins og þeirrar innsýnar sem það þó veitir í lífið á Íslandi fyrir hartnær öld síðan. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Þið munuð sjá meira af mér í framtíðinni“

„Þið munuð sjá meira af mér í framtíðinni“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Lætur ung börn sín borga leigu – Segir skólakerfið ekki kenna þeim nóg um fjármál

Lætur ung börn sín borga leigu – Segir skólakerfið ekki kenna þeim nóg um fjármál
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hjólahvíslarinn í nýjum ævintýrum – „Ég gæti alveg vanist þessu“

Hjólahvíslarinn í nýjum ævintýrum – „Ég gæti alveg vanist þessu“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ætti ég að verja gullnu árunum með eiginmanninum – eða yngri elskhuganum?

Ætti ég að verja gullnu árunum með eiginmanninum – eða yngri elskhuganum?