fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Leikdómur: „Og í því spennufalli sem varð eftir átökin var ljóst að bæði Nóru og Þorvald langaði svolítið til að sættast og byrja aftur að vera saman“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 25. september 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands,  skrifar í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, leikdóm um leiksýningu Borgarleikhússins, Dúkkuheimili annar hluti, sem frumsýnd var síðastliðinn föstudag.

Et dukkehjem (1879) eftir Henrik Ibsen er eitt áhrifamesta leikrit leiklistarsögunnar. Það hefur verið sagt að þegar Nóra gekk út af heimili þeirra Þorvalds Helmer og skellti hurðinni á eftir sér hafi  „hurðaskellurinn heyrst um heim allan.“

En hvert fór hún? Að því hafa leikhúsgestir spurt í næstum 130 ár.

„Nóra litla, hvert ætli þú hafir svo sem getað farið?“

Í ljóðabókinni Kyndilmessu (1971), í ljóðinu „Erfiðir tímar“, spyr skáldið Vilborg Dagbjartsdóttir þessarar spurningar og segir:

…  hafi ég skilið þig rétt

muntu vilja sjá fyrir þér sjálf

á heiðarlegan hátt – Drottinn minn!

Kona með þitt uppeldi

og þessar líka hugmyndir um karlmenn.

Þú gætir kannski reynt að selja sorpriti

ævisögu þína og síðan, ef heppnin er með þér

leikið sjálfa þig í stórmynd.

Nei, góða mín, far þú aftur út í myrkrið.

Fjörðurinn er spegilsléttur og djúpur.

Bráðum kemur tunglið upp fyrir hvíta fjallsröndina

þá verður ratljóst.

Stallsystir þín, Anna Karenina tekur á móti þér

á brautarstöðinni.

Hvílið ykkur stundarkorn yfir tebolla.

Það eru ennþá erfiðir tímar.

Dúkkuheimili, annar hluti

Dúkkuheimili 2.hluti.

Bandaríski leikritahöfundurinn Lucas Hnath segir okkur frá örlögum Nóru í leikritinu Dúkkuheimili, 2. Hluti sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu á föstudagskvöld í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur.

Sýningin hefst á því að Nóra (Unnur Ösp Stefánsdóttir) ber að dyrum, hún er komin aftur eftir 15 ár til að sækja skilnað frá Þorvaldi Helmer (Hilmir Snær Guðnason). Hún hefur staðið í þeirri trú að hann hafi skilið við sig en kemst svo að því að það hefur hann aldrei gert. Hún hefur hins vegar lifað eins og ógift kona öll þessi ár og er orðin farsæll, ríkur, femínískur rithöfundur. Hún hefur skrifað Önnu Maríu (Margréti Helgu Jóhannsdóttur), sem enn er í þjónustu Þorvalds Helmers og Anna María hleypir henni inn í húsið á laun. Anna María er aukapersóna í Brúðuheimili Ibsens. Þar kemur fram að hún hefur fóstrað hina móðurlausu Nóru frá upphafi og síðar börn hennar.

Bygging leikritsins er klassísk, það skiptist í þrjár lotur; uppgjör Nóru og Önnu Maríu, Nóru og Emmu, dóttur hennar (Ebba Katrín Finnsdóttir) og loks lokauppgjör þeirra Nóru og Þorvalds  Leikritið er afar vel skrifað, Nóra segir Önnu Maríu hvað á daga hennar hefur drifið og reynir að fá Þorvald til að sækja um skilnaðinn en hann neitar. Til að byrja með er leikritið eins og framhald af verki Ibsens – fyrir þá sem þekkja það – en eftir það byrjar Lucas Hnath að bæta við dýptum og víddum í sitt nýja verk.

Nóra og Þorvaldur eru þau sömu en þó aðrar manneskjur en þær sem við hittum fyrir í Dúkkuheimilinu  í sýningu Hörpu Arnardóttur á sama sviði með sömu leikurum í aðalhlutverkum fyrir þremur árum. Una Þorleifsdóttir og hennar fólk velja að skilja skýrt á milli Dúkkuheimilisins 1. hluta og þessa nýja verks með því að blanda gömlu og nýju og nota mikla stílfærslu. Í fróðlegu viðtali í leikskrá segjast Una og leikmyndahönnuðurinn Börkur Jónsson  hafa valið millitímabil eða þýskan expressionisma frá fyrsta hluta 20. aldar sem sjónrænt viðmið. Það var líka tímabil uppbrots og nýrra formtilrauna í byggingarlist og í leikhúsinu var með ráðum og dáð risið upp gegn natúralisma með því að rjúfa textaflæði með dansi og söng og myndum.

Leikmynd Barkar er stílhrein, formföst, sett saman úr massívum blokkum sem umlykja innra holrými. Völundarhús kom upp í huga minn. Í viðtali í leikskránni talar Börkur um áhrif frá myndhöggvaranum Eduardo Chillida og því sem hann kallar „innri massa“ bygginga sem eins konar fjarveru eða tóm, rýmið milli ytri massanna. Fátt getur betur bent á það sem verður þegar Nóra gengur út frá ástvinum sínum. Lýsing Bjarnar Bergsteins Guðmundssonar lék sér við skúlptúrinn sem Börkur byggir.

Hús Þorvalds er tómt og skrautlaust. Þegar þú fórst, segir Anna María við Nóru, var náttúrlega öllu sem þú áttir hent.  Anna María í túlkun Margrétar Helgu var bæði fyndin og klók og ég hef áreiðanlega ekki verið ein um að hugsa: Hvar hefurðu verið, Margrét Helga!

Búningar Stefaníu Adolfsdóttur eru fagrir og kjólar kvennanna stílhreinir, drappaður hjá Önnu Maríu, rautt silki hjá Nóru, gult hjá Emmu og blátt flauel í frakka  Þorvalds. Tónlist Unu Sveinbjarnardóttur og hljóðmynd þeirra Garðars Borgþórssonar var líka afar falleg. Allir þættir sviðsetningarinnar unnu fagurlega saman að því að sýna kjarna verksins.

Fórnarkostnaður

Það má segja að meginfréttin í Brúðuheimili Ibsens hafi verið þær að Nóra, konan, væri líka manneskja. Kannski er meginfréttin í Dúkkuheimili 2 sú að Þorvaldur sé líka manneskja og það sama gildi um Önnu Maríu og börnin sem skilin voru eftir. Unnur Ösp túlkar Nóru í upphafi sem sjálfsörugga, róttæka og femíniskt frelsaða konu en smám saman flækist sú mynd. Dóttir hennar umgengst hana af kaldri kurteisi og sjálfsaga. Sá agi leyfir enga einlægni en er mettaður af undirtextum og Ebba Katrín Finnsdóttir náði að sýna að samskipti dótturinnar við Nóru er línudans yfir hyldýpi. Hún segir stillilega við móður sína þegar hún sér hvað erindi hennar skapar mikil „vandræði“ fyrir fjölskylduna að það myndi leysa mörg vandamál ef hún dæi.

Við kynnumst Þorvaldi Helmer í Brúðuheimili Ibsen ekki sérlega vel, hann er svo takmarkaður. Við fáum bara að sjá að hann er gríðarlega hégómagjarn, metnaðarfullur og sjálfselskur.  Sá Þorvaldur sem við hittum fyrir í Dúkkuheimili öðrum hluta í túlkun Hilmis Snæs heldur aftur af tilfinningum sínum til að byrja með og á bágt með að tjá þær. Þá bresta þau Nóra í dans sem brýtur niður varnarveggi orðanna, ótrúlega erótískur og tilfinningaþrunginn. Sá dans eftir danshöfundinn Sveinbjörgu Þórhallsdóttur var jafn vel heppnaður og hinar expressjónísku vélmenna- eða strengjabrúðuhreyfingar voru andkannalegar í samhengi sýningarinnar. Dansinum fylgdu sterkar tilfinningar og uppgjör þar sem bæði Unnur Ösp og Hilmir Snær voru ekkert að halda aftur af sér.  Þvílíkt rifrildi hef ég sjaldan séð á sviði – það var sterkt. Raunar var allt samspil þessara stórleikara  frábært. Og í því spennufalli sem varð eftir átökin var ljóst að bæði Nóru og Þorvald langaði svolítið til að sættast og byrja aftur að vera saman.

En það var og er ekki hægt. Það eru ennþá erfiðir tímar.

Og Nóra hefur ennþá verk að vinna.

Greinin birtist fyrst í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“