fbpx
Miðvikudagur 28.október 2020
Fókus

Baldvin Z – „Alltaf ætlunin að láta áhorfendum líða illa“

Babl.is
Sunnudaginn 11. nóvember 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvikmyndin Lof mér að falla og þættirnir Lof mér að lifa hafa verið áberandi í umræðunni upp á síðkastið. Lof mér að falla fjallar um tvær ungar stelpur, Magneu og Stellu, sem leiðast út í grimman heim fíkniefna og ofbeldis og Lof mér að lifa eru tveir þættir sem voru sýndir á RÚV og fjölluðu um sannar sögur íslenskra kvenna sem voru vafðar inn í myndina. Það er einmitt það sem Lof mér að falla hefur verið sérstaklega lofuð fyrir, hún er raunveruleg, og það er ekki verið að skafa af neinu.

Í ár hefur umræða um ofskömmtun lyfja og annarskonar fíkniefnaneyslu verið hávær og því pössuðu myndirnar við umræðuna eins og flís við rass. Baldvin Z leikstýrði myndinni. ,,Ég hef aldrei unnið í bíómynd þar sem við grétum jafnoft á setti. Til dæmis atriðið þegar Magnea og Stella hittast á ganginum á Stígamótum, þegar búið var að lemja Magneu og Stella krýpur fyrir framan hana og spyr hvort hana vanti aðstoð. Eftir tökur voru bæði leikarar og tökulið grátandi. Það lifðu sig allir svo inn í þessa sögu.”

Baldvin reyndi einmitt að vinna með það. Í atriði þar sem Doddi, sem er leikinn af Guðjóni Davíð Karlsyni eða Góa, hreytir í foreldra Stellu: ,,Eru þið að leita að litlu rauðhærðu pussunni?” trylltist Þorsteinn Bachmann sem fór með hlutverk föður Stellu.

,Þá hafði ég hlaupið að Góa og sagt honum að segja þetta. Ég geri þetta til að fá alvöru viðbrögð frá leikurunum. Þetta virkaði alltof vel því Steini missti stjórn á sér. Hann eyðilagði atriðið því hann tryllist. Hann varð svo reiður þegar Gói sagði þetta að hann fór bara að grenja og öskra. Þetta er ógeðsleg setning.”

Verkefnið er búið að vera sjö ár í vinnslu, eða allt frá því að Baldvin Z, leikstjóri myndanna, fékk tilboð um að gera forvarnarverkefni gegn fíkniefnum.

,,Þá var ég að vinna með Ragnhildi Steinunni og ég átti að búa til sögu um hana. Í þessari sögu átti hún finna tímapunkt í lífinu þar sem hún hefði getið valið ranga leið.” Í tengslum við það verkefni sem aldrei varð neitt úr, bárust til Baldvins sögur af Kristínu Gerði sem hafði eytt mörgum árum í fíkniefnaneyslu og vændi áður en hún fyrirfór sér aðeins 31 ára gömul.

,,Ég fékk að heyra af þessum dagbókum og fór síðan að lesa þær. Þá datt mér í fyrst hug að gera bíómynd um fíkniefnaheiminn á Íslandi.” Baldvin kom sér þá í samband við Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamann, en dóttir hans lést úr of stórum skammti af morfíni.

,,Hann kom mér í samband við stelpur sem voru í neyslu,” og eftir að hlusta á sögur þeirra náðu Baldvin og Birgir Örn Steinarsson að skrifa handritið að myndinni.

Vill að áhorfendur þjáist

Fyrst þegar Baldvin fór að segja fólki sögurnar úr dagbókum Kristínar þá trúði honum enginn. ,,Fólk hélt ég væri að ýkja. Ég trúði því varla sjálfur að fíkniefnaheimurinn á Íslandi væri svona grófur. Þegar ég kynntist stelpunum sem ég tók viðtöl við, komu jafnvel verri sögur.

Þegar við vorum að skrifa handritið þá hafði ég upplifun mína við að lesa dagbækur Kristínar Gerðar í huga. Ég vildi að áhorfendur upplifðu sömu tilfinningar. Ég vildi gera langa mynd og ég vildi að áhorfendur þjáðust á myndinni. Þeir færu í tilfinningarússíbana sem myndi halda þeim eins lengi og mögulegt væri, og færu síðan miður sín út af myndinni. Því þannig líður fólki sem er í harðri neyslu. Þannig líður aðstandendum þeirra.”

,,Maður veit aldrei hvenær maður er að ýta krökkum yfir línuna”

Hvort Lof mér að Falla hafi forvarnargildi segir Baldvin að hann efist ekki um að hún hafi einhverskonar forvarnargildi. En það sé ekki einföld umræða.

Það er ekkert rómantískt og enginn töfraljómi yfir því sem er að gerast í myndinni. ,,Með Lof mér að lifa þáttunum er myndin tengd raunveruleikanum enn frekar. Fólk sér þá að þetta er raunverulegt og sögurnar eru sannar. Þetta er ekki bara bíómynd sem gerist bara á tilbúnu leiksetti.”

Eins og hefur verið rætt um átti Sigurbjörg Jónsdóttir sem klippti meðal annars myndina Vonarstræti, að klippa Lof mér að falla. Hinsvegar hafði hún lengi átt við fíkn að stríða og var því miður ekki edrú þegar Lof mér að falla verkefnið fór af stað.

,,Hún er náttúrulega rosalega reið við mig og finnst að ég hafi hrifsað myndina af henni. En ég get ekki ráðið hana í vinnu þegar hún er í neyslu.”

Þó Sigurbjörg eða Sibba eins og hún er oft kölluð hafi skilað af sér frábæru verki þegar hún klippti Vonarstræti, var ferlið brjálæðislegt og erfitt að sögn Baldvins, vegna þess að hún féll áður en hún lauk að klippa myndina. ,,Þetta voru þrettán mánuðir af einhverju brjálæði með yndislegum í bland við mjög erfiðum stundum, en hún skilaði af sér snilldarverki. Hinsvegar get ég ekki skilað mögnuðum bíómyndum og verið stöðugt úrvinda og í taugahrúgu eftir á. Þetta er nógu flókið fyrir.”

Rætt var við Sibbu í Lof mér að lifa þáttunum þar sem hún lýsir því að hún sé með svokallaðan ,,Ferrari” heila, en það er þekkt að krakkar sem eru mjög ofvirkir eða orkumiklir og með athyglina út um allt, hrífist af heimi fíkniefna. ,,Hún vissi frá fjórtán ára aldri að þetta væri hennar leið í lífinu. Það hefði þurft að grípa strax inn í hjá henni á mjög róttækan hátt. En það er að sjálfsögðu flóknara en að segja það, maður veit aldrei hvenær maður er að ýta krökkum yfir línuna, hvernig þú heldur þeim réttu megin, hvort þú viljir hafa þau nálægt þér eða hvort þú viljir loka þau af. Þetta er bara ógeðslega erfitt.”

Sibba er hinsvegar ekki eina konan sem þekkir heim fíkniefna og ofbeldis á Íslandi. Þóra Björg Sigríðardóttir er önnur kona sem rætt var við fyrir gerð myndarinnar, og er í Lof mér að lifa þáttunum. Hún var fyrirmynd Stellu þegar hún var yngri.

Stella eldri og Magnea eldri eru svo báðar byggðar á Kristínu Gerði, en saga Kristínar Gerðar er náttúrulega aðalástæðan fyrir því að myndin varð til. Þannig var málið að Kristín Gerður var í mikilli neyslu og vændi. Hún á hryllilega ljóta sögu að baki. En þegar hún var komin á þrítugsaldurinn náði hún að verða edrú. Á næstu árum var hún með forvarnarfræðslu fyrir krakka um hættur fíkniefnaheimsins. Draugar og djöflar úr fortíðinni vildu hinsvegar ekki sleppa henni og á endanum yfirbuguðu þeir hana, og Kristín framdi sjálfsvíg aðeins 31 árs að aldri.

Klár og flott stelpa að sprauta sig

Stella eldri er því byggð á Kristínu þegar hún var edrú og allt virtist ganga vel á yfirborðinu. Magnea eldri er Kristín þegar hún var í neyslu og bjó á götunni.

,,Við byggðum útlit Stellu eldri á Kristínu Gerði. Við skulduðum henni það, hún átti það mikið í persónunni,” en rétt eins og Kristín var Stella eldri snöggklippt, dökkhærð og frekar svöl.

,,Magnea og Stella þegar þær eru yngri eru byggðar á öðrum stelpum. Það sem ég vildi gera með Kristínu Júllu, sem vann með mér í að skapa útlit persónanna í myndinni, er að hafa greinanlegan mun á útliti stelpnanna í hvert skipti sem hoppað er fram í tímann þegar þær eru enn ungar. Magnea er með fína rauða hárið í byrjun, síðan litar hún sig ljóshærða sem okkur fannst þá vera rökrétt skref. Margar af þessum stelpum lituðu sig og voru mjög flottar. En um leið og neyslan fer að taka meiri toll þá breytast stelpurnar alltaf meira og meira.”

Rétt áður en örlög stelpnanna eru ráðin á flugvellinum í Brasilíu, þá mátti sjá Stellu og Magneu aftur eins og þær litu út í byrjun, sem undirstrikaði hversu harkalega var lokað á alla von fyrir þær báðar, sem hefði annars verið til staðar.

En málið með Magneu er einmitt að hún lítur svo sakleysislega út, allavega í byrjun myndarinnar. Hún er bara venjuleg stelpa sem gengur ágætlega í skóla, er frá venjulegu heimili, en er svo að sprauta sig. Fólk getur tengt við hana og þessvegna skilið að fíknisjúkdómurinn getur hrjáð hvern sem er. Tilfinningarofið sem margir af þessum krökkum upplifa er ekki sýnilegt, þetta getur læðst að þér, þetta þarf ekki að vera mjög stórt áfall, ofbeldi eða eitthvað slíkt sem leiðir þig í neyslu. Magneu líður illa, hún er týnd á milli tveggja fjölskyldna.

,,Þegar ég hitti stelpuna sem við byggðum Magneu á, brá mér ofboðslega,” segir Baldvin. ,,Hún átti rosalega harða sögu að baki. En síðan labbar hún inn og er bara venjuleg, sæt stelpa sem þú gætir aldrei ímyndað þér að væri í neyslu. En undir yfirborðinu var hún mjög þunglynd og illa á sig komin vegna þess að vinur hennar hafði dáið mánuðinum fyrr, tekið of stóran skammt og dáið.”

Allar lentu í kynferðisofbeldi

Það að heyra allar þessar grófu sögur frá dagbókum Kristínar Gerðar, sögur frá Þóru Björg og fleirum, tók svo sannarlega á. ,,Ég fann það ekki fyrr en við kláruðum myndina hvað ég var búinn á því. Ég get ekki meira í bili, sem er svo eigingjarnt því ég er ekki sjálfur að lenda í neinu, ég er bara að heyra sögur annara. Hvað með þær sem upplifa þetta?”

Á meðan myndin var í vinnslu segir Baldvin að hann hafi náð að stilla sig af og komið fagmannlega að verkinu. ,,Þetta er bara vinna eins og hver önnur. En núna nýlega þá keyrði ég á vegg. Ég er búinn að innbyrða allar þessar sögur, allar þessar áhyggjur, búinn að vera með þessum stelpum í mörg ár og hef átt í allskonar samskiptum við þær daga og nætur.”

Baldvin segir að frumsýningin hafi verið sérstaklega erfið. ,,Þóra Björg kom útúrdópuð á sýninguna. Hún segir að hún hefði ekki getað séð myndina öðruvísi. Þessar stelpur eru svo illa farnar, þær eru svo skemmdar. Það þarf gríðarlega mikið til að púsla þeim aftur saman, þetta er hreinlega ömurlegt.”

Lentu allar konurnar sem þú talaðir við í grófu kynferðisofbeldi?

,,Já. Engin undantekning.”

Viðmælendur Baldvins bera ekki vott af virðingu fyrir mönnum sem vilja nýta sér neyð kvennanna. ,,Ein stelpan sem ég ræddi við, var duglegust í að ræna perra sem ætluðu að kaupa af henni vændi og þénaði 800.000 krónur á því á síðasta ári. Hún sagði að þetta væru bara ljótir kallar og þessvegna skiptu þeir hana engu. Viðmælendur mínir myndu aldrei ræna góða menn, bara vonda menn. En stelpan sem var duglegust í þessu lenti í því að mynd af henni var prentuð út og send á milli einhverja perra til að vara við henni því hún væri að svíkja. Hún lenti líka einu sinni í því að fara heim til manns sem þekkti foreldra hennar. Hann reyndi náttúrulega að ljúga sig út úr því og segja að hann hafi vitað að hún væri í þessu og fengið hana til sín til að hjálpa foreldrum hennar að bjarga henni.”

Miðað við það sem hefur þegar komið fram þá hljómar Lof mér að falla ekki eins og mynd ætluð börnum. Þann 6. október gagnrýndi Rótin-félagið um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda að grunnskólar færu í skipulagðar ferðir með börn á sýningu, í færslu á heimasíðu félagsins. Myndin er bönnuð innan fjórtán ára og ef um var að ræða yngri bekki var beðið um leyfi foreldra.

Ekki hugsuð sem forvarnarmynd

,,Ef fólk vill senda grunnskólabörn á þessa mynd þá verður samtal og fræðsla að fylgja með. Það er fullt af flötum í myndinni sem hægt er að ræða og útskýra. Það er hinsvegar ekki hægt að kaupa bara miða í bíóið, senda börnin inn í sal og segja svo ,,Krakkar, ekki dópa”. Það virkar ekki þannig.”

Lof mér að falla hefur ef til vill forskot á aðrar myndir um að ná áreynslulaust til unglinga, einmitt vegna þess að hún var ekki hugsuð sem forvarnarmynd. ,,Þegar forvarnarverkefni eru gerð þá er fólkið sem vinnur að því að setja sig í einhverjar stellingar. Það á að tala og haga sér á ákveðinn hátt til að ná til unglinga. Ég var alltaf að reyna að ná til fullorðinna með Lof mér að falla. Mér lá alls ekki á að ná til unglinga. En hún greinilega nær til unglinga því það er ekkert verið að reyna of mikið eða tala öðruvísi en tíðkast.”

Baldvin hefur fengið fullt af skilaboðum frá fólki sem myndin snerti. ,,Þetta eru að nálgast hundrað skilaboð, frá bæði unglingum og fullorðnum. Bæði frá fólki sem er hætt í dópi og fólki sem öðlaðist nýjan skilning á fíkniefnaheiminum út af myndinni.”

Meira vægðarleysi í fíkniefnaheiminum í dag

Það er ekki lengur hægt að loka augunum fyrir fíkniefnavandanum á Íslandi. Hann er allstaðar og kemur öllum við. ,,Fyrir tuttugu árum var kannski hægt að loka augunum fyrir fíkniefnavandanum því hann kom fyrir einhversstaðar í fjarska og flestir þurftu ekkert að vita af þessu. Saga Kristínar Gerðar var einstök á sínum tíma, en í dag er þessi harði heimur orðinn almennari og miklu nær okkur. Það er komið meira vægðarleysi í veruleikann. Krakkar sem eru að deyja núna eru ekkert endilega harðir eiturlyfjafíklar, kannski bara krakkar að fikta. Eiturlyfin sem krakkar eru að prófa hafa versnað. Ofbeldið og ömurleikinn í kringum þau hafa og verða alltaf til staðar í einhverju formi.”

Myndina má jafnvel kalla ákall á aðgerðir til að sporna við þessu alvarlega vandamáli sem hrjáir Ísland. ,,Allskonar umræða hefur farið af stað út af myndinni. Presturinn sem setti Alþingi minntist á myndina í þingssetningunni. En nú þarf fagfólkið að taka við. Þeir sem vinna í kerfinu verða að grípa þetta og gera eitthvað. Því ef ekkert er gert þá er staðreyndin sú að vandinn mun halda áfram að aukast og við lendum í þessari fíkniefnaneyslusprengju sem önnur ríki eru að lenda í.”

Það var einmitt stelpa frá Noregi sem átti að vera einn af viðmælendum fyrir gerð myndarinnar. ,,Hún var sprautufíkill sem gekk í gegnum hreint helvíti. Það eru komin þrjú ár síðan hún hætti í neyslu, og hún skilar enn þann dag í dag þvagprufu einu sinni í viku. Í staðinn fær hún stuðning frá ríkinu til að verða virkur samfélagsþegn. Þetta er nokkurra ára prógram þar sem ríkið kemur fíklunum í vinnu og húsnæði. Auðvitað kostar þetta sitt en síðan er hún næstu fimmtíu eða sextíu árin að fara að greiða skatt. Þetta skilar sér margfalt til baka.”

Baldvin finnst vanta eitthvað svipað prógram á Íslandi og það vanti trygga aðstoð frá geðheilbrigðiskerfinu. ,,Neyslan er alls ekki það versta við fíkniefnaheiminn. Það er röð af áföllum sem fólk þarf að vinna úr. Allt ofbeldið. Það er það sem hrindir fólki aftur í neysluna.”

Erfitt fyrir foreldra að átta sig á úrræðum

Fyrir utan það vantar sterkara og skipulagðara batterí til að leiðbeina foreldrum sem eiga barn í fíkniefnaneyslu. ,,Það eru kannski allskonar úrræði til, tilgangur þeirra og tilurð þurfa bara að vera skýrari. Foreldrar villast í kerfinu.” Þá eru allskonar flóknar spurningar sem þarf að svara en verður ekki endilega auðveldlega svarað, til dæmis hvort barnið sé með athyglisbrest eða ekki. Hvort það varð fyrir kynferðislegu ofbeldi eða ekki. Hvort það eigi að byrja á vægum úrræðum eða hvort það þurfi að senda barnið strax í langa meðferð.

,,Foreldrar eiga það svo til að hlusta á alla en það er kannski togstreita á milli mismunandi úrræða sem þeim er ráðlagt að nýta sér. Nokkrir foreldrar hafa sagt við mig að það eina sem þau sjá eftir er að hafa ekki farið eftir eigin tilfinningu fyrir því sem var rétt. Því hver og ein manneskja er einstök og einstakt hvernig hún tekst á við hlutina. Það á að sjálfsögðu líka við krakka sem eru í neyslu.” Það er erfitt að svara hvort einhver úrræði sem eru til staðar hefðu virkað fyrir Magneu.

Magnea hrynur andlega í partýinu 

,,Þegar Silja deyr í partýinu hefði Magnea getað valið tvær leiðir. Í byrjun myndarinnar er Magnea nú þegar komin í neyslu en dauði Silju var klófestingin. Hún hefði getað orðið edrú því hún vildi ekki enda eins og Silja, eða algjörlega hrunið andlega. Hún endaði á að fara seinni leiðina.

Það var hluti í sögunni sem endaði ekki í myndinni, þar sem Magnea nær að rétta við kútnum eftir dauða Silju. Hún stenst prófin í skólanum, slítur sig frá Stellu, gerir málin upp við Helgu, gamla vinkonu sína. Síðan hittir hún Stellu aftur og dópið er auðvitað alveg jafn heillandi. En við ákváðum að sleppa því að hafa þennan kafla inni því okkur fannst sterkara að sjá Silju deyja og Magnea sleppir sér bara. Þetta hafði þau áhrif á hana.”

Við sjáum Magneu sprauta sig í fyrsta sinn í myndinni. ,,Ég vildi búa til fallegasta og besta augnablikið í lífi hennar. Stelpurnar sem ég talaði við lýstu þessu allar þannig, þessari alsælu. Þetta er geðveikt. Mér fannst allt í lagi að sýna hversu frábært henni fannst þetta því það var þegar komið fram í myndinni hvert Magnea var að fara í lífinu. Það átti alltaf að vera þessi undirliggjandi óþægindatilfinning þegar það var gaman hjá Magneu og Stellu. Áhorfendur áttu að vita að þetta ætti eftir að enda illa. Ég vil að fólk hugsi að næst þegar það prófar að sprauta sig með kontalgeni eða rídalíni, að eftir tuttugu ár verði það heima hjá einhverjum náunga sem er að berja það og nauðga því.”

Stækkandi vandamál leiðir til normalíseringu vandans

Það eru eflaust fáir hlutir sem má telja einfalda varðandi fíkniefnavandann og hvernig á að leysa hann. Til dæmis þegar afglæpavæðingu er stillt upp á móti ,,normalíseringu.” Því útbreiddari sem fíkniefnavandinn er og erfiðari viðureignar þá verður hann á sama tíma eðlilegri og óljósari. Það er margt sem við sjáum ekki nema úr fjarlægð, fólk hættir að taka eftir fíkniefnavandanum þegar hann er allt í kring, rétt eins og þegar Ísland hverfur sjónum er flugvélin lendir.

,,Mér finnst alveg þess virði að skoða afglæpavæðinguna þó hún hafi margar neikvæðar hliðar. En hún getur skilið á milli lífs og dauða, þá hvort fólk setur það í forgang að fela fíkniefni í einhverjum partýum áður en hringt er á sjúkrabíl því einhver tók of stóran skammt,” og vísar Baldvin í atriði í Lof mér að falla þar sem Silja deyr, sem er byggt á andláti dóttur Jóhannesar Kr.

,,Ef þið spilið í Bljúgri bæn í jarðarför minni þá geng ég út”

Þó Baldvin leikstýrði myndinni á blaði segist hann vera nokkuð viss um að Kristín Gerður hafi stjórnað ýmsu. ,,Kristín er það sterkur persónuleiki að hún er að breyta Íslandi tuttugu árum eftir að hún deyr. Við sem lásum dagbækur Kristínar kynntumst henni rosalega vel. Hún var ótrúlega klár og góður penni. Þessvegna tengdumst við henni svo sterkt, maður fann ótrúlega vel fyrir henni.”

Sem dæmi má nefna þegar verið var að velja eitthvað kristilegt lag sem Ólafur Arnalds átti að syngja í meðferðinni sem Magnea fór í. ,,Okkur vantaði eitthvað Jesúlag og ákváðum að nota lagið Í Bljúgri bæn. Síðan kemur systir Kristínar að horfa á myndina og spyr af hverju þetta lag sé í myndinni. Þá kemur í ljós að Kristín þoldi ekki þetta lag. Hún hafði sagt: ,,Ef þið spilið Í Bljúgri bæn í jarðarför minni þá geng ég út.” Þessvegna var þetta lag fullkomið.”

Baldvin segir að þetta sé eitt af mörgum dæmum um hvernig ýmislegt datt inn í myndina sem passaði fullkomlega við Kristínu án þess að það hafi verið ætlunin upphaflega. ,,Kristín Júlla, sminkan í myndinni sagði mér upphaflega frá Kristínu. Hún kom með svo mikla nærveru frá Kristínu á settinu. Það voru mörg smáatriði sem hún kom með inn í verkefnið, sem við hefðum aldrei fattað að bæta við.”

Hissa á að Íslendingar gefi börnum sínum lyf

Lof mér að falla var sýnd á World Cinema-hluta Bus­an, sem er stærsta kvikmyndahátíð Asíu. ,,Það er allt önnur menning þar og þessvegna fengum við allt öðruvísi spurningar. Það er mjög lítill eiturlyfjavandi í Suður Kóreu og þau skilja ekkert hvað er í gangi á Íslandi. Þau eru líka svolítið hissa á að við séum að gefa börnunum okkar lyf. Það er mjög áhugavert að fá allt annað sjónarhorn á þessa mynd.

,,Til dæmis var frekar spurt af hverju Stella verður edrú þegar hún á enga fjölskyldu en Magnea heldur áfram í neyslu. Hvort það sé verið að segja eitthvað með því. Þau voru alltaf að reyna að ráða í hvað ég væri að segja við áhorfendur.”

Baldvin segir að það sé frekar hlutverk áhorfandans að túlka bíómyndina og finna meiningar og tilgang á bak við hana. Leikstjórinn er bara málpípa sagnanna. ,,Það er ekki svona mikið af pælingum á bak við hlutina. Ég hef bara gaman af því að segja sögur og knýjandi þörf til að búa til gott bíó. Flóknara er það ekki.”

Sólrún Freyja Sen skrifaði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Bestu pör sögunnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Þarna fékk ég nokkra daga til að hugsa um lífið og tilgang lífsins“

„Þarna fékk ég nokkra daga til að hugsa um lífið og tilgang lífsins“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Barnið mitt er bústið – Er það endilega vandamál?

Barnið mitt er bústið – Er það endilega vandamál?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kórdrengur í Kaupmannahöfn: Tíminn frá því í kringum 1970 lifnar við í nýrri bók eftir Jón Óskar Sólnes

Kórdrengur í Kaupmannahöfn: Tíminn frá því í kringum 1970 lifnar við í nýrri bók eftir Jón Óskar Sólnes
Fókus
Fyrir 4 dögum

Elísabet Hulda er Miss Universe Iceland 2020

Elísabet Hulda er Miss Universe Iceland 2020