fbpx
Föstudagur 04.október 2024
Eyjan

Áslaug Arna segir Sjálfstæðisflokkinn vera rétta valkostinn fyrir fátækt fólk

Eyjan
Föstudaginn 6. september 2024 15:30

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra færir í grein í Morgunblaðinu, sem hún endurbirtir í færslu á Facebook-síðu sinni, rök fyrir því að flokkur hennar, Sjálfstæðisflokkurinn, sé besti valkosturinn fyrir fátækt fólk á Íslandi.

Hún vísar í upphafi í grein eftir þjóðþekkta konu sem starfaði í Alþýðuflokknum. Áslaug nafngreinir ekki konuna en segir hana hafa skrifað í greininni um hvernig Alþýðuflokkurinn hefði barist fyrir kosningarétti fátækra sem þegið hefðu félagslegan stuðning en fram á fyrri hluta 20. aldar var fólk í slíkri stöðu svipt kosningaréttinum. Áslaug Arna segir hina ónefndu kona hafa lýst furðu sinni yfir því hvaða flokki þessi þjóðfélagshópur greiddi atkvæði sitt þegar loksins tókst að afnema lög sem kváðu á um að þau sem þáðu framfærslustyrk yrðu svipt kosningaréttinum:

„Árið 1934 fékk fá­tæk­asta fólkið á Íslandi loks ótak­markaðan kosn­inga­rétt. Þegar kjör­dag­ur rann upp og fólkið í Pól­un­um í Reykja­vík klæddi sig í spari­föt­in fór það í kjör­klef­ann til að kjósa. Fólkið kaus, í stór­um stíl, Sjálf­stæðis­flokk­inn. For­ystu­kon­an gat með engu móti skilið af hverju fólkið sem Alþýðuflokk­ur­inn barðist fyr­ir að fengi kosn­inga­rétt hefði ekki launað þeim greiðann og kosið til vinstri.“

Pólarnir í Reykjavík voru hrörlegt íbúðarhúsnæði sem byggt var syðst við Laufásveg og sérstaklega ætlað bágstöddum fjölskyldum. Pólarnir voru upphaflega byggðir í mikilli húsnæðiseklu í fyrri heimstyrjöldinni og áttu að vera til bráðabirgða en voru stækkaðir og stóðu á endanum í tæpa hálfa öld.

Skynsamt fólk

Áslaug Arna segir hina fátæku íbúa Pólanna hafa með skynsemina að leiðarljósi kosið Sjálfstæðisflokkinn í stórum stíl:

„Af hverju rifjaði ég upp þessa grein? Veru­leik­inn var að á þess­um tíma áttaði þetta skyn­sama fólk sig á því að flokk­ur­inn sem barðist fyr­ir jöfn­um tæki­fær­um, stétt með stétt og blóm­legu at­vinnu­lífi var Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn. Flokk­ur­inn sem vildi hjálpa fólki út úr fá­tækt. Við vilj­um hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. En við vit­um líka að það verður alltaf ein­hver hóp­ur sem þarf áfram­hald­andi stuðning og vel­ferðar­kerfið á að vera það sterkt að fólk fái þann stuðning sem það þarf. Til þess þarf þó skýra for­gangs­röðun. Vel­ferðar­kerfið verður ekki sterkt nema við ýtum und­ir og styðjum við fram­tak ein­stak­linga og ár­ang­ur fyr­ir­tækja. Sam­hengi verðmæta­sköp­un­ar og vel­ferðar verður ekki rofið.“

Áslaug Arna segir að Sjálfstæðisflokknum hafi ekki gengið nógu vel undanfarin misseri að koma þessum skilaboðum á framfæri og pólitískir andstæðingar hafi reynt að skilgreina flokkinn þannig að hann vinni eingöngu í þágu tiltekins þjóðfélagshóps.

Dæmi um slíkar staðhæfingar er grein Reynis Böðvarssonar jarðskjálftafræðings sem fagnar mjög minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins. Hann segir flokkinn aðeins gæta hagsmuna auðugasta hluta þjóðarinnar og segir Sjálfstæðismenn hafa frá upphafi reynt að koma í veg fyrir allar umbætur í þágu þeirra sem ekki teljast auðugir.

„ Þolinmæði fólks er þrotin, fólk er búið að fá nóg, búið að fá nóg af Sjálfstæðisflokknum“

Þessu andmælir Áslaug Arna og segir stefnu Sjálfstæðisflokksins vera fyrir alla og að blómlegt atvinnulíf og öflugt velferðarkerfi séu ekki andstæður:

„Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er sá flokk­ur sem hef­ur stuðlað að því að fólk geti hjálpað sér sjálft. Við þurf­um ekki að skipta um stefnu held­ur ætl­um við að vinna áfram á grund­velli okk­ar hug­mynda­fræði. Standa með ein­stak­lingn­um, með fjöl­skyld­un­um. Sjálf­stæðis­stefn­an er ekki stefna hinna fáu, held­ur stefna fyr­ir alla.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Deilurnar í Pírötum – Halldór Auðar hættur aðeins þremur vikum eftir að hann var kjörinn

Deilurnar í Pírötum – Halldór Auðar hættur aðeins þremur vikum eftir að hann var kjörinn
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bergþór Ólason: Ekki hægt að tala um kyrrstöðu því allt hefur færst til verri vegar og ríkisútgjöld sprungið út

Bergþór Ólason: Ekki hægt að tala um kyrrstöðu því allt hefur færst til verri vegar og ríkisútgjöld sprungið út
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Klofningurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála

Sigmundur Ernir skrifar: Klofningurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Bergþór Ólason: Pólitískur ómöguleiki að Svandís verði fagráðherra í ríkisstjórn Bjarna Ben í kosningabaráttu

Bergþór Ólason: Pólitískur ómöguleiki að Svandís verði fagráðherra í ríkisstjórn Bjarna Ben í kosningabaráttu