fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Eyjan
Sunnudaginn 1. desember 2024 16:00

Fullveldinu fagnað við Stjórnarráðið 1. desember 1918.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rétt fyrir miðnætti í gærkveldi sat ég í hljóðveri uppi á Ríkisútvarpi og var að rýna í fyrstu tölur með fleira fólki, tölur sem enn voru svo brotakenndar að erfitt var að draga ályktanir og niðurstöður skoðanakannana því enn í huga manns. Umræðan hefur líka og mjög mótast af tíðum mælingum á fylgi — en við blasir að niðurstaðan er allnokkuð frábrugðin mælingunum, ekki hvað síst er varðar fylgi Sjálfstæðisflokksins. Í ljósi kannana má kalla að hann hafi unnið varnarsigur en sögulega galt flokkurinn afhroð. Ályktanir verða gerólíkar eftir því hver viðmiðin eru.

Brotthvarf Vinstri grænna og Pírata sætir miklum tíðindum. Fyrrnefndi flokkurinn náði ekki einu sinni 2,5% markinu til að hljóta ríkisstyrk ólíkt Pírötum sem munu fá hátt í nítján milljónir króna á ári úr ríkissjóði. Þegar fylgi Vinstri grænna og Pírata er lagt saman við fylgi Sósíalistaflokksins og Lýðræðisflokksins, sem fengu ekki heldur mann kjörinn, fellur rúmur tíundi hluti greiddra atkvæða niður dauður. Og talandi um ríkisstyrkinn þá mun hann nema tæpum 25 milljónum á ári til Sósíalistaflokksins.

Í kosningaúrslitunum felst líka áhugaverð þversögn. Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn á þingi en samt er ekki vinstribylgja, því enginn annar flokkur sem skilgreinir sig til vinstri fékk mann kjörinn. Í ofanálag hefur Samfylkingin færst umtalsvert inn á miðjuna og líkist nú blessunarlega meira systurflokkum sínum í Skandinavíu. Fimmtungsfylgi Samfylkingarinnar er þá allt fylgi vinstrisins á þingi og það eru líklega stærstu tíðindi þessarar kosningabaráttu.

Skilaboð kjósenda

Þetta er í annað sinn sem Samfylkingin mælist stærst flokka. Það gerðist einnig 2009 þegar flokkurinn hlaut 29,8% atkvæða á landsvísu. Það voru fyrstu þingkosningar Sjálfstæðisflokksins undir forystu Bjarna Benediktssonar og hlaut flokkurinn þá 23,7%. Við sjáum hvað dreifingin á fylgi er orðin miklu meiri nú. Samt fækkaði þingflokkum að þessu sinni um tvo, voru átta en urðu sex.

Þar sem við höfum engar flokkablokkir hér eins og í Skandinavíu verða skilaboð kjósenda aldrei almennilega skýr um hvernig stjórnarmynstur þeir helst kysu. Í úrslitin má þó alltént lesa það að kjósendur vildu alls ekki áframhaldandi stjórnarsamstarf — heldur eitthvað nýtt. Stjórnarflokkarnir fengu samanlagt hörmulega útreið, þó ekki eins slæma og Samfylkingin og Vinstri grænir 2013 þegar fylgið helmingaðist.

Líklegast má því telja að Samfylkingin og Viðreisn reyni stjórnarmyndun með Flokki fólksins. Það yrði drjúgur meirihluti, 36 manns, svo stjórnin gæti þolað að einstaka þingmenn svikjust undan merkjum endrum og sinnum. Því þó svo að Inga Sæland hafi rekið Flokk fólksins sem sitt einkafirma hafa nú bæst við að minnsta kosti tveir þingmenn sem munu ekki endilega lúta hennar flokksaga ef á reynir.

Meira mannval

Uppbrotið í stjórnmálunum undanfarin ár hefur veikt flokkanna félagslega og þar sem við bættist nú að lítill tími var til stefnumótunar var áherslan jafnvel meiri á menn en málefni og margt ágætisfólk sem gaf kost á sér að þessu sinni. Það var sérstakt fagnaðarefni því undanfarin ár hefur orðið mikill atgervisflótti úr stjórnmálunum og Alþingi stöðugt verr skipað. Hluti hins gamla þingheims er meira að segja lítt þekktur og þrátt fyrir að fylgjast vel með stjórnmálum gæti ég nefnt nokkra þingmenn af síðasta kjörtímabili sem ég hef hreinlega aldrei heyrt taka til máls og þekki ekki í sjón. Fólk sem situr á þingi árum saman án þess að láta til sín taka á vitaskuld ekkert erindi þangað.

Í kosningunum í gær varð ánægjuleg breyting á þessu og nokkur dæmi má nefna þar um. Í hópi nýrra þingmanna Sjálfstæðisflokks eru tveir þrautreyndir atvinnurekendur úr landsbyggðarkjördæmum, Ólafur Adolfsson og Jens Garðar Helgason. Þá hlaut Rósa Guðbjartsdóttir, farsæll bæjarstjóri Hafnarfjarðar, kjör og sömuleiðis einn skeleggasti skólamaður landsins, Jón Pétur Zimsen, sem kynnti í kosningabaráttunni skýrar tillögur til þarfra úrbóta í skólamálum. Alma Möller landlæknir er nýr þingmaður Samfylkingarinnar, það munar um minna að hafa slíkan kunnáttumann þegar kemur að stærsta útgjaldalið ríkisins. Annar læknir, Dagur B. Eggertsson, fyrrv. borgarstjóri, náði einnig kjöri fyrir sinn flokk, en hann er líklega einn reyndasti sveitarstjórnarmaður landsins. Annar fyrrverandi borgarstjóri kemur nýr inn, Jón Gnarr, kjörinn af lista Viðreisnar, en hans reynsluheimur er þó öllu fremur úr listum og sú tenging gagnleg. Þá munar líka um tvo nýja viðreisnarmenn á þingi, Pawel Bartoszek stærðfræðing og Grím Grímsson yfirlögregluþjón. Margt þarfnast úrbóta í löggæslumálum svo þekking þess síðarnefnda gæti reynst dýrmæt á þingi. Pólitíkina hefur sárlega skort tengsl við verkalýðshreyfinguna undanfarin ár en nýr þingmaður Flokks fólksins er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, langstærsta stéttarfélags landsins. Nýr framsóknarþingmaður er Halla Hrund Logadóttir, fyrrv. orkumálastjóri. Fyrir Miðflokkinn tekur sæti Ingibjörg Davíðsdóttir, fyrrv. sendiherra, Sigríður Andersen, fyrrv. ráðherra, og Snorri Másson ritstjóri, einn efnilegasti stjórnmálamaðurinn af yngri kynslóðinni sem hefur lagt mikla áherslu á verndun tungunnar og menningarinnar, málefni sem alltof lítill gaumur er gefinn en eru kannski stærstu málin þegar öllu er á botninn hvolft.

Fleiri dæmi mætti taka um fólk sem hefur áunnið sér traust víðsvegar í samfélaginu og hefur til að bera þekkingu, en á hvort tveggja hefur skort í þingliðinu. Þetta er þing sem er í betri tengslum við starfslíf í þjóðfélaginu en við höfum séð lengi. Það út af fyrir sig er mikið fagnaðarefni og ástæða til bjartsýni á framtíðina nú 1. desember þegar landsmenn fagna því að liðin eru 106 ár frá því að Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Framsýni Churchills

Björn Jón skrifar: Framsýni Churchills
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
23.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar