Aflýsing Elísabetar Bretadrottningar á árlegum viðburði vekur áhyggjur af heilsu hennar. Drottningin sem er nú orðin 96 ára gömul ver sumrum sínum í Balmoral í Skotlandi og heldur að venju opnunarhátíð með pompi og prakti í garði kastalans í Aberdeenskíri. Viðburðinum var hins vegar aflýst á sunnudag og í stað hans fór fram minni samkoma án allra fjölmiðla.
Þetta er í fyrsta sinn sem drottningin sleppir viðburðinum fyrir utan þegar faraldur kórónuveirunnar geysaði. „Hefðbundna opnunarhátíðin í Balmoral er venjulega fastur liður í dagatali drottningarinnar og viðburður sem hún kann vel að meta, þá getur hún heilsað upp á innfædda sem ferðast til að sjá hana,“ sagði heimild Daily Mirror.
„Það er mjög svekkjandi að athöfnin muni ekki eiga sér stað eins og venjulega.“
Talsmenn Buckingham-hallar sögðu að dagskrá drottningarinnar hefði verið breytt til að hún yrði þægilegri fyrir hana. Á konunglegum viðburðum hefur drottningin einnig sést nota staf sér til stuðnings.
Drottningin er iðulega í Balmoral fram í október en gert er ráð fyrir því að hún komi aftur til Lundúna í stutta stund þann 6. spetember þegar Boris Johnson forsætisráðherra segir upp embætti. Eftir það er búist við því að hún snúi aftur til Skotlands.
Fyrr á árinu komst drottningin ekki á Royal Ascot, konunglegt kappreiðamót sem konungsfjölskyldan sækir á hverju ári. Það er einn uppáhalds árlegu viðburða drottningarinnar, samkvæmt sérfræðingum. Hún hefur sótt mótið á hverju ári síðan 1952. Að þessu sinni tóku Karl prins, Kamilla og Pétur Phillips hennar stað.
Hennar var einnig saknað á Epsom Derby, öðrum kappreiðum, og í þjónustu í Dómkirkju heilags Páls þegar hún fagnaði sjötíu árum sínum sem Bretadrottning. Heilsuvandamál drottningarinnar virðast hafa byrjað í fyrra, þegar hún neyddist til að missa af vopnahlésdagsþjónustu vegna tognaðs baks