fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fókus

Best klæddu herramenn Kongó: La Sape er hátískuhreyfing sem fæddist í fátækrahverfum eins fátækasta lands heims

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 22. apríl 2018 17:30

SLUG: FO/SAPEUR DATE: Downloaded E-mail 2/26/2010 CREDIT: Miguel Juarez (Accent mark over the A) / FTWP LOCATION: , Congo. CAPTION: Sapeurs, Firenze Luzolo, 26, Guy Matondo, who also refers to himself as "The Chinese from China," and Ukonda Pangi, 22, strike a pose at Parc de Prince in Kinshasa. Sapeurs from D.R. Congo, Congo Brazzaville and Europe gathered in Congo's capital, hoping to revive Kinshasa's sapeur tradition by pushing for an International Day to recognize sapeurs, who embrace the art of dressing well, and expensively. (PHOTO: MIGUEL JUAREZ).

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í fátækrahverfum eins allra fátækasta og stríðshrjáðasta svæðis veraldar eru best klæddu herramenn sem um getur. La Sape er tísku- og lífsstílshreyfing sem hefur fyrir löngu fest sig í sessi í tveimur stórborgum við Kongófljót, Kinshasa og Brazzaville.

Þeir sem skilgreina sig sem hluta hreyfingarinnar, svokallaðir Sapeurs, klæðast litríkum klæðskerasniðnum jakkafötum frá dýrustu hönnunarmerkjum Evrópu, ganga í vel pússuðum leðurskóm, ganga við staf og skarta glansandi skartgripum.

Stíll og klæðaburður þessara afrísku dandí-a á að vera tákn um ríkidæmi, smekk og lífskraft – yfirgengileg útlitsdýrkun sem þeir segja að haldi lífi í voninni í hinum vonlausu lífsaðstæðum.

Vestræn klæði og siðmenning

Frá því að vestrænn klæðnaður barst fyrst upp Kongófljótið undir lok 19. aldar hafa slík föt verið þrungin ýmiss konar merkingu. Vestræn föt sáust ekki í frumskógum Mið-Afríku fyrr en þegar Evrópumenn eignuðu sér svæðið, beittu blekkingum og grimmúðlegu ofbeldi til að gera svæðið að nýlendum.

Fyrir utan það að blóðmjólka svæðið af auðlindum í eigin þágu sáu nýlenduherrarnir það sem hlutverk sitt að hjálpa heimamönnum – sem þeir álitu frumstæða og ósiðmenntaða villimenn – að þroskast í átt að siðmenningu. Kristin trú, vísindaleg menntun, siðferðisviðmið og klæðnaður Vesturlanda skyldu tekin upp af heimamönnum.

Þegar leið á 20. öldina höfðu æ fleiri Kongómenn fengið vestræna menntun frá trúboðum og verið innrættir vestrænir lifnaðarhættir. Sumir þeirra tóku að starfa fyrir belgíska og franska nýlenduherra og tóku upp stíl þeirra og takta. Þegar leið á öldina fengu svo einhverjir að fara til Frakklands og Belgíu til að mennta sig eða vinna og komu þá til baka lítandi út eins og klipptir út úr nýjustu tískublöðum Evrópu og vöktu því eðlilega mikla aðdáun og eftirtekt.

Æ fleiri Kongómenn klæddust einkennisklæðnaði vestrænna karlmanna: jakkafötum, skyrtum og bindi. Það voru ekki síst þeir sem störfuðu fyrir nýlenduherrana sem tileinkuðu sér vestræn gildi og lífshætti. Þetta var hópur sem nýlenduherrarnir kölluðu af rasísku yfirlæti, „hina þróuðu“ eða „siðmenntuðu“ (fr. Evolué).

Þó að þessi menntaða elíta hafi framan að verið í forsvari fyrir sjálfstæðishreyfingar í Belgísku- jafnt sem Frönsku-Kongó fylgdi baráttunni og sjálfstæði ríkjanna tveggja árið 1960 einnig endurmat á áhrifum nýlenduveldanna og krafa um afturhvarf til raunverulegrar afrískrar menningar.

Niður með jakkafötin!

Fyrstu árin eftir sjálfstæði Austur-Kongó (áður Belgísku-Kóngó) ríkti mikill glundroði og borgarastyrjöld sem endaði með því að hershöfðinginn Mobutu Seso Seko tók öll völd árið 1965 og ríkti sem einræðisherra fram á tíunda áratuginn.

Hann lagði áherslu á að Kongómenn hættu að reyna að líkjast nýlenduherrunum frá Evrópu í lífsháttum, nafngiftum, og klæðaburði. Þeir skyldu hætta að reyna að verða evrópskir og frekar vera trúir eigin uppruna, þróa sín eigin þjóðareinkenni frá menningu forfeðra sinna. Þessa menningarstefnu sína kallað Motubu „authenticité“ og í þeirri krossferð breytti hann nafni landsins og flestra borga, bannaði kristin eiginnöfn og hin hefðbundnu vestrænu jakkaföt.

Sumar tilrauna Mobutu til að snúa aftur til upprunalegrar kongóskrar menningar voru reyndar frekar misheppnaðar og nánast hjákátlegar. Að hluta til vegna þess að svæðið hafði aldrei verið einsleit menningarheild. Áður en Evrópumenn neyddu íbúa Kongó til að skilgreina sig sem eina þjóð var svæðið heimili ótal ættbálkasamfélaga með mismunandi tungumál, hefðir og menningu.

Mobutu endurnefndi landið til dæmis Zaïre, sem honum fannst virka afrískara en Kongó. Þetta reyndist hins vegar vera portúgölsk misþýðing af afrísku orði sem táknaði á. Hann festi það einnig í lög að menn skyldu klæðast svokölluðum abacost-fötum. Fötin voru þó á engan hátt kongósk, heldur eins konar afrísk útgáfa af Maó-jökkunum sem kínverjar klæddust um svipað leyti – og þó að nafn fatnaðarins gæti hljómað afrískt var það í raun bara stytting á frönsku upphrópuninni „niður með jakkafötin“ – à bas le costume!

Það var í þessu andrúmslofti sem jakkafataklæðnaður varð að nokkurs konar menningarlegri andspyrnu gegn einræðisherranum, sem lifði konunglegu sældarlífi á meðan ríkið molnaði að innan, efnahagurinn hrundi og íbúar landsins sultu heilu og hálfu hungri.

Hátíska sem andspyrna

Á tíma Mobutu var hart tekið á allri opinberri gagnrýni og andstöðu við stjórn hans. Íbúar í hinni ört vaxandi höfuðborg, Kinshasa, beittu því kaldhæðni og tvíræðni til að mótmæla spillingunni og hörmulegu efnahagsástandi. Þeir tjáðu andstöðu sína meðal annars með súrrealískum teiknimyndasögum en ekki síður með klæðnaði. Þar sem afró-maóísku andjakkafötin abacost voru lögfestur búningur þjóðarinnar var það hápólitískur gjörningur að klæðast vestrænum jakkafötum, með skyrtu og bindi eða öðru hálstaui.

Undir lok áttunda áratugarins fóru æ fleiri ungir menn í verkamannahverfum höfuðborgarinnar að ganga í gríðarlega æpandi, litríkum og skræpóttum klæðskerasniðnum jakkafötum. Í gegnum ættingja eða vini í Evrópu urðu þeir sér úti um dýrustu merkjavörurnar frá fínustu verslunargötum Evrópu – eða þessu héldu þeir að minnsta kosti fram og reyndu að sanna með því að hafa merki og verðmiða sem sýnilegasta á fötunum.

Hreyfingin fékk nafnið La Sape sem í stórborgarslangri Kinshasa þýðir „klæðnaður“, en því var einnig haldið fram að orðið væri skammstöfun á heiti hins andlega samfélags sem þessir eitursvölu einstaklingar tilheyrðu: „Félag tískumótandi og smekklegra einstaklinga“ eða Société des Ambianceurs et des Personnes Élégantes.

Tónlistarmaðurinn Papa Wemba varð fljótt að andliti og hugmyndafræðingi hreyfingarinnar, en hann var ein stærsta stjarnan í kóngóskri tónlist á þessum tíma. Áður en hann hóf sólóferill sinn hafði hann sungið með hljómsveitunum Zaika Langa Langa og Viva La Musica sem léku hraða, dansvæna útgáfu af hinni hefðbundnu kongósku rúmbu. Þrátt fyrir að vera titlaður páfi þessarar óhefðbundnu andspyrnuhreyfingar – Le pape de la Sape – sagðist Wemba alls ekki andsnúin hreinmenningarstefnu Motubu. Til að verja hin vestrænu áhrif í klæðaburði svaraði hann á svo eftirminnilegan hátt, sem hefur orðið að hálfgerðu mottói Sapeur-anna: „Hvíta fólkið fann kannski upp þennan klæðnað, en við gerðum hann að listgrein.“

Belgíski blaðamaðurinn David van Reybrouck lýsir hreyfingunni í epískri bók sinni, Kongó – saga þjóðar: „Það gæti virkað fáránlegt í fyrstu að sjá mann í Kinshasa í miðri kreppu með æpandi sólgleraugu, í Jean-Paul Gaultier-skyrtu og loðjakka, en efnishyggja Sapeur-anna var ein gerð félagslegrar gagnrýni, svipað og pönkið var í Evrópu. Hún tjáði djúpa óánægju með ömurðina og kúgunina sem fólk upplifði, og gaf því færi á að láta sig dreyma um áhyggjulaust Zaïre. Efnishyggja er eitt algengasta og útbreiddasta einkenni fátæktar. La Sape snerist um velgengni, um sýnileika, um að vera inni í myndinni og gera það gott,“ útskýrir Reybrook og bætir síðar við: „yfirgengileg eyðslusemin var tákn um einhvers konar von.“

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=Y-RGyPi_JOk]
Papa Wemba spilar með hljómsveit sinni Viva La Musica

Meira en bara klæðnaður

Eins og yfirleitt gerist með slíkar ungmennahreyfingar hefur La Sape að mestu leyti glatað pólitískum slagkrafti sínum í gegnum tíðina – Mobutu er löngu farinn frá völdum – og höfðar ekki lengur til ungs fólks í sama mæli og áður. Hún er hins vegar langt frá því að vera dauð úr öllum æðum. Í tvíburaborgunum Brazzaville (höfuðborg Vestur-Kongó, sem áður hét Franska-Kongó) og Kinshasa (höfuðborg Austur-Kongó – áður Belgíska-Kongó) sem liggja í nokkurra mínútna siglingarfjarlægð hvor sínum megin við Kongófljótið hefur hálfgerð Sapeur-jaðarmenning þróast. Stíllinn hefur staðlast í litríkum, spjátrungslegum retró-stíl sem vinnur út frá evrópskri hátísku samtímans. Það eru ekki bara jakkafötin sem skipta máli heldur einnig fínpússaðir skórnir – helst úr slöngu eða krókódílaskinni – og rándýrir og áberandi aukahlutir, sólgleraugu, hattar, pípur, úr og skart.

Margir þeirra sem tileinka sér enn La Sape koma úr neðstu stigum kongósk samfélags, ef þeir eru ekki atvinnulausir eru þeir iðnaðarmenn, leigubílstjórar eða smásölumenn sem búa í fábreytilegu húsnæði, oft án rennandi vatns og rafmagns. Í stað þess að fjárfesta í bíl eða stærra heimili eyða þeir öllu sínu fé í klæðnað, safna í mörg ár fyrir nýjum flíkum – oft við dræmar undirtektir eiginkvenna og barna. Af illri nauðsyn er það þó oft notaður klæðnaður sem gengur kaupum og sölum eða er lánaður milli spjátrunganna.

„Sköpunargleðin er sérstaklega mikilvæg,“ útskýrði spænski ljósmyndarinn Hector Mediavilla í viðtali við NPR árið 2013, en hann byrjaði að mynda þennan jaðarkima í Brazzaville í upphafi aldarinnar. „Þetta snýst ekki bara um að eyða miklum peningum í fötin heldur einnig hvað þau segja, hvernig þau hreyfast. Þetta er leið til að vekja athygli á sjálfum sér og vera einhver í samfélagi sem veitir fólki fá tækifæri. Þetta snýst um að vera sjálfsöruggur þrátt fyrir aðstæðurnar.“

Á sunnudögum eftir messu hittast hópar slíkra manna – skýrt skilgreind gengi með sín eigin nöfn og hefðir – og sýna sig og sjá aðra, dansa og metast góðlátlega um hver þeirra sé smekklegastur, hver eigi dýrustu skóna og svo framvegis. La Sape snýst ekki bara um klæðnað heldur einnig um háttalag og hegðun – þetta eru afslappaðir og eitursvalir herramenn sem reyna að tala fágaðri frönsku en gengur og gerist í kringum þá. Þeir velja sér ný herramannanöfn sem vísa oft í þekkt vörumerki eða menningu evrópsku heimsveldanna á 19. öld. Margir eru orðnir þekktar fígúrur í hverfum sínum eða borg og þegar þeir eru uppstrílaðir hrópa gangandi vegfarendur á eftir þeim hvar sem þeir fara.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=Hy9W_mrY_Vk]

 

Sape verður heimsfrægt

Þó að hreyfingin megi muna fífil sinn fegri, sé orðin nokkuð skýrt skilgreind jaðarmenning í Kongó frekar en almennt hreyfiafl, hafa vestrænir tískuspekúlantar veitt La Sape síaukna athygli á undanförnum árum. Þessi menningarkimi sýnir enda óvænta og óhefðbundna, skapandi og skemmtilega hlið á þessu stríðshrjáða svæði, sem ratar yfirleitt í fréttir vegna ófriðar og fátæktar. Með þessu hefur tískan borist víða um heim, hefur haft áhrif á tískuvitund í Afríku og meðal afrískra samfélaga í Evrópu. Lífleg Sapeur-samfélög eru þannig starfrækt í gömlu kongósku nýlenduhöfuðborgunum París og Brussel.

Um þessar mundir fjalla tískutímarit og dagblöð nokkuð reglulega um fyrirbærið, og hönnuðir jafnt sem tónlistarmenn á Vesturlöndum sækja í það innblástur, til að mynda franski rapparinn Maître Gim. Þá vakti það sérstaka athygli þegar bandaríska tónlistarkonan Solange Knowles notaðist við La Sape  í tónlistarmyndbandi við lag sitt Losing You árið 2012. Þá má nefna hvernig bjórframleiðandinn Guinness notaði fyrirbærið í auglýsingu sem sýnd var á Super Bowl 2014 – boðskapurinn var að maður gæti ekki alltaf ákveðið hvað hann gerði í lífinu en gæti alltaf ráðið því hver hann væri.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=H1fbUbDoGnA]

 

Áhuginn frá Vesturlöndum er reyndar orðinn svo mikill að blaðamaður Wall Street Journal sem heimsótti Brazzaville og Kinshasa til að fjalla um fyrirbærið árið 2011 sagðist hann hafa haft grun um að verið væri að plata af honum pening með því setja upp hálfgerða sýningu á því sem talið var að vestræni blaðamaðurinn vildi sjá. Hann var ekki viss um að það sem hann sæi væri alvara.

Það er hins vegar ljóst að áhuginn á La Sape hefur haft í för með sér aukinn áhuga á afrískri tísku. Í Kongó hefur verið reynt að nýta þessa öldu meðal annars með því að stofna til árlegrar tískuviku í Kongó. En frá 2011 hafa hönnuður frá landinu sýnt nýjustu hönnun sína í Kinshasa og Brazzaville.


Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón – Börn Matthew McConaughey orðin svo stór

Sjaldséð sjón – Börn Matthew McConaughey orðin svo stór
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir
Fókus
Fyrir 4 dögum

Er kallinn sjaldan í kynlífsstuði? Þetta gætu verið ástæðurnar fyrir því

Er kallinn sjaldan í kynlífsstuði? Þetta gætu verið ástæðurnar fyrir því