Fókus

Lífið fer með mann á ótrúlegar slóðir

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 3. nóvember 2017 19:00

Birgitta Haukdal var lengi ein vinsælasta söngkona landsins. Hún sneri sér síðan að því að skrifa barnabækur, en er þó ekki hætt að syngja. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti Birgittu og ræddi við hana um barnabækurnar, söngferilinn og einkalífið.

Lára fer í sund og Jól með Láru eru nýjar barnabækur eftir Birgittu Haukdal. Þetta eru bækur númer fimm og sex í hinum vinsæla bókaflokki hennar um Láru.

„Aldrei hefði ég trúað því að ég ætti eftir að gerast rithöfundur og skrifa barnabækur, en lífið fer með mann á ótrúlegar slóðir,“ segir Birgitta. Spurð af hverju hún hafi á sínum tíma ákveðið að snúa sér að barnabókaskrifum segir hún: „Í þrjú ár bjó ég í Barcelona og það skipti mig máli að halda íslenskunni vel að ungum syni mínum, honum Víkingi Brynjari, og las ég mikið fyrir hann barnabækur. Vegna vinnu var ég mikið á milli Barcelona og Íslands og í hverri heimsókn fór ég í bókabúðir hér á landi og leitaði að góðum bókum sem hentuðu honum. Það var erfitt að finna bækur sem mig langaði til að lesa fyrir hann og héldu athygli hans. Annaðhvort voru bækurnar ekki nógu fallega myndskreyttar til að grípa athygli hans eða ef þær voru fallega myndskreyttar þá vöktu sögurnar ekki athygli hans. Æ oftar fór hann að biðja mig um að segja sér sögur í staðinn fyrir að lesa fyrir sig. Sögurnar sem ég sagði honum voru yfirleitt um daglegt líf okkar. Ef við vorum til dæmis að fara í skíðaferð bjó ég til sögu um fjölskyldu sem var að fara í skíðaferð.

Ég vissi hvernig bók myndi vekja áhuga hans og ákvað því að prófa að setjast niður og skrifa sögu. Það reyndist vera ótrúlega gaman, ég fékk mikið af hugmyndum og sá myndirnar fyrir mér. Ég fór að leita að teiknara. Á þessum tíma var nokkuð svipuð sýn hjá íslenskum og erlendum teiknurum, sem fór ekki saman við mínar hugmyndir. Ég fann stúlku frá Rússlandi og við byrjuðum að vinna saman en það samstarf gekk ekki upp. Að lokum fann ég stúlku sem býr í Armeníu og við smullum saman. Hún er alveg yndisleg og hefur sýnt mikla þolinmæði þegar ég bið hana um að teikna smáatriði sem mér finnst verða að vera á myndunum.“

Eftir að Birgitta og fjölskylda fluttu aftur til Íslands fór hún með handrit að Lárubók, ásamt myndum, til Forlagsins sem samþykkti útgáfu samstundis. „Ég bjóst engan veginn við að þetta myndi ganga. Á þessum tíma var ég að eignast annað barn og gat ekki fylgt bókunum mikið eftir, en þær rötuðu samt í jólapakka og foreldrar töluðu um þær sín á milli. Það gaf mér byr í seglin,“ segir Birgitta.

Er einhvers konar boðskap að finna í Lárubókunum?

„Mér finnst skipta máli að persónurnar í bókunum séu góðar fyrirmyndir. Krakkar eiga að geta samsamað sig við Láru, vini hennar og fjölskyldu. Lára á að vera þeim góð fyrirmynd en enginn er fullkominn og hún getur verið óþekk og gerir mistök. Bækurnar lýsa venjulegu lífi, þetta eru sögur úr raunveruleikanum, eitthvað sem þeim fullorðnu finnst hversdagslegt en börnum finnst vera stórkostlegt ævintýri.“

„Það sem maður gefur af sér fær maður þrefalt til baka frá áheyrendum.“
Um sönginn „Það sem maður gefur af sér fær maður þrefalt til baka frá áheyrendum.“

Mynd: Brynja

Glímdi við mikla sorg

Víkjum að sjálfri þér. Hvernig barn varst þú?

„Mamma segir að ég hafi verið mjög fjörugt barn með gott skap, viljasterk og fyrirferðarmikil. Þegar ég varð níu ára róaðist ég og varð feimnari.“

Unglingsárin reynast mörgum erfið. Hvernig voru þau ár í þínu lífi?

„Ég var mjög stilltur unglingur, ég drakk lítið sem ekkert og var ekki í rugli. Unglingsárin voru mér þó erfið á annan hátt vegna þess að fjórtán ára missti ég bróður minn. Hann var átján ára þegar hann fyrirfór sér. Honum gekk vel í skóla, glímdi ekki við andleg veikindi en var á viðkvæmum aldri.

Þegar maður er unglingur veit maður ekki alveg hver maður er og hvernig maður á að vera. Það var óskaplega erfitt fyrir mig að upplifa þetta áfall og þurfa að glíma við svo mikla sorg. Árin eftir dauða bróður míns reyndust mér erfið. Ég reyndi að vera sterk fyrir fjölskyldu mín og tók sorgina ekki út strax. Sorgin braust út í líkamlegum veikindum. Ég var ekki þunglynd en líkaminn var við það að gefa sig. Ég lenti í miklum meltingar- og ristilvandamálum, fékk svakalega krampa sem urðu til þess að líkaminn slökkti á sér og þá leið yfir mig. Það tók tíma að finna út hvað var í gangi en eftir að hafa fengið rétt lyf jafnaði ég mig sem betur fer. Í dag sé ég alltaf ennþá betur að þessi veikindi mín stöfuðu af áfallinu.“

Þú ólst upp á Húsavík, hvernig var lífið þar?

„Mér finnst ég ótrúlega heppin að hafa alist upp í litlu samfélagi úti á landi þar sem ríkir mikið frelsi, maður er í nálægð við náttúruna og traust og vinátta ríkir milli allra í bæjarfélaginu. Maður veit að sama hvað gerist þá er samfélagið eins og ein stór fjölskylda. Það er samt þannig að þegar eitthvað bjátar á og maður tekst á við áföll þá getur verið erfitt að búa í litlu bæjarfélagi. Það getur reynt á að allir viti af lífi þínu og sorg þinni.

Ég á afskaplega góðar minningar frá Húsavík og fer þangað allavega tvisvar á ári. Húsavík er alltaf bærinn minn.“

Eins og rússíbanareið

Birgitta var ung að árum þegar söngferill hennar hófst. Hún var sextán ára þegar hún söng í Abba-sýningu á Broadway við miklar vinsældir. „Þetta var óskaplega skemmtileg vinna og ég fann ekki fyrir álagi. Það voru forréttindi að flytja til Reykjavíkur og syngja skemmtileg lög fjórum sinnum á viku á flottu sviði,“ segir hún.

Um tvítugt varð hún síðan hluti af hinni vinsælu hljómsveit Írafár. „Strákana vantaði söngkonu í hljómsveit og ég sló til. Við vorum með góðan lagahöfund og um leið og við byrjuðum að gefa út efni fór allt af stað. Fólk spyr af hverju Írafár varð svo vinsæl hljómsveit. Ég held að það hafi verið vegna þess að við vorum að einbeita okkur að því að gera góða tónlist. Við vorum ekki að keppast við að verða fræg eða djamma.“

Varst þú mikið vör við djammið?

„Þótt við værum að spila á böllum þar sem stundum var sukk og svínarí þá leyfði ég mér aldrei að fara þangað vegna þess að ég þurfti að syngja kvöldið eftir. Ég söng og fór svo yfirleitt beint heim að sofa. Vín eða vímuefni voru lítið í kringum mig og vini mína, ég er ekki karakter sem líður vel að missa stjórnina. Mér finnst best að vinna samkvæmt góðu plani og hef alltaf gætt þess að gera hlutina vel.“

Hvernig er þessi tími í minningunni?

„Það er súrrealískt að horfa til baka, þetta var svo ótrúlega skrýtið. Þessi tími var rússíbanareið, það var svo brjálæðislega mikið að gera. Við gáfum út þrjár metsöluplötur og ákváðum svo að taka okkur hlé. Írafár var komin á toppinn og við þurftum að taka ákvörðun um hvort við vildum halda áfram eða hvort við vildum passa upp á tónlistina okkar og hljómsveitina. Við ákváðum að hætta á toppnum. Við vorum orðin andlega búin. Við hefðum getað haldið áfram en við vildum ekki gera það með hálfum huga.“

Saknarðu þessa tíma?

„Þetta var gríðarlega skemmtilegt tímabil en líka óskaplega erfitt því við vorum alltaf að, sungum, vorum í viðtölum og myndatökum og gerðum vídeó eða vorum í stúdíói. Meðan á þessu stóð gaf ég mér ekki nægan tíma til að njóta hlutanna því ég var alltaf svo upptekin í vinnunni. Ég lauk við eitt atriði til að fara út í það næsta. Eftir á hugsa ég oft um það hversu gaman þetta raunverulega var þótt álagið væri mikið.

Eftir tímann með Írafári fór ég að vinna við mína eigin tónlist, ég gerði tvær plötur og lagði alla mína sál í þær. Eftir það ákvað ég að hvíla mig á tónlistinni og einbeita mér að frekari barneignum og fjölskyldunni minni.“

Ætlaði fyrst og fremst að verða mamma

Hefðir þú ekki getað hugsað þér að lifa barnlausu lífi?

„Nei, alls ekki. Þegar ég var lítil ætlaði ég annaðhvort að verða prinsessa eða söngkona en fyrst og fremst ætlaði ég að verða mamma. Ég hef gaman af börnum og hef yndi af að spjalla við þau og leika. Sjálf er ég dálítið barn í mér.“

Eiginmaður Birgittu er Benedikt Einarsson lögmaður. „Við kynntumst árið 2003 þegar ég söng í Grease í Borgarleikhúsinu. Hann var að læra lögfræði og lék í sýningunni um helgar og dansaði. Um leið og við hittumst smullum við saman. Ég er afskaplega heppin að eiga svona góðan, indælan og kláran mann. Hann gerir mig betri á hverjum degi.“

Benedikt er af Engeyjarættinni. Stundum er þeirri ætt ekki vandaðar kveðjurnar og Birgitta er spurð hvort hún taki það inn á sig. „Ég verð aldrei vör við illt umtal nema hjá nettröllunum og í illa skrifuðum greinum í fjölmiðlum. Þetta er nokkuð sem snertir hvorki mig né manninn minn. Þegar maður veit hver maður er og hvernig fólkið manns er þá getur maður ekki verið að velta sér upp úr því þótt aðrir reyni að pota í mann með ljótum skrifum.“

Kom aldrei til greina að gefast upp

Birgitta og Benedikt eiga tvö börn, dreng og stúlku. Um tíma leit út fyrir að Birgitta gæti ekki orðið barnshafandi. „Mér fannst svo skrýtið að manneskja sem var svona mikil barnagæla og hafði gefið út barnaplötu og söng fyrir börn skyldi ekki geta orðið mamma. Þetta tók á og var erfitt og sárt,“ segir hún. „Ég trúi því að ég sé hingað komin til að eignast börn. Það er tilgangurinn með lífinu en þýðir samt ekki að maður eigi að lifa í gegnum börnin sín. Þannig að það var mér stórt áfall þegar ég áttaði mig á að hugsanlega fengi ég ekki að upplifa þetta stórkostlega kraftaverk.“

Hún fór í nokkrar tæknisæðingar og fæddi loks dreng. „Í mörg ár var ég að reyna að eignast strákinn okkar, það tók þrjú til fjögur ár og ég fór í margar tæknisæðingar,“ segir hún. „Þegar ég var svo að reyna að eignast dóttur okkar þá tók það sex ár með alls konar tæknisæðingum og glasafrjóvgununum, bæði hér heima og úti. Ein glasafrjóvgunin tókst og því fylgdi mikil hamingja en ég missti fóstrið. Þá hrundi heimurinn en það sem varð mér til bjargar var að ég átti drenginn minn. Ég hugsaði: Ég á hann. Ef ég eignast ekki annað barn þá má ég ekki vera frek, ég hef það gott. En ég hugsaði líka: Ég var einu sinni ólétt og hlýt að geta orðið það aftur. Það kom aldrei til greina að gefast upp.
Svo tókst það og nú er Saga Júlía orðin tveggja ára og Víkingur Brynjar átta ára. Á hverjum einasta degi þakka ég fyrir börnin mín og reyni að vera eins góð móðir og ég get.“

Hvað þurfa börn?

„Ást, umhyggja og hlýja skipta mestu máli, en þau þurfa líka ramma og aga. Það þarf að spjalla við þau og gefa þeim tíma. Þau verða líka að fá að vera þau sjálf, þau skilja miklu meira en við höldum.“

Á hverjum einasta degi þakka ég fyrir börnin mín og reyni að vera eins góð móðir og ég get.
Um móðurhlutverkið Á hverjum einasta degi þakka ég fyrir börnin mín og reyni að vera eins góð móðir og ég get.

Mynd: Brynja

Unun af að skapa

Birgitta hefur ekki sungið mikið opinberlega síðustu ár en kom þó fram á Þjóðhátíð í Eyjum fyrr á þessu ári og sló í gegn. „Í dag hef ég ekki fulla atvinnu af tónlistinni en að syngja er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og ég myndi aldrei vilja hætta því alveg. Fyrir nokkrum árum hætti ég að syngja um verslunarmannahelgar því þá fór ég alltaf að veiða með manninum mínum. Ég afþakkaði öll boð um að koma fram á þeim tíma. En þetta árið vorum við með veiðileyfi sem gekk ekki upp þannig að ég sagði bara já. Ég söng meðal annars á Þjóðhátíð og það gerði lukku. Ég söng líka á stórglæsilegum tónleikum á fiskidögum á Dalvík, sem var mikill heiður.

Þetta eru stórar uppákomur og það er yndislegt að fá að syngja lögin sín og heyra alla syngja með. Um leið skapast svo mikill kraftur og það sem maður gefur af sér fær maður þrefalt til baka frá áheyrendum. Þetta er einstök tilfinning, alveg dásamleg. Ég ætla mér ekki að gera mikið meira af því að syngja opinberlega en ég verð samt alltaf að gera eitthvað af því.

Ef einhver spyrði mig hvað ég væri að gera núna væri svarið: Alls konar. Það er ekki bara eitthvað eitt í gangi. Ég hef unun af að skapa. Ég á erfitt með að fara í eina átt og halda mig bara þar. Það er svo margt sem ég hef unun af að gera. Ég kenni söng, bæði í einkatíma og hópum í masterclass. Ég er að skrifa bækurnar mínar og svo syng ég. Afganginn af tímanum reyni ég að standa mig sem góð móðir.“

Þú virkar sem afar hreinskilin og einlæg manneskja.

„Ég held að ég hafi ekki breyst svo mikið frá því ég var barn eða unglingur en auðvitað litast maður af reynslu. Lífið kennir manni margt og allt nám verður manni til góðs.

Þegar við í Írafári vorum að byrja að koma fram mætti ég með smá brynju, en ég var aldrei sátt við það. Ég var alltaf óánægð þegar ég reyndi að vera eitthvað annað en ég er. Núna hugsa ég: Svona er ég og það er allt í lagi þótt þér líki það ekki ef mér líður vel með það. Mér hefur alltaf liðið best með að vera hrein og bein.“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Lauga (30) og Árni (28) á Torfastöðum: „Bændur eru bændum verstir“

Lauga (30) og Árni (28) á Torfastöðum: „Bændur eru bændum verstir“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslenska karlalandsliðið – MYNDIR: Hrikalega flottir í sérsaumuðum jakkafötum en mættu vinna betur með bindishnútana

Íslenska karlalandsliðið – MYNDIR: Hrikalega flottir í sérsaumuðum jakkafötum en mættu vinna betur með bindishnútana
Fókus
Fyrir 4 dögum

TÆKNI: Svona horfir þú á íslenska landsliðið á RÚV erlendis

TÆKNI: Svona horfir þú á íslenska landsliðið á RÚV erlendis
Fókus
Fyrir 4 dögum

Meghan Markle (36) og Elísabet drottning (92): Óaðfinnalega lekkerar vinkonur í opinberri heimsókn

Meghan Markle (36) og Elísabet drottning (92): Óaðfinnalega lekkerar vinkonur í opinberri heimsókn
Fókus
Fyrir 6 dögum

TÍMAVÉLIN – Skáldkonan Ólöf frá Hlöðum (1857-1933) ólst upp við fátækt: „Oft grét ég þegjandi af leiðindum“

TÍMAVÉLIN – Skáldkonan Ólöf frá Hlöðum (1857-1933) ólst upp við fátækt: „Oft grét ég þegjandi af leiðindum“
Fókus
Fyrir einni viku

Vignir Ljósálfur: „Þegar maður er svona mikið veikur þá verður manni alveg sama um tilveruna“

Vignir Ljósálfur: „Þegar maður er svona mikið veikur þá verður manni alveg sama um tilveruna“