Crawford var úrskurðaður látinn klukkan 18:15 að staðartíma, skömmu eftir að aftakan hófst. Þetta var önnur aftakan í Mississippi á aðeins nokkrum mánuðum, en aftökum hefur fjölgað mikið í Bandaríkjunum á árinu.
Morðið sem Crawford var dæmdur fyrir átti sér stað í Tippah-sýslu í norðurhluta Mississippi þann 29. janúar 1993, þegar hann rændi hinni 20 ára gömlu Kristy Ray af heimili foreldra hennar.
Samkvæmt gögnum málsins fann móðir Kristy handskrifað bréf á eldhúsborðinu þegar hún kom heim þar sem lausnargjalds var krafist. Engin merki voru um átök í húsinu.
Í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að lögregla hafi strax hafist handa við rannsókn málsins og breyttist rannsóknin fljótt í morðrannsókn. Lík Kristy fannst daginn eftir í skóglendi skammt frá heimili hennar.
Charles, sem þá var 27 ára, var handtekinn sama dag. Hann hélt því fram að hann hefði verið í veiðiferð og sagðist ekkert muna eftir atvikinu. Á þessum tíma beið hann réttarhalda í öðru máli frá 1991 þar sem hann var ákærður fyrir að hafa nauðgað 17 ára stúlku.
Samkvæmt gögnum málsins þekkti Charles ekki Kristy persónulega áður en glæpurinn var framinn. Lögreglurannsóknin leiddi ekki í ljós nein fyrri tengsl þeirra — hvorki fjölskylduleg, félagsleg né í gegnum skóla eða vinnu.
Benti allt til þess að Crawford hafi valið hana af handahófi, sem gerði málið enn óhugnanlegra í augum margra íbúa sýslunnar. Þá taldi lögregla að hann hafi reynt að villa um fyrir lögreglu með því að skrifa umrætt bréf þar sem lausnargjalds var krafist.
Á síðustu árum reyndu verjendur Crawfords ítrekað að fá dauðadómnum hnekkt. Rétt fyrir aftökuna vísaði Hæstiréttur Bandaríkjanna frá síðustu kæru hans.
Aftaka Crawfords var sú þriðja í Bandaríkjunum á tveimur dögum, eftir aftökur í Flórída og Missouri á þriðjudag. Samtals hafa 38 fangar verið teknir af lífi í ár, og sex aftökur til viðbótar eru fyrirhugaðar fram til loka þessa árs.