Farþegaþotu sem var á flugi nálægt Íslandi var snúið við í snatri í dag þegar upp komst um bilun. Var henni lent í Dublin og voru slökkvilið og aðrir viðbragðsaðilar til taks.
Flugvélin er í eigu bandaríska flugfélagsins United Airlines. Tók hún af stað frá Edinborgarflugvelli á tólfta tímanum að staðartíma í dag eftir seinkað flugtak. Vélinni átti að fljúga beint til bandarísku borgarinnar Chicago.
Eins og segir í frétt breska blaðsins Daily Record tók flugvélin U-beygju þegar upp komst um bilunina, nálægt Íslandi. Í stað þess að lenda á Keflavíkurflugvelli var ákveðið að lenda í Dublin í Írlandi, þrátt fyrir að vegalengdin þangað væri mun lengri.
Tveir slökkviliðsbílar voru kallaðir út á flugvöllinn sem og aðrir viðbragðsaðilar ef eitthvað skyldi koma upp á í lendingu. Sem betur fer reyndi ekki á viðbragðsaðilana.
Bilunin tengdist ljósabúnaði vélarinnar og stjórnkerfi flugmannanna. Fluginu var aflýst og önnur flug fundin fyrir farþegana.