fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Kristín Péturs braut lög og fær skammir í hattinn – Klöguð fyrir að gleyma að setja #samstarf

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 15. júní 2021 12:54

mynd/samsett DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Pétursdóttir braut lög þegar hún birti auglýsingar á samfélagsmiðlinum Instagram án þess að merkja myndirnar með viðeigandi hætti. Þetta er niðurstaða Neytendastofu sem birt var á heimasíðu stofnunarinnar.

Í úrskurðinum kemur fram að Neytendastofu hefði borist ábendingar um umfjöllun Kristínar á samfélagsmiðlum, eða á Instagramsíðu hennar, @kristinpeturs. Samkvæmt lögum ber einstaklingum og fyrirtækjum að taka fram með skýrum hætti hvort að um greidda umfjöllun sé að ræða, til dæmis með því að merkja myndirnar #samstarf, eða með öðrum skýrum hætti, að því er segir í úrskurðinum.

RUV greindi fyrst frá. Þar segir jafnframt að Kristín sé ekki sú fyrsta til þess að fá skammir í hattinn frá Neytendastofu, en hún hefur áður ávítt Sólrúnu Diego, Línu Birgittu og rapparann Emmsjé Gauta fyrir duldar auglýsingar.

Þar segir jafnframt að greiðsla þurfi ekki endilega að þýða endurgjald í formi peninga. Það geti einnig verið til dæmis afslættir, inneignir, afnot af vöru og svo framvegis. „Hafi sá sem taki umfjöllunina að sér hlotið einhverskonar ávinning fyrir umfjöllun sína, sama í hvaða formi sá ávinningur sé, þá sé um auglýsingu að ræða sem þurfi að merkja sem slíka,“ segir jafnframt í úrskurðinum.

Kristín hélt því fram við málsmeðferðina að hún hefði alltaf merkt færslur sínar #samstarf eða „Paid Partnership“ þegar væri um greitt samstarf að ræða. Sagði Kristín að hún væri fyrst og fremst leikkona sem væri að koma sjálfri sér á framfæri á samfélagsmiðlum, meðal annars með því að sýna frá sínu daglega lífi. „Stundum eigi hún það til að merkja fyrirtæki af einhverju af heimili hennar eða klæðnaði sem sé gert til þess að sleppa við að svara tugum spurninga í skilaboðum eða til þess að gefa hönnuðum hrós fyrir viðkomandi verk eða vöru, þótt borgað hafi verið fyrir það að fullu,“ segir í úrskurðinum um svör Kristínar.

Fyrirtækin sem Kristín auglýsti án þess að merkja sem slíka eru, samkvæmt úrskurðinum:

Gallerí 17/NTC. Segir Kristín að hún hafi merkt upphafsfærslu með „#ad“ og talið það nægja fyrir næstu færslur á eftir. Sagðist hún nú vita betur og muni bæta ráð sitt.

Húrra Reykjavík, þar sem hún fékk afslætti eða persónulegar gjafir.

Nola, þar sem hún hafi fengið veglega afmælisgjöf með vörum úr versluninni. Kristín bar því við að eigandi verslunarinnar væri vinkona sín og hefði gefið sér þær gjafir persónulega.

Yuzu Burger, sem bauð Kristínu að taka „take-away“ máltíð, sem hún þáði.

Blómahönnun, en Kristín segir mæðgurnar þar hafa komið henni á óvart tvisvar til þrisvar sinnum með blómvendi heim til hennar án þess að beðið hafi verið um nokkuð í staðinn. Henni hafi þótt vendirnir sérstaklega fallegir og tekið af þeim mynd sem hún birti. Síðast fékk hún vönd á konudag og talið að um gjöf hafi verið að ræða.

Reykjavík Meat, sem buðu henni „take-away“ máltíð fyrir tvo, sem hún þáði en láðist að taka fram að um gjöf hafi verið að ræða.

Petit, sem gaf henni 15% vinaafslátt. Kristín tók þó fram að hún greiddi fyrir allar vörurnar þar.

Segir í úrskurðinum að allt ofangreint hafi verið í viðskiptalegum tilgangi og endurgjald hafi komið fyrir. „Því var um auglýsingar í skilningi laga að ræða.“

Kristínu er með úrskurðinum bannað að birta auglýsingar með framangreindum hætti. „Verði ekki farið að banninu má búast við að tekin verði ákvörðun um sekt […],“ segir í ákvörðunarorði úrskurðar Neytendastofu.

Úrskurðinn má nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala