fbpx
Mánudagur 20.september 2021
Fréttir

Samfélagsmiðlar loga vegna #MeToo – „Hvað er það annað en gróft ofbeldi þegar einstaklingur safnar liði og ræðst á einn“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 14. júní 2021 10:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pistill sem Íris Dröfn Kristjánsdóttir hefur skrifað um þá bylgju ásakana um ofbeldi á hendur þekktum mönnum sem risið hefur undanfarið hefur vakið gífurlega athygli. Íris Dröfn deilir harðlega á nýju Metoo-bylgjuna sem reis í máli Sölva Tryggvasonar fjölmiðlamanns sem snemma í maí var sakaður um ofbeldi gegn fyrrverandi unnustu sinni.

Íris, sem hefur fengið vel á fjórða hundrað viðbrögð við pistli sínum, 118 ummæli undir hann og 55 deilingar, er afar andsnúin einhliða frásögnum af ofbeldi í samfélagsmiðlum og fjölmiðlum. Hún segir að vissulega eigi að segja frá ofbeldi en til þess séu stofnanir á borð við Kvennaathvarfið og Bjarkarhlíð fyrir frásagnir þolenda. Þá er Íris misboðið yfir því hvað margar konur hafa stigið fram á samfélagsmiðlum undanfarið með, að hennar mati, ómerkilegar ásakanir, um atvik sem fráleitt sé að vega að mannorði fólks fyrir.

Íris skrifar:

„Ég get ekki legið á skoðunum mínum yfir því sem er að gerast í samfélaginu okkar. Það eru flestir með myndavélar á sér ásamt beinu aðgengi að umheiminum (samfélagsmiðlar). Þetta tvennt saman vegur hættulega að friðhelgi einkalífsins. Í hverri viku má sjá tilraunir til mannorðsmorða og á litlu landi eins og hér geta þessar tilraunir verið ansi árangursríkar. Í þessari nýju #metoo herferð hef ég rekið augun í frásagnir (oftast kvenna) af málum sem eru svo ómerkileg að þær hefðu vel getað afgreitt þau á staðnum þ.e. þegar atvikið átti sér stað með því að setja mörk. Auðvitað á að segja frá. Við erum t.a.m. með Kvennaathvarfið og Bjarkarhlíð sem taka á móti konum sem verða fyrir ofbeldi. Ég hef enga trú á að hægt sé að fá sálarfrið vegna ofbeldis með því að henda einhliða frásögn á samfélagsmiðla og jafnvel nafngreina svokallaðan geranda. Erum við mögulega að gengisfella alvarlegri ofbeldismál með því að setja misskilning, ósætti og ólík mörk undir sama hatt og ofbeldi?

Sjálfskipaður “áhrifavaldur” (skaðvaldur) jarmar eitthvað út í loftið og fjögur hundruð og eitthvað (jafnvel þúsundir) hlaupa jarmandi á eftir með mis gáfulegar reynslusögur. Er eitthvað réttlæti í að eyðileggja mannorð fólks með einhliða frásögnum ? Eiga þessi mál ekki heima annars staðar en á samfélags- og fréttamiðlum?

Hvað er það annað en gróft ofbeldi þegar einstaklingur safnar liði og ræðst á einn hvort heldur er með gjörðum eða orðum?

Þessi þróun er ekki góð og það versta er að börnin okkar læra það sem fyrir þeim er haft.“

Pistil Írisar má lesa í heild með því að smella á tengilinn undir fréttinni, en hann hefur fengið mikil viðbrögð, víðsvegar á samfélagsmiðlum. Fjölmargir taka undir með henni en margir fordæma skrifa hennar. Áhrifavaldurinn Ólöf Tara svarar pistli Írisar:

„Þetta eru svo ógeðsleg skrif.

Áhrifavaldar eða skaðvaldar eins og þú kallar þà eru í það minnsta að leggja sitt af mörkunum til þess að skapa öruggt rými fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Það eina sem þú gerir að að halda uppi rætinni aðför að brotaþolum.

Brotaþolar hafa þurft að þola samfleytt núna í margar vikur að rekast á svona triggerandi skrif á internetinu frà fólki sem hefur ekki meiri tilfinningagreind en a4 blað.“

Íris svarar Ólöfu og segir hana með þessum viðbrögðum einmitt vera að reyna að koma af stað þeirri tegund af einelti sem Íris sé að fordæma í færslu sinni:

„Annað hvort last þú ekki það sem ég var að skrifa eða þú skilur ekki sneiðina sem var nákvæmlega ætluð þeim sem nærast á því sem þú ert að reyna að starta hér. Við erum með dómskerfi hér og lagaramma, (það má svo sem deila um hvort það sé nægilega skilvirkt kerfi) en ef almenningur ætlar að hrifsa til sín dómsvaldið þá erum við á rangri leið sem samfélag. Ég er sjálf fórnarlamb alvarlegs ofbeldis og mér dettur ekki í hug að gera lítið úr þolendum þess enda snúast þessi skrif ekki um það heldur að opna augun fyrir því sem er að gerast í samfélaginu. Að með einni mynd og einum pósti er auðveldlega hægt að snúa lífi fólks á hliðina án þess að gefa því færi á að segja sína upplifun.“

Fjölmargir aðrir taka til máls en segja má að ágreiningurinn kristallist í deilum þeirra Írisar og Ólafar Töru. Ólöf hefur skrifað margar færslur um málið á Facebook-síðu sína en hún segir meðal annars:

„Að segja að konur eigi bara að setja mörk án þess að leiða hugan að því að gerendur eigi að virða mörk er stórt vandamál og grípur vel utanum hvað brotaþolar kynferðisofbeldis glíma við þegar þeir reyna skila skömminni.

Hún potar því inn að þolendur eigi bara að leita sér aðstoðar í athvörfum án þess að leiða hugan að því að biðlistar eru langir sem sýnir okkur það að vandamálið er viðfangsmikið og leysist ekki með því að þolendur leiti sér aðstoðar, heldur með því að gerendur axli ábyrgð og hætti að beita ofbeldi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirlýsing frá Jakobi Frímanni Magnússyni

Yfirlýsing frá Jakobi Frímanni Magnússyni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirlýsing DV: Beittu barni til að stöðva frétt

Yfirlýsing DV: Beittu barni til að stöðva frétt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Stefnir í erfiðan vetur fyrir ferðaþjónustuna

Stefnir í erfiðan vetur fyrir ferðaþjónustuna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Okuriðgjöld, fákeppni og fádæma góð afkoma tryggingafélaga segir FÍB

Okuriðgjöld, fákeppni og fádæma góð afkoma tryggingafélaga segir FÍB