fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Helgi í Góu um morðingja sonar síns: „Ég vona að ég þekki manninn ekki ef ég sé hann“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 12. júlí 2019 09:00

Helgi í Góu. Mynd af syni hans, Hannesi, í ramma í baksýn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef mjög einfalda skoðun á þessu. Það ætti að vera auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Ég hef bara þessa einu skoðun og þetta þyrftu menn þá að vita áður en þeir ákveða að taka líf annarra. Menn sem hafa svona hugsunarhátt þyrftu að geta vitað að ef þeir taka líf annarra þá verði líf þeirra líka tekið,“ segir Helgi Vilhjálmsson, oftast kenndur við Góu, í einkaviðtali við DV.

Árið 2010 varð Gunnar Rúnar Sigurþórsson syni Helga, Hannesi Þór Helgasyni, að bana með hrottalegum hætti. Hann var dæmdur ósakhæfur í héraðsdómi en Hæstiréttur sneri þeim dómi við, úrskurðaði Gunnar Rúnar sakhæfan og dæmdi hann í sextán ára fangelsi. Samkvæmt reglum um afplánun verður sakborningur sem sakfelldur hefur verið fyrir glæp af þessu tagi að afplána minnst tvo þriðju hluta af dómnum. En til eru úrræði sem gera föngum kleift að ganga um frjálsir undir eftirliti meðan á afplánun stendur, til dæmis í formi dagsleyfa eða búsetu heima með ökklaband. Gunnar Rúnar fékk slíkt úrræði árið 2017 og undanfarið hafa borist sögusagnir um að hann sé á ferli í Hafnarfirði og víðar. Sá orðrómur að Gunnar Rúnar gangi laus fékkst endanlega staðfestur er kom í ljós að hann er skráður á stefnumótaforritið Tinder, en fangar sem sitja inni hafa ekki aðgang að interneti. Ljóst er að Gunnar Rúnar hefur enn ekki afplánað tvo þriðju hluta af dómi sínum. Það er svo aftur annað mál að margir telja að maður sem hefur framið svo alvarlegt brot ætti ekki að geta fengið afslátt af afplánun.

„Sonur minn barðist til síðasta blóðdropa“

Helgi í Góu er klárlega í þeim hópi. Hann segir sársaukann og áfallið sem glæpur Gunnars Rúnars hefur valdið fjölskyldu hans vera eitthvað sem vart sé hægt að færa í orð.

„Enginn gerir sér grein fyrir því hvað svona er hrikalegt fyrr en hann lendir í því sjálfur,“ segir Helgi. Þegar hann ýjar að því að dauðarefsing sé réttlátur dómur þá meinar hann ekki fyrir öll morð eða manndráp. „Þessi maður drap ekki bara einn mann, hann stakk hann nítján sinnum með hnífi – nítján sinnum.“ Helgi endurtekur töluna með áhersluþunga. „Þetta er bara eins og hakkavél. Þetta var allt ákveðið hjá honum fyrirfram. Sonur minn barðist til síðasta blóðdropa enda var blóð úti um allt. Hann varðist og morðinginn varð taugaveiklaður yfir sjálfsvörninni og dró hann fram í stofu. Ég bara fer ekki ofan af því að þeir sem fremja svona hryllilega glæpi ættu að fá það sama í staðinn.“

Helgi segist vona að ef Gunnar Rúnar verður á vegi hans þá beri hann ekki kennsl á hann því annars veit hann ekki hvað hann myndi gera. Hann ítrekar að þessar tilfinningar skilji aðeins fyllilega sá sem hefur lent í þessum aðstæðum.

Menn sem setja svona lög og reglur – hafa þeir lent í þessu sjálfir?

Varðandi þyngd dómsins sem Gunnar Rúnar fékk, heimildir til að afplána ekki allan dóminn, og að hann gangi laus þó að hann sé ekki búinn að afplána, þá er Helgi ómyrkur í máli.

„Menn sem setja svona lög og reglur – hafa þeir einhvern tíma lent í svona sjálfir? Að sonur þeirra eða dóttir sé myrt af yfirlögðu ráði, með köldu blóði? Það efast ég um. En hafa þeir rætt við þá sem lenda í slíku og sett sig í spor þeirra? Það efast ég líka um.“

Aðspurður segist Helgi vita að sést hafi til Gunnars Rúnars á ferli og hann veit um skráninguna á Tinder:

„Jú, ég frétti það. Ég er auðvitað ekkert í slíku sjálfur og kann ekkert á tölvur, en ég fæ að vita þetta allt saman. Ég endurtek bara að ég vona að ég þekki manninn ekki ef ég sé hann. En hann gerði mikla vitleysu með því að láta vita af sér á stefnumótasíðu. Hann er stórklikkaður. Enda sögðu þeir menn sem yfirheyrðu hann á sínum tíma að hann væri stórhættulegur.“
Þegar hann er spurður hvernig tilfinning það sé fyrir fjölskylduna að vita að morðingi Hannesar gangi laus segir Helgi: „Maður er að reyna að gleyma þessu, en því miður, það er ekki hægt …“ Rödd Helga brestur í stutta stund. Síðan harkar hann af sér. „Maður hugsar um þetta á hverjum degi. Þess vegna tek ég svona til orða. Þeir sem fremja svona hryllilega glæpi ættu að fá það sama til baka. Minni skoðun í þessu verður ekki haggað. Refsingin þarf að vera þannig að ef þú gerir svona og ert búinn að ákveða það fyrirfram, þá þarftu að vita hvað bíður þín. Og það á ekkert að vera að púkka upp á menn eins og þennan.“

Eyðileggingarmáttur glæpsins

„Hann drap ekki bara mann, þessi maður sem hann myrti átti ungt barn. Og þetta fór með móður hans, konuna mína, í gröfina. Það sama hefur gerst í öðru morðmáli hér á landi, morðið á syni varð til þess að móðirin missti heilsu og líf. Svona skilur eftir sig sár í allri fjölskyldunni til langframa. Þetta er svo mikill hryllingur að maður getur varla talað um það. Samt er ég hrifinn af því að þið fjölmiðlar sýnið þessu áhuga því fólk áttar sig ekki á því hvað er í gangi. Fréttaflutningur af svona málum er nauðsynlegur,“ segir Helgi Vilhjálmsson – Helgi í Góu.

Ástríðuglæpur

Morð Gunnars Rúnars á Hannesi er flokkað sem ástríðuglæpur. Gunnar Rúnar birti ástarjátningu til þáverandi unnustu Hannesar árið 2009. Ástarjátninguna birti Gunnar Rúnar á YouTube og vakti myndbandið mikla athygli fjölmiðla og Hannesar. Ári síðar myrti Gunnar Rúnar Hannes, en í yfirheyrslum lögreglu sagðist hann hafa hugsað um að myrða hann lengi. Hann sagðist enn fremur hafa viljað losna við Hannes til að hann og unnusta Hannesar gætu verið saman.

Gunnar Rúnar var metinn ósakhæfur í Héraðsdómi Reykjaness árið 2011, á grundvelli vitnisburða þriggja geðlækna. Hann var í kjölfarið vistaður á Sogni. Í dómnum kemur meðal annars fram að Gunnar Rúnar sé hættulegur og að hann hefði sjálfur lýst ofbeldisfullum hugsunum gagnvart fanga, á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi. Því eigi hann að sæta strangri öryggisgæslu auk meðferðar, á grundvelli réttaröryggis. Fjölskylda Hannesar lýsti því yfir opinberlega að úrskurðurinn væri vonbrigði. Hæstiréttur sneri hins vegar við dómi héraðsdóms í október 2011 og mat það svo að Gunnar væri sakhæfur. Hann var í kjölfarið dæmdur til sextán ára fangelsisvistar. Í dómnum kemur fram að ásetningur Gunnars Rúnars hafi verið einbeittur þegar hann stakk Hannes ítrekað. Samkvæmt sérfræðimati þriggja geðlækna þjáðist Gunnar af ástsýki (erotomania), ranghugmyndum (fixed delusions) og persónuleikaröskun (dissociative disorder) sem lýsir sér í tvískiptum eða rofnum persónuleika.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“