fbpx
Laugardagur 23.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Litaleikir Hannesar

Fréttir

Sanna hefur áhyggjur af móður sinni – „Hún fullvissar mig um að hún sé ekki að hugsa um sjálfsvíg, þetta séu lyfin“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 24. júní 2018 23:30

Sanna Magdalena Mörtudóttir. Mynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins ólst upp hjá einstæðri móður og glímdu þær við mikla fátækt í uppvexti Sönnu. Þessi 26 ára gamla baráttukona hefur áður sagt frá æsku sinni, fátæktinni og móðurinni, sem vann tvö störf til að hafa í þær mæðgur og á, sem oft dugði þó ekki til.

Í einlægum pistli á Facebook fyrr í kvöld segir Sanna frá því að móðir hennar hafi nýlega byrjað á nýjum lyfjum við kvíða og þunglyndi sem hún glímir við. Ollu lyfin mikilli vanlíðan hjá móður hennar og sjálfsvígshugsanir fóru að sækja á hana.

„Hún fullvissar mig um að hún sé ekki að hugsa um sjálfsvíg, þetta séu lyfin en auðvitað sé erfitt að eiga við svona hugsanir. Hún ætlaði að fara áfram á hnefanum, hugsaði að þetta hlyti að fara að skána eftir þessar 2-4 vikur sem talað er um að taki lyfin að virka. Mér brá mjög mikið, hún hefur aldrei upplifað svona áður, mér leist ekkert á blikuna og hringi í 1770 símaráðgjöf Læknavaktarinnar en mamma mín er mjög góð að setja upp andlit og vera til staðar fyrir mig og vill ekkert vera að valda mér áhyggjum,“ segir Sanna.

Veltir Sanna fyrir sér ábyrgð lækna og eftirfylgni þegar svo sterk lyf eru ávísuð til einstaklinga, sem eru í sömu stöðu og móðir hennar: „Að senda manneskju heim með svona sterk lyf án þess að ítreka að hringja strax ef sjálfsvígshugsanir geri vart við sig, sérstaklega þegar það eru margar vikur í næsta tíma.“

Við bendum á símaþjónustu Læknavaktarinnar 1770 og hjálparsíma Rauða krossins 1717, bæði númer eru ókeypis og opin allan sólarhringinn. Píeta samtökin bjóða einnig upp á þjónustu í síma 552-2218 fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun.

Pistill Sönnu má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Í gegnum tíðina hefur mamma mín verið að eiga við kvíða með svæsnum kvíðaköstum í bland við þunglyndi. Í gær segir hún mér frá því að hún sé byrjuð á nýjum lyfjum fyrir 18 dögum síðan og upplifi mikla vanlíðan út frá þeim. Í fylgiseðli sé talað um að fólk geti upplifað mikla lægð, versnun þunglyndis og sjálfsvíghugsanir í upphafi þess sem lyfin eru tekin. Hún segir mér frá því að sjálfsvígshugsanir sæki að henni, sem séu ekki að koma frá henni sjálfri en mjög myrkar hugsanir séu að leita á hana. Hún finnur að þetta er ekki að koma frá henni sjálfri, heldur frá lyfjunum í formi utanaðkomandi árásar með ljótum orðum um að hún eigi að enda þetta. Hún fullvissar mig um að hún sé ekki að fara að gefa inn í þetta, hún hafi ekki hugsað um að skaða sig.

Þetta sé að eiga sér stað vegna lyfjanna en þegar hún byrjaði að taka þessi lyf komu þessar hugsanir og voru stöðugar eftir það. Hún fullvissar mig um að hún sé ekki að hugsa um sjálfsvíg, þetta séu lyfin en auðvitað sé erfitt að eiga við svona hugsanir. Hún ætlaði að fara áfram á hnefanum, hugsaði að þetta hlyti að fara að skána eftir þessar 2-4 vikur sem talað er um að taki lyfin að virka. Mér brá mjög mikið, hún hefur aldrei upplifað svona áður, mér leist ekkert á blikuna og hringi í 1770 símaráðgjöf Læknavaktarinnar en mamma mín er mjög góð að setja upp andlit og vera til staðar fyrir mig og vill ekkert vera að valda mér áhyggjum. Konan hjá 1770 segir okkur að fara niður á bráðamóttöku þar sem við tölum við lækni.

Hún fær viðeigandi lyf fyrir kvöldið og við endum með að fara heim. Skipaði henni að sofa í sófanum við hliðina á mér í hinum sófanum, ætlaði sko ekki að sleppa henni úr augsýn eða radíus þar sem ég heyri ekkert í henni. Við komumst að því að það er mjög óþægilegt að sofa á þessum sófum okkar og á endanum fékk hún að fara inn í herbergið sitt, með opna hurð þó. Í dag fórum við niður á geðsvið Landspítalans, þar sem við hittum lækni sem setti upp áætlun og mun veita henni eftirfylgdni. Það er gott að vita að hún eigi tíma strax í fyrramálið. Ég spurði hana afhverju hún hafi ekki sagt neitt eða leitað eftir bráðaaðstoð og hún sagði mér að það sé að hluta til vegna þess að hún hafi mætt lítilli eða nánast engri hjálp á bráðamóttöku þegar hún hefur leitað þangað í kvíðakasti haldandi að hún sé að fara að deyja. Kvíðaköst lýsa sér oft þannig að manneskjan heldur raunverulega að hún sé að deyja og hjartslátturinn getur orðið mjög ör. Hún hefur því miður ekki mikla trú á kerfinu, líka vegna viðmóts í garð andlegra veikinda almennt í samfélaginu, sem hafa ekki verið í takt við alvarleikann. Slík viðmót hafði áhrif á að hún sagði ekki frá, haldandi að hún þyrfti að fara í gegnum þetta ein.

En mikið er ég fegin að hún opnaði sig og mig langar helst að brenna þessi lyf á báli en þá spyr maður sig út í eitrunaráhrif á loftið. Ég er meðvituð um að lyf hafa oft hjálpað fólki en það er svo sannarlega ekki tilfellið núna og sem betur fer er mamma mín hætt á þessum lyfjum. Það er svo ógnvænlegt að heyra hvað lyf geta gert og hún vill einmitt undirstrika að hún upplifði þessar sjálfsvígshugsanir vegna lyfjanna en þetta er ekki eitthvað sem hún sjálf hafði verið að íhuga. Maður veltir fyrir sér í þessu samhengi ábyrgð lækna varðandi eftirfylgni. Að senda manneskju heim með svona sterk lyf án þess að ítreka að hringja strax ef sjálfsvígshugsanir geri vart við sig, sérstaklega þegar það eru margar vikur í næsta tíma.

Segjum einhverjum frá ef okkur líður illa. Það er hægt að hringja í hjúkrunarfræðinga í símaþjónustu Læknavaktarinnar í símanúmerið 1770, það kostar ekki neitt og er opið allan sólarhringinn. Það er líka hægt að hringja í hjálparsíma Rauða krossins 1717, það er ókeypis og alltaf opið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Ók ofan í húsgrunn – Gluggagægir læddist um Breiðholt

Ók ofan í húsgrunn – Gluggagægir læddist um Breiðholt
Fréttir
Í gær

Hissa á að Zidane sé mættur aftur

Hissa á að Zidane sé mættur aftur