fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Bróðir Hennýar var tilraunadýr SS læknis

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 16. september 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1938 munaði minnstu að Íslendingar vísuðu saumakonu sem hér bjó, Henný Goldstein, beint í gin nasista. Að öllum líkindum hefði það þýtt endalok hennar, sonar hennar og móður, enda voru þau gyðingar. Björgun Hennýjar var sú að íslenskur velvildarmaður, Hendrik Ottósson, var tilbúinn til að kvænast henni og varð hún þar með íslenskur ríkisborgari. Með þeim þróaðist ást sem varði út ævina en Henný missti hins vegar bæði bróður sinn og barnsföður í helförinni.

Þetta er brot úr stórri umfjöllun í helgarblaði DV.

 

Ástin kviknaði í málamyndahjónabandi

Í skugga þessara voveiflegu atburða blómstraði ástin á milli Hennýjar og Hendriks. Ekki öðluðust þau þá lukku að eignast saman barn en Hendrik gekk hinum unga Pétri í föðurstað. Henný kom á fót sinni eigin saumastofu á Kirkjuhvoli við Dómkirkjuna og rak hana allt til ársins 1952. Í stríðinu starfaði Hendrik sem túlkur fyrir bæði breska og bandaríska herinn. Árið 1946 hóf hann störf sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu en hann hafði áður starfað sem blaðamaður hjá Alþýðublaðinu árin 1919 til 1920. Á Ríkisútvarpinu starfaði hann í tuttugu ár, eða þar til hann lést tæplega sjötugur að aldri árið 1966. Eftir að Henný hætti með saumastofuna saumaði hún á heimili þeirra við Langholtsveginn í nokkur ár. Eftir það kom hún yfir á Ríkisútvarpið til Hendriks og starfaði þar í innheimtudeildinni. Henný lést árið 1986.

Pétur gekk eins og önnur börn í skóla og ólst upp eins og íslenskur strákur. Engu að síður var hann alla tíð meðvitaður um uppruna sinn. Pétur gekk í Loftskeytaskólann og starfaði lengi á togurum og fraktskipum. Síðustu árin starfaði hann á birgðastöð Landsímans en hann lést árið 1993. Pétur var giftur Hlín Guðjónsdóttir og áttu þau saman fimm dætur. Sú elsta, Magnea Henný, rannsakaði fjölskyldusöguna og fjallaði um hana, bæði í viðtali við Morgunblaðið og eigin greinum. Hún komst loksins að hinu sanna um örlög Siegberts Rosenthal.

Tilraunadýr læknis SS

Árið 1998 hafði ættingi í Lundúnum samband við Magneu og tjáði henni að franskur doktorsnemi í læknisfræði væri að reyna að hafa samband við hana í tengslum við 86 fórnarlömb helfararinnar sem myrt voru á stað sem nefnist Natzweiler-Struthof, í nálægð við Strassborg í Austur-Frakklandi. Líkin af föngunum, sem höfðu verið notaðir í læknisfræðitilraunum, voru óþekkt í áratugi en árið 1998 var loksins hægt að greina flúrað númer Siegberts á einu þeirra. Í kjölfarið heimsótti Magnea búðirnar og komst síðar yfir skjöl um málið.

Siegbert var einn af þeim föngum í Auschwitz sem urðu tilraunadýr læknisins August Hirt, sem starfaði undir stjórn Heinrichs Himmler, leiðtoga SS-sveitanna. Verkefnið fékk nafnið Arfleifðin (Ahnenerbe) og takmark þess var að sýna fram á líffræðilega yfirburði hvíta kynstofnsins. Hirt framkvæmdi ýmsar tilraunir á föngunum, svo sem tilraunir með sinnepsgas og ófrjósemisefni. Var ófrjósemisefnunum sprautað beint í eistu fanganna með óbærilegum sársauka. Sumar tilraunirnar voru eingöngu gerðar á börnum.

Eftir þessar tilraunir var föngunum smalað inn í lítinn gasklefa, þeir teknir af lífi og þau líffæri sem sérstaklega voru til skoðunar fjarlægð og rannsökuð. Ástæða þess að líkin sem fundust voru svo vel varðveitt var að Hirt og félagar hans hjá Arfleifðinni höfðu það hlutverk að búa til sýningu á beinagrindum og líkamsleifum óæðri kynstofna og voru líkin því sett í vínanda til að hægja á rotnun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“
Fókus
Í gær

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hjónabandsráðgjafi segir þetta merkið um að sambandið sé búið

Hjónabandsráðgjafi segir þetta merkið um að sambandið sé búið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Snorri vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar Sigmundur Davíð og Bergþór bönkuðu upp á

Snorri vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar Sigmundur Davíð og Bergþór bönkuðu upp á
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bikinímynd Kim Kardashian að athlægi – Sérð þú af hverju?

Bikinímynd Kim Kardashian að athlægi – Sérð þú af hverju?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er eiginlega mannréttindabrot að neita sjúklingum á Íslandi um þetta“

„Það er eiginlega mannréttindabrot að neita sjúklingum á Íslandi um þetta“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jenna Jameson að skilja – Braut mjög mikilvæga reglu sem eiginkonan setti fyrir hana

Jenna Jameson að skilja – Braut mjög mikilvæga reglu sem eiginkonan setti fyrir hana