fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Halldór Blöndal: „Það koma alltaf erfiðir tímar“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 13. júlí 2018 20:30

Halldór Blöndal. Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Blöndal var lengi vel einn af mest áberandi stjórnmálamönnum landsins. Hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra í fjögur ár, síðan samgönguráðherra í önnur fjögur ár og þingforseti í sex. Hann var þekktur fyrir sitt alþýðlega fas, hagmælsku en gat einnig verið beittur þegar á þurfti að halda. Kristinn ræddi við Halldór um uppvaxtarárin, árin í hvalstöðinni, stjórnmálin og hvað hann hefur verið að bralla síðan þingmennskunni lauk.

Þetta er brot úr stærra viðtali í helgarblaði DV

 

 

Eftir ráðherratíðina varð Halldór forseti Alþingis og sat í því embætti í sex ár. Halldór lauk sínum þingferli vorið 2007, þetta fræga ár fyrir bankahrunið. Síðan þá hefur ekki farið mikið fyrir Halldóri á opinberum vettvangi.

Varstu feginn að sleppa við hrunið í þinginu?

„Nei, ég var ekki feginn því og raunar velti ég því aldrei fyrir mér, – en það hefði verið lærdómsríkt að fást við það. Það koma alltaf erfiðir tímar eins og á áttunda áratugnum þegar verðbólgan fór upp úr öllu valdi, spariféð gekk til þurrðar og verkamannabústaðarkerfið leið undir lok.“

Hvernig hefði verið hægt að afstýra hruninu?

„Spurningu eins og þessari er ekki hægt að svara. Og allra síst hef ég þekkingu til þess svo að vit sé í. En auðvitað voru álitamálin mörg þegar við sömdum um að verða aðilar að evrópska efnahagssvæðinu og menn sáu mislangt fram. Ég vildi t.d. ekki ganga í Schengen og var andvígur því í ríkisstjórn. Ég var ekki í ríkisstjórn þegar bankarnir voru seldir og má margt um það segja. Það átti ekki að heimila opnun icesave reikninga í Bretlandi og Hollandi nema útibú Landsbankans þar væru efnhagslega sjálfstæð og bæru sjálf ábyrgð á sínum skuldbindingum. Mín vegna hefði Landsbankinn mátt stofna sjálfstæðan banka erlendis, en ekki útibú. Ábyrgð þeirra sem leyfðu það er mikil.“

Þær stjórnir sem sátu fyrir hrun og sérstaklega Davíð Oddsson hafa fengið mikla gagnrýni fyrir bankasöluna og fleira. Finnst þér Davíð hafa fengið sanngjarnan dóm samfélagsins?

„Við stjórnmálamenn fáum alltaf sanngjarnan dóm frá vinum okkar en rangan frá pólitískum andstæðingum nema um persónulega vináttu sé að ræða. Ég tala til dæmis vel um þingferil Ragnars Arnalds í Alþýðubandalaginu. Ég get kannski sagt ýmislegt um feril Steingríms J. ef mér sýnist, þó við séum nú ágætis vinir“ segir Halldór og skellir upp úr.

Halldór er enn þá virkur í stjórnmálum þó að ekki fari lengur jafn mikið fyrir honum. Hann er formaður Samtaka eldri Sjálfstæðismanna, í miðstjórn flokksins og skrifar reglulega í Morgunblaðið um málefni líðandi stundar. Hann hefur heimild til að sitja þingflokksfundi en er nú að mestu hættur að nenna því.

Ertu að leiðbeina þingmönnunum?

„Já en ég hef ekki fylgst með því hvort þeir fari mikið eftir því sem ég segi. En ég reyni að verða þeim að liði.“

Hvernig lýst þér á þessa stjórn sem nú situr?

„Mér lýst vel á hana en það eru ýmis vandamál sem steðja að í þjóðfélaginu, til dæmis kjaramálin. Frá því að ég man eftir mér hafa alltaf komið upp erfiðleikar í kjaramálum og boginn of oft spenntur of hátt. Við búum nú við það að kaupmáttur hefur vaxið meira en nokkru sinni fyrr og verðbólga er svosem engin. Ef við höldum rétt á spilunum getum við búið í haginn.“

Er þetta ekki kjararáði að kenna?

„Þegar ég settist fyrst á þing 1971 ákvað þingið sjálft laun alþingismanna og ég vildi halda því. Sum mál eru þess eðlis að þau verða ávallt pólitísk. Alþingismenn geta ekki skorast undan því. Það var rangt af Jóhönnu Sigurðardóttur að lækka laun þingmanna og æðstu embættismanna því að það er erfitt að leiðrétta það á nýjan leik. Svo hafa árásirnar á kjararáð verið tugga sem hver tekur upp eftir öðrum. Eitt sinn gátu þingmenn ekki lifað af sínum launum. Bjarni Benediktsson fékk greitt fyrir að skrifa Reykjavíkurbréf, Jóhann Hafstein fékk greitt fyrir leiðara í Vísi, síðan sátu launaðir verkalýðsforingjar, forstjórar, blaðamenn, sýslumenn, kennarar og fleiri á þingi. Nú er þingmannsstarfið fullt starf og ráðherrar geta ekki haldið prófessorsembætti í 15 ár og síðan mætt einn góðan veðurdag uppi í háskóla eins og ekkert sé eins og Gylfi Þ. Gíslason gerði. Svo að ég víki aftur að spurningunni um kjararáð: Ég tel að alþingismenn og forystumenn launþega og vinnuveitenda verði að ná samkomulagi um, hvernig skuli ákveða laun alþingismanna, ráðherra, dómara og æðstu embættismanna ríkisins. “

Halldór verður áttræður í ágúst og hann hefur einnig meiri tíma fyrir áhugamálin, sér í lagi menninguna. Nýlega var hann kjörinn forseti Hins íslenska fornritafélags. „Ég hef verið að lesa Íslendingasögurnar síðustu vikurnar og byrjaði á Njálu en nú er ég þar staddur í Morkinskinnu að senn lýkur sögu Sigurðar Jórsalafara. Svo hef ég þau ánægjulegu tíðindi að segja að saga Jómsvíkinga kemur út á haustdögum og sjá Þorleifur Hauksson og Marteinn Helgi Sigurðsson um útgáfuna. Og á næstu tveim til þrem árum koma út Sturlunga, sem Guðrún Ása Grímsdóttir gefur út, og Guðmundar sögur biskups Arasonur.

Árið 2000 greindist Halldór með krabbamein í ristli og gekkst undir hnífinn í þrígang.

„Ég varð aldrei veikur né kenndi mér neins meins. Það gekk blóð niður með hægðum og ég sagði lækninum mínum það. Honum fannst það ótrúlegt því að ég væri nýkominn úr skoðun. Hann fann meinið og það var skorið í burtu. Síðan hefur ekkert þurft að hugsa um þetta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Í gær

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“