fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Hræðslan mikilvægur þáttur í velgengni Heru: Fagið býður ekki alltaf upp á almennilegan svefn

Tómas Valgeirsson
Þriðjudaginn 18. desember 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikkonan Hera Hilmarsdóttir er fyrsti íslenski leikarinn til að landa burðarhlutverki í Hollywood-stórmynd, hlutverki sem hún bjóst aldrei nokkurn tímann við að hreppa. Hún gaf sér tíma í öllu annríkinu til þess að fara með blaðamanni DV yfir hið gífurlega umfang ævintýramyndarinnar Mortal Engines og leiðina að þessu risastóra hlutverki. Hera leiðir okkur í gegnum dæmigerðan vinnudag á stóru kvikmyndasetti og álagið sem fylgir hlutverki af þessu tagi.

Aðspurð um áhuga sinn á leiklist segir hún: „Mér hefur alltaf fundist gaman að setja mig í spor annarra og blása lífi í sögur sem heilla mig, Þetta hefur í raun ekki breyst mikið frá mínum yngri árum. Mig langaði alltaf að verða leikkona. Nú er ég svo heppin að geta kallað þetta vinnuna mína í stað þess að það sé eitthvað sem ég fæ aðeins að gera í frítíma mínum, sem er frábært.“

Í myndinni Mortal Engines fer Hera með hlutverk hinnar þrautseigu og hefnigjörnu Hester Shaw, sem freistar þess að koma fram hefndum gegn morðingja móður sinnar sem einnig afmyndaði andlit hennar. Myndin kemur úr smiðju kvikmyndagerðarmannsins og ofurframleiðandans Peters Jackson og var myndin frumsýnd síðustu helgi á Íslandi og um allan heim.

Sorgin, reiðin og villidýrið

Þegar kom að ráðningarferlinu var Hera fjarri því að vera sú leikkona sem kom fyrst til greina. Að endingu landaði hún þó hlutverkinu og skákaði þar mörgum þekktum stórleikkonum. Myndin er byggð á vinsælli bókaseríu eftir Philip Reeve og gerist sagan í framtíðarheimi þar sem jörðin, eins og við þekkjum hana, hefur verið lögð í rúst í styrjöld. Þær fáu borgir sem eftir standa berjast innbyrðis um þær auðlindir sem í boði eru en tækniframfarir hafa gert að verkum að borgir og bæir eru oftast á hjólum og sífellt á ferð.

Handrit myndarinnar er í höndum þeirra Jackson, Fran Walsh og Philippa Boyens, sem öll komu að handritasmíð Hringadróttinsseríunnar. Alls voru fjórar bækur gefnar út í þessari eftirheimsendasögu Reeve og má segja að bækurnar séu uppfullar af „gufupönki“ og fantasíu. Bókaröðin hefur verið nefnd  Vítisvélar á íslensku. Einn af föstum samstarfsmönnum Jackson, Christian Rivers, leikstýrir myndinni og er þetta hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Fyrirhugað er að gera fleiri myndir um þennan sagnaheim ef aðsóknin verður góð.

Hera lýsir persónu sinni sem eins konar villidýri við upphaf sögunnar og segir hana ekki kunna að eiga samskipti við annað fólk, enda drifin áfram af sorg og reiði.

„Það eina sem hún lifir fyrir er að hefna móður sinnar með því að drepa árásarmanninn Thaddeus Valentine, sem ástralski stórleikarinn Hugo Weaving túlkar, jafnvel þótt það þýði að hún deyi sjálf. En auðvitað er lífið ekki svona klippt og skorið,“ segir leikkonan.

Með heppnina að vopni

Þegar kom að ráðningu Heru segir hún tilfinninguna um að fá hlutverkið hafa verið afar blendna. „Þetta gerðist allt afar hratt. Ég var að leika í leiksýningunni Andaðu í Iðnó með Þorvaldi Davíð á þeim tíma sem ég fékk fréttirnar. Öll mín orka var algjörlega þar enda tók framleiðsluhliðin á sýningunni mikla orku. Skyndilega fékk ég boð um að senda prufumyndband fyrir myndina. Ég sendi inn myndband en ímyndaði mér ekki að ég gæti landað þessu hlutverki. Á endanum held ég að það hafi unnið með mér.“

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ferill Heru hófst. Hún hefur verið búsett í London en einnig tekið að sér hlutverk á Íslandi inni á milli. Leikkonan vakti mikla athygli í sjónvarpsþáttaröðinni Da Vinci’s Demons sem fjallar um Leonardo Da Vinci á yngri árum. Hera lék eitt af aðalhlutverkunum í þáttunum við góðar undirtektir og óhætt að fullyrða að þeir hafi verið góður stökkpallur fyrir stærri verkefni.

Undanfarið hefur leikkonan jafnframt tekið að sér hlutverk í tveimur af stærri íslenskum kvikmyndum síðari ára, Vonarstræti frá Baldvini Z og Eiði Baltasars Kormáks. Þá upplifði hún einn hápunkt ferils síns, hingað til, þegar hún lék í aðalhlutverkið í  kvikmyndinni An Ordinary Man sem kom út í fyrra og lék þar á móti hinum virta leikara Sir Ben Kingsley. Á sama ári léku þau einnig saman í stríðsdramanu The Ottoman Lieutenant.

Hera Hilmarsdóttir í Eiðinum (2016).
Hera og Sir Ben Kingsley í kvikmyndinni An Ordinary Man (2017).

Næsta verkefni hjá Heru er sjónvarpsþáttaröðin See sem Apple framleiðir. Aðspurð út í verkefnið er Hera þögul sem gröfin en segist vera mjög spennt fyrir áskoruninni. Þættirnir gerast í framtíðinni og mun Hera fara með hlutverk konu sem heitir Maghra og hefur verið lýst sem ákveðinni móður sem eigi það í sér að fremja hryllileg illvirki. Leikarar á borð við Diane Lane, Amanda Peet, Andrew Rannells, Jason Momoa og Aaron Eckhart fara einnig með hlutverk í þáttunum. Flestum þessara leikara bregður þó fyrir í útvöldum þáttum á meðan Hera gegnir lykilhlutverki í allri seríunni, en þættirnir verða tíu talsins.

Hera lofar því að velgengnin á erlendum vettvangi verði ekki til þess að hún hætti að taka við hlutverkum hérlendis. Hún segir það skipta sig gríðarlegu máli að halda í heimaræturnar og það standi ekki til að það breytist.

Skype-símtalið sem breytti öllu

Hera segir tilhugsunina um að fá að leika í ævintýramynd frá Peter Jackson hafa verið svo langsótta að hún hafi ekki einu sinni leitt hugann að því. Hún var meðvituð um að framleiðendur myndarinnar voru búnir að leita eftir annarri leikkonu til að leika Hester.

Hermt er að ráðningarferli Heru hafi verið hið óvenjulegasta, en að endingu hafi fyrri frammistaða leikkonunnar gert að verkum að aðstandendur stórmyndarinnar  heilluðust af henni og ákváðu að ráða hana. Eins og fréttaveitur hafa greint frá fékk hún hlutverkið í gegnum símaforritið Skype í afslöppuðu spjalli, sem leikkonunni þótti hið undarlegasta.

„Þau voru aðallega að selja mér hlutverkið og söguna, á meðan ég bjóst við því að ég væri sú sem þyrfti að sannfæra þau um að ég væri rétta manneskjan,“ segir Hera.

„Ég held að þau hafi skoðað það sem ég hafði gert áður og heyrt í fólki sem ég hafði unnið með. Nokkrum dögum síðar var ég svo komin með handritið og tilboð um hlutverkið. Þá þurfti ég allt í einu að ákveða hvort ég ætlaði að hrökkva eða stökkva.“

Kona í karlmannshlutverki

Hera segir það vera hægara sagt en gert að samþykkja hlutverk í kvikmynd af þessari stærðargráðu. „Þegar þú tekur að þér svona hlutverk ertu að skuldbinda þig í langan tíma, og hinum megin á hnettinum í þessu tilfelli,“ segir hún. „Þetta er nógu stór ákvörðun ef myndin væri aðeins ein, hvað þá ef þær yrðu fleiri. En á endanum blasti það við að tækifærið var of stórt til að sleppa því, auk þess þegar ég las handritið og meira um persónuna Hester og bækurnar sjálfar gat ég ekki annað en sagt já.“

Leikkonan bætir við að það sé fágætt að túlka jafn margslungna persónu í leiðandi kvenhlutverki og ekki síður í „blockbuster“-mynd, sem hún segir ekki gerast oft. Hún segir söguþráð Hester Shaw vera í raun vera týpískan og karllægan, í þeim skilningi að erkitýpa af þessari gerð er nær undantekningarlaust leikin af karlmönnum.

Aðspurð hvaða helstu áskoranir hafi fylgt hlutverkinu segir hún þær hafa verið margvíslegar. „Í fyrsta lagi snerist þetta um að skilja hvernig Hester líður og hvernig það er að bera jafn mikinn andlegan farangur hvert sem maður fer,“ segir Hera. „Einnig var mikilvægt fyrir mig að átta mig á því hvernig er að lifa með einhvers konar útlitsgalla.“

Hera og andlitsörið umtalaða.

Leikkonan segir þá tilbreytingu kærkomna að stórmynd bjóði upp á aðalpersónu sem er afmynduð í framan. Venjan hefur yfirleitt verið sú að glansinn í bransanum fyrirbyggi slíkt. Hún tekur þó skýrt fram að hún vilji ekki tala um að þetta sé galli heldur í raun og veru karaktereinkenni.

„Hester hins vegar upplifir sig sem gallaða og fólk dæmir hana út frá útliti hennar,“ segir Hera. „Ég vildi skilja hvernig það er að lifa án mannlegra samskipta eins og hún gerir og hvaða áhrif það hefur á viðkomandi.“

Hópur með sterkar skoðanir

Frá því að fyrsta sýnishorn myndarinnar birtist á veraldarvefnum hafa aðdáendur skáldsagnanna verið duglegir að láta í sér heyra varðandi útlit leikkonunnar. Áðurnefnd ör aðalpersónunnar hafa þar verið til mikillar umræðu og þær raddir hafa verið háværar að Hera sé einfaldlega of falleg fyrir hlutverkið.

Í bókunum er Hester lýst með andlitslömun sem veldur varanlegu hæðnisglotti og lítið er eftir af nefi hennar. Örið fer þvert yfir vinstra auga og hefur mörgum þótt útkoma örsins í kvikmyndinni fara aðeins of fínt í hlutina. Bæði Peter Jackson og Christian Rivers hafa svarað þessari gagnrýni aðdáenda og segja kvikmyndir vera sjónrænan miðil þar sem ör af þessu tagi eru ekki alltaf áhorfendum bjóðandi. Leikstjórinn vonast til þess að áhorfendur geti séð myndina fyrst til þess að skilja hvaðan sú ákvörðun, að tóna örið niður, kom.

Hera er spurð hvort hún finni fyrir aukinni pressu bókaaðdáenda og hvernig sú tilfinning sé að takast á við persónu sem fjöldi fólks hefur séð fyrir sér. Hún segist vera alveg meðvituð um þrýstinginn, en henni þyki jafnframt gefandi að vinna að einhverju sem stór hópur fólks á heimsvísu hlakkar til að sjá.

„Auðvitað er þetta hópur sem hefur sterkar skoðanir, en við gerðum okkar besta við að halda tryggð við bækurnar. Til dæmis kom höfundur bókanna á sett og var algjörlega hluti af verkefninu frá byrjun,“ segir Hera.

Hera mætti sem heiðursgestur á Nexusforsýningu Mortal Engines í vikunni og svaraði spurningum áhorfenda.

Tilfinningin í maganum

Hera er ekki mikil áhættuleikkona en hún var hörð á því að líta ekki út eins og þrautþjálfuð hetja sem kynni að berjast eða drepa, heldur venjuleg ung kona sem væri heltekin af reiðinni, ofar öllu öðru. „Það var mikilvægt fyrir mig að hún liti þannig út líkamlega, að hún væri manneskja sem gerði mistök þegar kæmi að þessum kúnstum og þess háttar.“

Hera bendir á að í hvaða fagi sem er sé mikilvægt að leyfa sér að vera hræddur. Hjá henni gildi þetta bæði um leikinn og lífið.

„Það er sama hversu absúrd heimurinn er, því raunveruleikinn getur verið fáránlegur, en ef þú finnur eitthvað sem tengir þig við jörðina og þig, þá geturðu gert í rauninni hvað sem er. Þú getur farið hvert sem er, bæði langt og stutt,“ segir hún og bætir við að þetta komi líka eðlishvötinni við. Hera segir gott viðmið vera tilfinninguna sem hún finnur fyrir í maganum, sem hún telur halda sér á réttri braut.

„Þetta þýðir líka fyrir mér, að maður leyfir sér að stökkva fram af bjarginu af því að maður veit að maður er með reipi fast við jörðina. Eða jafnvel þótt þú sért ekki með eitthvað áþreifanlegt eins og reipið þá yfirleitt grípur þig eitthvað, svo lengi sem þú ert tengdur við þessa eðlishvöt. Stundum er ekki neitt til að grípa þig og það er yfirleitt allt í góðu. Í versta falli meiðir þú þig bara smávegis. Þér batnar og svo heldurðu áfram sterkari. Við þurfum að leyfa okkur að taka séns á því sem hræðir okkur. Þannig hefur þetta virkað í mínu tilfelli.“

Öllu tjaldað til

Talið er að framleiðslukostnaður Mortal Engines hafi verið í kringum 100 milljónir dala eða um tólf milljarðar íslenskra króna. Þar með er ekki talinn markaðskostnaður og vilja sérfræðingar í faginu meina að myndin þurfi að hala inn hátt í 300 milljónir dala á heimsvísu til að standa undir kostnaði og þá fyrst getur möguleiki fyrir framhald opnast. Þetta skýrist að einhverju leyti þegar aðsóknartölur fyrstu sýningarhelgarinnar verða opinberar.

Hera segir að í framleiðslu myndarinnar hafi verið notast við blá og græn tjöld í meira mæli en hún hefur áður upplifað. Það er gert til þess að hægt sé að setja inn bakgrunn í eftirvinnslu eða stækka sviðsmyndir með tölvubrellum. Hera segir þó tjöldin ekki hafa mikil áhrif á nálgun hennar gagnvart hlutverkinu. Að hennar sögn voru sviðsmyndirnar ævintýri líkastar.

Við vinnslu myndarinnar voru yfir 120 leikmyndir sem voru „gjörsamlega gígantískar að stærð“ að sögn Heru. „Við byggðum mestallt af jörðinni og klettunum í „The Wastelands“ sem við erum á í byrjun myndarinnar, allt sem við sjáum í London var byggt, lestarstöðvarnar, götur, safnið, St. Paul’s, í raun allt nema London sjálf séð í heild sinni, sem var bæði módelvinna og tækniteikningar.“

London á hjólum.

Langir dagar og dýrmætur lúr

Þegar spurningin kemur upp um hvernig hefðbundinn vinnudagur lýsir sér í fagi Heru segir hún það misjafnt og fara eftir umfangi myndanna. „Yfirleitt er týpískur dagur, sama að hverju ég er að vinna, þannig að ég vakna í kringum þrjú eða hálf fjögur að nóttu til og keyri beint á tökustað. Ferðin getur tekið allt frá korteri upp í tvo tíma, eftir því hvar við erum stödd. Síðan tekur við þriggja tíma förðun en það fer allt eftir umfangi og hvaða tímabili maður á að tilheyra,“ segir hún.

„Það tekur yfirleitt nokkra tíma að taka upp senur þar sem alls konar vinklar þurfa yfirleitt að vera teknir upp, víð skot frá nokkrum sjónarhornum, og nærmyndir af öllu sem skiptir máli. Þetta gengur svona fyrir sig allan daginn. Stundum er hádegishlé en stundum höldum við bara áfram og borðum þegar við getum inni á milli, mér finnst það yfirleitt þægilegra, að klára fyrr, nema maður sé svo rosalega þreyttur að hádegishléið bjóði upp á lúr í hjólhýsinu,“ segir hún.

„Síðan keyrum við heim, vonandi ekki of lengi. Snarl heima, hringja í sína nánustu ef það er í boði vegna tímamismunar til dæmis, bað eða sturta og svo fara yfir línur næsta dags og undirbúa hvað maður ætlar að gera. Síðan, vonandi, að ná einhverjum almennilegum svefni, sem oft er erfitt þar sem það tekur sinn tíma að slökkva á höfðinu eftir annríki dagsins.“

Hera segir lykilþátt í þeirri list að eltast við drauminn liggja í því að gefa sig ekki fram af hálfum hug. „Það skiptir öllu að leggja vinnu í það sem þú vilt að blómstri og vera tengdur við augnablikið. Þú þarft líka að sjá hvað er í alvörunni í gangi, til þess að þú missir ekki af því. Þá áttu á hættu að vera að bíða eftir einhverju öðru sem lifir bara í höfðinu á þér.“

Hera bauð fjölskyldunni í bíó.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bríet kom vinkonu sinni rækilega á óvart með nýju hári – „Lít ég ekki út eins og ódýr hóra?“

Bríet kom vinkonu sinni rækilega á óvart með nýju hári – „Lít ég ekki út eins og ódýr hóra?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart
Fókus
Fyrir 5 dögum

Markle hneykslar enn á ný – Stal sviðsljósinu og sagði annarri að færa sig

Markle hneykslar enn á ný – Stal sviðsljósinu og sagði annarri að færa sig