fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Leikdómur: Samþykki – „Ólík staða kynjanna gagnvart lögunum og hin staurblinda „réttvísi“ er raunverulegt efni leikritsins“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 16. nóvember 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands,  skrifar í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, leikdóm um leiksýningu Þjóðarleikhússins, Samþykki, sem frumsýnt var 26. október.

Leikritið Samþykki er eftir breska leikskáldið og leikstjórann Ninu Raine. Eitt fyrri verka hennar, Tiger Country, sá ég í Hampstead Theatre 2015. Það fjallar um afmennskun heilsugæslunnar bresku, fjári gott verk sem ég skrifaði um hér á HugrásSamþykki er ársgamalt verk. Það kemur fram strax á eftir Weinstein málinu, #metoo#  byltingunni og öðrum áhrifamiklum viðburðum sem hafa vegið svo að karlveldinu að það verður aldrei samt eftir.

Veisla undir grjótvegg

Leikmynd Stígs Steinþórssonar er bæði stílfærð og stílhrein, gerð úr háum flekum í gráum og dökkbláum tónum en bakveggurinn var „glerveggur“ með bláan grunn og gólfið hulið fögru brúnmynstruðu teppi. Þetta minnti þannig á einhvers konar manngerða náttúru eins og hlöðnu grjótveggirnir á heimilum betri borgara í Reykjavík á sjöunda áratugnum. Og þarna fer fram „veisla undir grjótvegg/glervegg“ þar sem hjónin Kittý (Kristín Þóra Haraldsdóttir) og Edward (Snorri Engilbertsson) fagna fæðingu sonar og flutningi í nýja íbúð í Camden. Gestir þeirra eru hjónin Rakel (Birgitta Birgisdóttir) og Jake (Hallgrímur Ólafsson) auk bestu vinkonu Kittýar, leikkonunni Zöru (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) og besta (fjand)vini Edwards Tim (Stefán Hallur Stefánsson) er boðið líka. Vinapörin tvö eru að reyna að koma þeim síðast nefndu saman með frekar litlum árangri til að byrja með.

Lög og (ó)regla

Í partýinu eru fjórir lögfræðingar og málafærslumenn. Pörin í Samþykki eru millistéttarfólk á fertugsaldri og aldrei þessu vant skildi ég ekki hvert Þórunn María Jónsdóttir, búningahönnuður, var að fara, hvernig smekkur og stétt persónanna endurspeglaðist í klæðaburði persóna? Mér fannst búningarnir ansi sundurgerðarlegir, sérstaklega hinn grísk-innblásni kjóll Zöru.

Í upphafssenunni fara „strákarnir“ það er Ed, Jake, Tim (og hér má bæta Rakel við) að tala um málaferli vinnudagsins. Þeir tala um sig sem þáttakendur í málunum, „ég nauðgaði þremur í dag“ og „ég drap eina í dag“ og svo framvegis með tilheyrandi hrossahlátrum og kalsi. Þetta er vinnustaðahúmor sem er svo firrtur og ljótur að afar óþægilegt er að hlusta á hann.

Um leið er þetta undirbúningur undir næstu senu þar sem við sjáum Tim tala við skjólstæðing sinn, verkakonuna Gayle (Arndísi Hrönn Egilsdóttur) sem er fórnarlamb nauðgunar. Hann hefur ekki undirbúið sig og ráð hans til brotaþolans eru óskiljanleg. Verjandi og lögfræðingur meints nauðgara er Edward (fjand)vinur hans. Fyrir þeim tveimur er réttarhaldið leikur, skylmingar með orðum, sá vinnur sem veiðir hinn í gildruna. Konan sem brotið hefur verið á og beitt ofbeldi skiptir engu máli. Þeir „heyra“ ekki sögu hennar, „sjá“ ekki þjáningu hennar og hin hrjáða kona spyr: Af hverju fæ ÉG ekki lögfræðing (eins og ofbeldismaðurinn)?  Niðurstaðan er gefin, hún tapar málinu – hún gerir það alltaf og það hafa lögfræðingarnir sagt henni fyrir fram.

Takmörkuð samlíðan

Öll vinapörin fallegu dragast inn í tilfinningaþrungin uppgjör og átök út af framhjáhöldum sem oft verða farsakennd eins og fara gerir. Karlarnir eru miklu móðursjúkari en konurnar þegar þeir standa frammi fyrir trúnaðarbrestinum. Snorri Engilbertsson og Hallgrímur Ólafsson sýndu mikil tilþrif í harmi sínum yfir því að mega ekki halda framhjá án þess að það skapi læti og ásakanir hjá konunum. Þeir uppskáru hlátra hjá áhorfendum enda tilsvörin oft óborganleg. Konurnar voru hófstilltari en áttu sín reiðiköst. Birgitta, Kristín og Vigdís fóru vel með þau hlutverk. Samt er Arndís Hrönn eini leikarinn sem nær beint til áhorfenda í hlutverki verkakonunnar Gayle, konunnar sem var nauðgað. Hún spyr, að vonum, hvers vegna geðræn vandamál hennar (vegna fyrri nauðgunar) eru notuð gegn henni í réttinum á meðan ofbeldissaga gerandans er ekki einu sinni nefnd. Hún tapar málinu. Þarf að taka það fram?

Mér fannst það rangt og ruglandi að Arndís Hrönn skyldi líka látin leika hlutverk freðýsulegs sérfræðings í skilnaðarmálum, Lauru, fulltrúa kerfisins, sem tekur afstöðu gegn Kittý þegar hún hefur skilið við Ed og leitar ráða vegna nauðgunar í hjónabandi. Sami leikari fer með bæði hlutverkin í ensku sýningunni það er trúlega jafn ruglandi þar og hér.

#metoo#

Til hvers eru lögin ef tilfinningar og kvöl þess sem á undir högg að sækja og hefur verið beittur ofbeldi skiptir engu máli i dómsal og lögum? „Eru þau til að vernda konur gegn ofbeldi eða til að vernda karla eða jafnvel „karlmennskuna“gegn afleiðingunum af því…“ spyr Helena Kennedy, frægur mannréttindalögfræðingur, sem skrifar í ensku leikskrána um hið tvöfalda réttarkerfi sem gildir í heimi laganna.

Hið tvöfalda réttarkerfi blasti við heimsbyggðinni í nýlegu máli lögmannsins Brett Kavanaugh sem nú hefur tekið sæti sem dómari í Hæstarétti Bandaríkjanna. Þangað er hann kominn af því að hann hefur lýst því yfir að hann muni berjast gegn því ákvæði í stjórnarskránni sem tryggir konum rétt til fóstureyðinga. Það hefur væntanlega vegið þungt þegar Donald Trump ákvað að styðja hann til embættis og gerðist þá eini auðmaðurinn í lýðræðisríki sem hefur komist til valda með því að lofa að tryggja kynferðisleg völd karla yfir konum og líkömum þeirra, segir Laurie Penny, aðstoðarritstjóri blaðsins New Stateman.

Lögin eru þannig á „tveimur hæðum“ ef svo má segja. Ef Cristine Blasey Ford hefði verið í framboði til Hæstaréttar og tekið viðlíka æðiskast og Kavanaugh fyrir rétti, berjandi í borðið, ausandi hótunum og svívirðingum í allar áttir af stjórnlausum tilfinningaofstopa,  hefði hún verið fjarlægð í járnum úr réttarsalnum! En Kavanaugh mátti þetta. Hann „stóð sig vel.“

„Lögunum er ætlað að vernda karla fyrir valdi ríkisins sem er þeim æðra en ekki að vernda konur og börn fyrir valdi karla. Þau leggja þannig fram sterka tryggingu fyrir rétti hinna ákærðu en tryggja í raun engan rétt fyrir fórnarlambið“ (Judith Herman: Trauma and Recovery).

Þessi ólíka staða kynjanna gagnvart lögunum og hin staurblinda „réttvísi“ er hið raunverulega efni leikritsins Samþykki og kemur fram í sögu  Gayle og síðar Kitty en verr gengur í verkinu að tengja hinar persónurnar fjórar við þennan rauða þráð. Hvað skilja þær og hvað læra þær og hvernig framandgerir sú uppgötvun heim þeirra og fær okkur til að hugsa gagnrýnið um orsakir #metoo# sagnanna. Verk Ninu Raine herðir ekki þessar skrúfur, og það gerir sýningin ekki heldur í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur að mínu mati.

Ps: Ég kvarta hástöfum yfir þeirri ákvörðun Þjóðleikhússins að leggja niður leikskrár með góðum viðtölum við aðstandendur sýningar og greinum eftir sérfræðinga sem gefa leikhússáhorfendum hugmyndir til að vinna úr, hugsa um og ræða!

Greinin birtist fyrst í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“