Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tekur við völdum á Íslandi á morgun, laugardag. Þingflokkar verðandi stjórnarflokka koma saman klukkan 9 í fyrramálið og síðan verða fundir í valdastofnunum þeirra þar sem stjórnarsáttmáli og tillaga um ráðherra og skiptingu ráðuneyta verður kynnt. Forseti Íslands hefur boðað til ríkisráðsfundar eftir hádegi þar sem ný ríkisstjórn tekur við stjórnartaumunum.
Orðið á götunni er að stjórnarmyndun hafi gengið fljótt og vel fyrir sig en á morgun eru einungis þrjár vikur frá kjördegi. Ljóst er að Samfylkingin fær fjóra ráðherra og embætti forseta Alþingis sem talið er ráðherraígildi. Kristrún Frostadóttir verður forsætisráðherra, Alma Möller tekur við heilbrigðisráðuneytinu og Logi Einarsson verður einnig ráðherra. Óvíst er um skipan fjórða ráðherra Samfylkingarinnar og hver tekur við embætti forseta Alþingis. Þar koma helst til greina Dagur B. Eggertsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Talið er að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir taki utanríkisráðuneytið fram yfir að verða fjármála- og efnahagsráðherra en eftirláti það embætti varaformanni Viðreisnar, dr. Daða Má Kristóferssyni. Hann er ekki þingmaður en gegnir stöðu prófessors við hagfræðideild Háskóla Íslands. Samkvæmt sömu heimildum verður Hanna Katrín Friðriksson ráðherra menningar, iðnaðar, viðskipta og ferðamála og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra en hún er lögfræðingur að mennt.
Inga Sæland verður að sjálfsögðu ráðherra Flokks fólksins og trúlega einnig Ásthildur Lóa Þórsdóttir, 1. þingmaður Suðurkjördæmis, en hún vann stóran sigur í kjördæmi sínu þar sem Flokkur fólksins fékk tvo þingmenn kjörna. Hver þriðji ráðherra flokksins verður er óljóst. Margir koma til greina. Flokkur fólksins mun fara með félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið og tvö önnur. Orðið á götunni er að annað þeirra sé matvælaráðuneytið.
Ný ríkisstjórn fækkar strax um eitt ráðuneyti og einn ráðherra í sparnaðarskyni. Þar er um að ræða ráðuneyti háskólamála, vísinda og iðnaðar sem búið var til fyrir þremur árum en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur gegnt þar embætti ráðherra. Starfsmannafjöldi þess ráðuneytis er kominn í 40 manns. Verkefni ráðuneytisins sem nú verður lagt niður færast til þeirra ráðuneyta sem höfðu áður með málefni þess að gera. Við það ætti að sparast talsvert í starfsmannahaldi. Þetta eru skýr skilaboð frá nýrri ríkisstjórn um að nú verði beitt aðhaldi og ráðdeild í ríkisrekstri sem mikið hefur vantað upp hin síðari ár.
Orðið á götunni er að ný ríkisstjórn muni láta fara fram úttekt á stöðu ríkisfjármála og kalla eftir skýringum á viðvarandi hallarekstri ríkisins í tíð fráfarandi ríkistjórnar og fá svör við því hvers vegna stýrivextir hér á landi eru þrefaldir á við nágrannalöndin og verðbólga miklu meiri. Væntanlega verður erlendu ráðgjafafyrirtæki falið verkefnið.
Á morgun eru vetrarsólstöður og þá tekur daginn að lengja, birtan eykst. Vonandi birtir yfir íslensku samfélagi við þessi stjórnarskipti.