fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Mannleg reisn andspænis gervigreind

Eyjan
Sunnudaginn 12. febrúar 2023 16:20

Gullöld mælskumanna: Cicero flytur mál sitt gegn Catalínu í öldungaráðinu. Veggmynd frá árinu 1889.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1967 samdi Ómar Ragnarsson textann „Árið 2012“ sem Vilhjálmur Vilhjámsson söng inn á hljómplötu sama ár. Texti Ómars er smellinn og lagið heyrist enn af og til. Í framtíðarspánni eru meðal annars þessar hendingar:

Og ekki hafði neitt að gera útvarpsstjóri vor

því yfirmaður hans var lítill vasatransistor

og þingmennirnir okkar voru ei með fulle fem

því forsætisráðherrann var gamall IBM.

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að textinn var settur saman hefur tæknin leyst sífellt fleiri störf af hólmi þó svo að útvarpsstjórinn og forsætisráðherrann séu enn af holdi og blóði. Og tækninni fleygir fram sem aldrei fyrr en fátt er meira rætt þessar vikurnar en nýjasta undrið, „Chat-GPT“ sem fyrirtækið Open AI hleypti af stokkunum í nóvember í fyrra. GPT er skammstöfun á „generative pretrained transformer“ (gott væri ef snjallir íslenskumenn kæmu með þýðingu á þessu fyrirbæri). Um er að ræða gríðarstórt tauganet sem ofurtölvur hafa þjálfað. Útkoman úr þessum gervigreindarheila hefur vakið undrun margra en gervigreindin hefur nú þegar staðist fagpróf lækna í Bandaríkjunum og próf þau sem lögð eru fyrir MBA-nema við Wharton-viðskiptaháskólann í Pennsylvaníu.

Kann að valda straumhvörfum á mörgum sviðum

Svörin sem gervigreindin veitir eru afar nákvæm en reyndar oft kolröng (þetta er dálítið eins og að hlusta á hagfræðinga). Hvað sem byrjunarörðugleikum líður þá kann þessi nýjung að valda straumhvörfum á mörgum sviðum. En sagan kennir okkur að ávinningur af tækninýjungum kemur jafnan ekki fram í sömu andrá og uppgötvunin. James Watt fékk einkaleyfi fyrir gufuvélina 1769. En það var ekki fyrr en um öld síðar að gufuvélin hafði náð verulegri útbreiðslu. Sama má segja um uppgötvanir í rafmagnsfræðum — þær höfðu að mestu leyti komið fram á áttunda áratug nítjándu aldar. Sú tækni var lengi að ryðja sér rúms og ekki fyrr en komið var fram á tuttugustu öld að framleiðni tók að aukast verulega sem bein afleiðing rafvæðingar. Nýrra dæmi er tölvutæknin sjálf. Það var ekki fyrr en um miðjan tíunda áratug síðustu aldar sem hagfræðingar sáu merki þess að framleiðni hefði aukist verulega sem afleiðing tölvuvæðingar. Að því sögðu þá er heimurinn nú á meiri hraðferð en áður.

Í nýjasta tölublaði The Economist er vitnað til rannsóknar Eriks Brynjolfsson, við Stanford-háskóla, og fleiri vísindamanna sem benda á að í kjölfar tæknibreytinga kunni að fylgja samdráttarskeið. Það taki menn tíma að læra á nýja tækni og uppgötva leiðir til að hagnýta hana. Allnokkur ár getur tekið slíkt brautryðjendastarf að bera ávöxt svo að það skili sér í aukinni framleiðni.

Til gamans má geta þess að Erik Brynjólfsson er hálfur Íslendingur, sonur Ara Brynjólfssonar sem var kunnur eðlisfræðingur vestanhafs. Nú er tæknin orðin það fullkomin að ég gat á einni sekúndu fundið viðtal Páls Þórhallssonar, þá blaðamanns á Morgunblaðinu, við Erik frá árinu 1994. (Á þeim tíma var engin leið að finna gamalt dagblaðaefni nema með langri yfirlegu á lestrarsal Landsbókasafns.) Merkilegt nokk þá var ástæða símtals Páls tilvitnun til Eriks í The Economist! Í viðtalinu við Pál segir Erik frá rannsókn sinni á áhrifum tölvutækni á framleiðni sem ykist mjög hratt við innleiðingu hennar. Erik hefur því lengi sinnt rannsóknum á þessu sviði.

Áhrif gervigreindar á skólastarf

Ýmsir hafa bent á kosti gervigreindar við nám, hún geti verið nemendum eins konar einkakennari og hjálpað til við lausn margvíslegra þrauta. Nemandi minn við Háskólann í Reykjavík benti mér á það á dögunum að með hjálp þessarar nýju tækni hefði hann fundið afar áhugaverðar viðurkenndar fræðigreinar sem ekki höfðu komið upp í þeim leitarvélum sem hann notast venjulega við.

Tæknin hefur þó líka skuggahliðar. Fréttablaðið greindi í liðinni viku frá áhyggjum norskra kennara. Gervigreindin gæti unnið nánast hvaða heimaverkefni sem er, hún gæti hvort heldur sem er skilað af sér fullbúnum forritunarkóða eða túlkað ljóð Henrik Ibsens. Textinn sem þarna birtist nemendum sé nýr og því hvergi annars staðar að finna. Kennarasamtök í Noregi telja að getu þjóðarinnar til að lesa og skrifa sé ógnað og það sama gildi um lýðræði, þróun hugmynda og þekkingar. Nemendur verði eftir sem áður að öðlast góða færni í lestri og skrift.

Samuel H. Altman, forstjóri Open AI, segir nýju gervigreindina vera líkt og „rafhlaupahjól fyrir heilann“. Tim Kentereit, sem kennir kennaranemum stærðfræði í Bremen, gerði þessa líkingu Altmans að umtalsefni í viðtali í nýjasta hefti Der Spiegel og sagði það rétt að með gervigreindinni mætti komast afar hratt á áfangastað en við „lærum ekki að hjóla á rafhlaupahjóli“ bætti hann við. Notkun á gervigreind af þessu tagi krefðist þess að menn hefðu áður aflað sér undirstöðuþekkingar.

Annar viðmælandi Spiegel, Susanne Lin-Klitzing, formaður Félags þýskra textafræðinga, segir ekki rétt að nálgast nýja tækni sem þessa með boðum og bönnum — en nú sem aldrei fyrr sé þörf á rökhugsun. Spiegel ræddi í sömu umfjöllun við Enkelejda Kasneci, prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Tübingen. Hún segir mikilvægt að svörum gervigreindarinnar sé tekið með fyrirvara. Menn verði að skilja takmarkanir hennar. Sjálf hefur hún nýlega rannsakað efnið ásamt tuttugu öðrum vísindamönnum og samkvæmt niðurstöðum þeirra ber ótalmargt að varast, upplýsingar séu oft á tíðum rangar, ónákvæmar, óvarlega sé farið með höfundarréttarvarið efni o.s.frv.

Menntaskólakennarinn og bloggarinn, Bob Blume í Baden-Württemberg, segir nýju gervigreindina bjóða upp á ýmsa möguleika, en á því séu tvær hliðar. Afburðarnemendur sem læra að nýta sér hana geti öðlast mun meiri visku en ella, aftur á móti geti lakir námsmenn orðið enn lakari. Blume telur að skrifleg verkefni unnin án eftirlits muni heyra sögunni til í náinni framtíð í ljósi þess að engin leið verði að fylgjast með því hvort nemendur hafi afritað svörin einhvers staðar frá. Hið munnlega muni í síauknum mæli koma í stað þess skriflega í kennslu en segja má að það sé afturhvarf til fyrri tíma, „Wir erbleben eine Renaissance des Mündlichen,“ segir Blume í viðtalinu.

Munnleg endurreisn

Á dögum Forngrikkja mótaðist mælskulistin sem síðan fluttist yfir til Rómverja á lýðveldistímanum og var kölluð bene dicenti scienta eða vísindi þess að tala vel. Bene þýðir hér hvort tveggja fullkomnun verksins og siðferðileg fullkomnun ræðumannsins. Meðal Forngrikkja þróaðist röksemdafærslan sem þeir kölluðu logos og með persónuleika sínum skyldi mælskumaðurinn vinna hugi áheyrenda. Það var nefnt ethos. Gullöld hinna miklu mælskumanna leið undir lok við upphaf keisaratímans enda ekki lengur sama þörf á að menn stæðu fyrir máli sínu og fyrr. Mælskufræðin fór því að beinast fremur að hinu ritaða máli en því talaða. Þannig hélst það áfram út fornöld og fram eftir miðöldum — enda lýðræði þá bara einhver óljós hugmynd aftan úr forneskju.

Í einhverjum skilningi erum við enn — tvö þúsund árum síðar — á öld hins skrifaða máls. Hæfni gervigreindar til að vinna úr heimildum og að skrifa texta er nú orðin slík að óhjákvæmilega þarf maðurinn að hverfa sjálfur aftur meira til hins talaða máls; nemendur í skólum standi í síauknum mæli skil á verkefnum munnlega og blaðlaust, próf verði fremur munnleg en skrifleg og samskipti okkar sömuleiðis. Rökræðan í kennslustofunni verður mun mikilvægari eftir því sem aðgengi að upplýsingum eykst. Sömuleiðis þarf að efla hvers kyns munnleg fundarstörf þar sem lýðræðislegum leikreglum er fylgt — við aðstæður þar sem maðurinn hefur stjórn en verður ekki undirgefinn tækninni. Kjarni máls er nefnilega sá að taka þarf nýjungar, líkt og gervigreindina, í þjónustu okkar og gæta þess að sérhver einstaklingur sé herra í eigin lífi. — Maðurinn má ekki undir neinum kringumstæðum verða þræll tækninnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum
EyjanFastir pennar
03.03.2024

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð