fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Fjórum ráðherrum ofaukið

Eyjan
Sunnudaginn 4. september 2022 17:00

Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Jón Bragason skrifar: 

Á farsóttartímanum var mönnum gert skylt að halda sig í skikkanlegri fjarlægð hver frá öðrum. Þetta skapaði margvíslegan vanda, meðal annars í ríkisráði og í Danmörku og Noregi fékk bara hluti ráðherra að mæta á ríkisráðsfundi við þær aðstæður. Hér á landi var brugðið á það ráð að ná í borðstofuborðið úr Bessastaðastofu þar sem ríkisráðsborðið er ekki stórt. Ráðherrunum var síðan raðað við borstofuborðið með hæfilegu bili milli manna.

Þegar tjöldin höfðu verið dregin fyrir í farsóttarleikhúsinu var hægt að efna til ríkisráðsfundar við gamla ríkisráðsborðið eins og sjá mátti á forsíðu Fréttablaðsins á fimmtudaginn var. Myndin er í meira lagi táknræn því þrátt fyrir að þétt sé setið er engin leið fyrir ráðherrana að komast fyrir. Fjórir af tólf eru úti á kanti. Hér er útþensla ríkisbáknsins beinlínis fest á filmu eins og hún birtist eftir fjölgun ráðherra.

Handvaldir æðstu embættismenn

Ekki nóg með að Stjórnarráðið blási út heldur eru ráðherrarnir flestir frekir til valdsins. Frá því var greint á dögunum að þrír af fjórum ráðuneytisstjórum sem skipaðir hafa verið á þessu ári hefðu fengið skipun án þess að staðan væri auglýst. Í fréttaskýringu Kjarnans 25. ágúst sl. kom síðan fram að sjö af tólf núverandi ráðuneytisstjórum hefðu verið skipaðir án auglýsingar. Hér er undanþáguheimild beitt frjálslega svo ráðherrar fái vilja sínum framgengt við skipanir. Raunar er undantekningin frá því að auglýsa stöður frekar orðin að reglu hjá ráðherrum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar, sagði hreint út í viðtali við Fréttablaðið á dögunum að verið væri að misbeita lögum. Þetta háttalag ráðherranna yki hættu á geðþóttaákvörðunum og jafnvel klíkuskap.

Almenna reglan hefur verið sú, allt frá setningu laga um ríkisstarfsmenn 1954, að laus störf og embætti eigi að auglýsa. Fyrir því eru þau sjálfsögðu rök í réttarríki að virða jafnræði borgaranna — að þeir eigi jafnan möguleika á að sækja um störf. Þá er það líka hagsmunamál ríkisins að geta valið úr hópi umsækjanda svo hinn hæfasti finnist til viðkomandi starfa. Þessar grundvallarreglur eru raunar svo sjálfsagðar að ég hefði haldið að ekki þyrfti að deila um þær. Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur gerði málinu skil í grein á Vísi á þriðjudaginn var. Hann segir breytinguna núna gerða

„á pólitískum forsendum, til að styrkja stöðu ríkisstjórnarflokkanna í ráðuneytunum. Að svo miklu leyti sem þetta á við er um afturhvarf til eldri og verri tíma að ræða. Frá þróuðum stjórnarháttum til geðþótta. Stundum er ráðherrann að kalla til sín einhvern sem hann ber trúnað til.“

Hann bendir á að afleiðingar þessa gætu orðið að nýr ráðherra vantreysti þeim ráðuneytisstjóra sem fyrir er — sem hefði verið handvalinn af fyrirrennaranum í stað þess að hljóta skipun á grundvelli auglýsingar þar sem öllum lögum var framfylgt. Það kynni síðan aftur að hafa í för með sér að embættismannakerfið yrði að einhverju marki pólitískt en ekki faglegt — líkt og þekkist í Bandaríkjunum. Vilji menn fara þá leið þarf breyta lögum — ekki gengur að ráðherrar amerikaniseri Stjórnarráðið með misbeitingu undanþáguheimildar.

„Kerfið“ í fyrirrúmi — ekki fólkið

Hún var í meira lagi áhugaverð fréttaskýringin í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn var þar sem fram kom að undanfarin áratug hafi stjórnmálaflokkarnir tekið sér sjö milljarða króna frá skattgreiðendum en greiðslurnar hafa rokið upp úr öllu valdi í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Mest hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið greitt á þessu tímabili, eða 1,7 milljarða og greiðslur til Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna eru sömuleiðis á annan milljarð króna til hvers um sig.

Ég hef reglulega gert ríkisstyrknum skil hér þessum vettvangi en líklega er þessi háa þvingunargreiðsla skattborgara til stjórnmálaflokkanna mesta meinsemd íslenskra stjórnmála. Flokkarnir hafa mikið til slitnað úr lífrænum tengslum við þjóðlífið fyrir vikið og líkjast frekar ríkisstofnunum en frjálsum félagasamtökum því samhliða ríkisvæðingunni hefur grafið undan félagsstarfi í flokkunum. Það gleymist nefnilega alltof oft að framlag flokksmanna er ekki bara fjárhagslegt — mikilvægasta framlagið er þátttaka í málefnastarfi.

Tilvist frjálsra stjórnmálasamtaka sem starfa án afskipta ríkisvaldsins er ein meginforsenda lýðræðislegra stjórnarhátta. Í lýðræðisríki eru þeir helsti vettvangur pólitískrar þátttöku borgaranna, þar er unnið að samþættingu hagsmuna í samfélaginu í heildstæða stefnu, þar er fólk valið til pólitískrar forystu og flokkarnir þjálfa fólk í málefnastarfi og auka hæfni þess til að taka þátt í stjórnmálum. Og takist vel til með allt þetta verða flokkarnir skýrir valkostir fyrir kjósendur í kosningum til þings og sveitarstjórna.

Algjör ríkisvæðing flokkakerfisins vinnur gegn þessu mikilvæga lýðræðislega hlutverki stjórnmálasamtaka. Brýnt er að vinda ofan af fjáraustrinum í flokkana en í því efni má margt læra af öðrum þjóðum. Í Þýskalandi mega opinberir styrkir til stjórnmálasamtaka aldrei nema meira en sem samsvarar samanlögðu sjálfsaflafé flokkanna. Aðal tekjustofn þýskra stjórnmálaflokka eru félagsgjöld en til að hvetja almenning til þátttöku eru fjárframlögin frádráttarbær frá skatti. Og rétt að taka fram að hér er ekki um að ræða styrki frá lögaðilum — þeir vega ekki eins þungt.

Þetta er eitthvað sem horfa má til; að styrkur hins opinbera til flokkanna verði aldrei hærri en sjálfsaflafé þeirra. Samhliða yrði kerfinu þannig fyrirkomið að flokkarnir hefðu hag af því að virkja sem flesta til þátttöku og ekki nema eðlilegt að félagsmenn láti fjármuni af hendi rakna til starfseminnar líkt og í öðrum frjálsum félagasamtökum. Margt smátt gerir eitt stórt. Með þessu móti yrðu flokkarnir færðir nær almenningi á nýjan leik og fjær ríkisvaldinu enda er það hlutverk stjórnmálasamtaka að bæta samfélagið á grundvelli skýrrar hugmyndafræði. Hagsmunir ríkisvaldsins — eða „kerfisins“ — fara aftur á móti fráleitt alltaf saman við hagsmuni almennings líkt og sjá má af geðþóttaskipunum embættismanna og offjölgun ráðherra — en að minnsta kosti fjórum þeirra er ofaukið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum
EyjanFastir pennar
03.03.2024

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð