Manchester United tapaði gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni í gær og heldur slakt gengi liðsins undir stjórn Ruben Amorim áfram.
Leiknum lauk 3-1 og er United nú með aðeins sjö stig eftir sex umferðir í deildinni. Kemur það í kjölfar þess að Amorim skilaði liðinu í 15. sæti í vor.
Þetta var þá sautjánda tap Portúgalans í 33 deildarleikjum. Hefur hann því tapað meirihluta leikja sinna við stjórnvölinn.
Það gekk töluvert betur hjá Amorim hjá Sporting í heimalandinu áður en hann tók við United. Þar tapaði hann aðeins fjórtán sinnum í 167 deildarleikjum.
Ekki er ljóst hvort sæti Amorim sé farið að hitna af alvöru, en ljóst er að margir stuðningsmenn United eru komnir með nóg.