Atvikið sem um ræðir kom upp í Los Angeles-sýslu í Bandaríkjunum.
Í frétt AP kemur fram að svokölluð innlyksuheilabólga (SSPE) hafi dregið barnið til dauða en um er að ræða sjúkdóm þar sem taugar og heilavefur rýrna smám saman.
Talið er að mislingaveirusýkingin hafi framkallað sjúkdóminn. Bent er á það að barnið hafi verið ungt til að fá bólusetningu gegn mislingum þegar það smitaðist af veirunni. Það náði sér að fullu og var við góða heilsu í mörg ár áður en heilabólgan uppgötvaðist.
Einkenni SSPE sjást yfirleitt ekki fyrr en 7-10 árum eftir sýkinguna og fela einkennin í sér breytingar á persónuleika, stigvaxandi geðræna rýrnun, vöðvakrampa og önnur taugavöðvaeinkenni. Engin lækning er til við SSPE og hann leiðir alltaf til dauða.
Talið er að einn af hverjum tíu þúsund sem fá mislinga þrói með sér SSPE en áhættan er meiri meðal nýbura þar sem um einn af hverjum 600 þróa með sér SSPE.
„Þetta mál er sársaukafull áminning um hversu hættulegir mislingar geta verið, sérstaklega fyrir okkar viðkvæmasta hóip,“ segir Dr. Muntu Davis, heilbrigðisfulltrúi í Los Angeles-sýslu.
„Ungbörn sem eru of ungt til að vera bólusett reiða sig á okkur öll til að hjálpa til við að vernda þau með hjarðónæmi,“ segir hann.
Árið 2025 hefur verið það versta með tilliti til fjölda mislingasmita í meira en þrjá áratugi. Er ástæðan rakin til þess að bólusetningarhlutfall barna hefur lækkað með þeim afleiðingum að faraldrar, bæði innanlands og utan lands, hafa breiðst út.